fbpx
Sunnudagur 24.nóvember 2024
EyjanFastir pennar

Steinunn Ólína skrifar: Það er gott að vera gallagripur

Eyjan
Föstudaginn 5. janúar 2024 06:00

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir Mynd: Kári Sverrisson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þetta eru fyrstu áramót sem ég man eftir mér fullorðinni þar sem ég fyllist ekki angurværð og trega. Ég átti vanda til að verða tilfinningasöm um áramót og hugsa óþarflega mikið um það sem liðið er og það sem ég átti og missti. Það er ekki svo að skilja að ég sé orðin tilfinningalaus með öllu heldur frekar að það er að verða til einhver sátt við hið liðna og nærveran við þá sátt hefur orðið áþreifanlegri undanfarið ár.

Mér finnst þetta vera dálítil framför hjá mér, því eftirsjáin eftir því, sem var gott og aldrei verður aftur er auðvitað eðlileg, en marklaus þjónkun við það sem erfitt var er ekki uppbyggileg og oft þvert á móti afskaplega hamlandi.

Aðdragandinn að sáttinni sem mér finnst ég eygja er reyndar mikið lengri, en fyrstu merki þess að sáttin væri raunverulega innan seilingar fann ég sumsé greinilega nú í upphafi árs og fann reyndar aðeins fyrir þakklæti fyrir allt það sem ég hef lifað og reynt. Bæði gott og slæmt, því ég rölti auðvitað niður minningarstrætið.

Sumar kennslustundir lífsins hafa verið óþarflega þungbærar og erfiðar en eftir á að hyggja dró ég af þeim mestan lærdóm. Þær hafa kennt mér ýmislegt um sjálfa mig, bæði hvar óöryggi mitt var mest en ekki síður hvað styrkleikar mínir liggja. Sum erfið reynsla hafði verið mér þrándur í götu jafnvel áratugum saman, þættir úr æsku minni, uppeldi og atvik sem ég lifði sem ung kona, sem voru langt frá því að vera upp á 10, sem ég hef loks skilið að þurfa ekki að vera mér fjötur um fót lengur. Það er sannarlega tilhlökkunarefni að sjá fram á framtíð lausa undan þeim farangri ef þessi líðan heldur, sem ég ætla sannarlega að vona.

Allt sem við lifum og lendum í er ekki kjarninn í manneskjunum og það er varasamt held ég að skilgreina sig út frá því sem lífið býður okkur að reyna. Að klæða sig í þau hlutverk sem lífið réttir að manni og haga sér samkvæmt þeim eins og það sé skylda.  Með því bíður maður þeirri hættu heim að verða einhverskonar fórnarlamb aðstæðna og missir hugsanlega af því að láta reyna á hvers við erum megnug í krafti okkar sjálfs.

Við búum ótvírætt yfir hæfileikanum til þess að lækna okkur sjálf að einhverju leyti, það þarfnast áræðni að róta upp ruslinu sem í manni býr, en til mikils að vinna. Það er ekkert varið í að sitja uppi með skemmdirnar, það er bara eins og að búa í hripleku húsi. Suman farangur þurfum við ekkert að burðast með allt lífið okkur sjálfum og öðrum til óþurftar.

Margir fara í sjálfstiltekt með aðstoð góðs fagfólks, af því hef ég bæði góða og tilgangslausa reynslu. Ekki hentar sama öllum, en í mínu tilfelli hefur það ekki síst verið að eiga að góðar manneskjur sem forðast ekki að líta í spegilinn þótt ekki sé þar allt fagurt á að líta. Ég er heppin að þekkja hugrakkt fólk sem hefur lært að hata sig ekki, þrátt fyrir að hafa misstigið sig eða dæma sig ekki úr leik fyrir að hafa liðið og reynt ýmislegt misjafnt. Maður nærist best á einlægum og góðum samskiptum við fólk sem er óhrætt við að tala tæpitungulaust og kann að hlusta. Slíka vini skal rækta, slíkir vinir eru betri en nokkur bætiefni og líklegri til að koma fólki til heilsu en nokkur opinber heilsustofnun.

Ég hef líka lært að ekki er gáfulegt að stinga því erfiða undir stól, því sá stóll fylgir þér eins og skuggi hvert sem þú ferð. Hvert sem þú ferð, þá er hann þar, fjárans stóllinn og draslið sömuleiðis.

Ég trúi því eins og barn, af því að ég er eins og barn, búandi við þau forréttindi að eiga heima á þessu fallega, friðsæla landi, að erfiðleikar og áföll sem við lifum komi til okkar af því að við ráðum við þau. En við verðum að þora að takast á við þau sjálf og láta ekki aðra eða okkur sjálf telja okkur trú um að einhver annar eða annað komi til með að leysa úr sálarflækjunum fyrir okkur.

Mér finnst í það minnsta betra að hugsa hlutina á þann hátt, því þá hef ég sjálf tilgang og ábyrgð og verk að vinna. Það er augljóst að það er fráleitt að hugsa svo til sín að maður hafi átt slæmt skilið. Það á enginn slæmt skilið. Hvað mig sjálfa varðar voru þetta einfaldlega kennslustundir sem ég þurfti að sitja til að ég gæti fengið að upplifa raunverulegra gleði og þakklæti.

Við sem erum í forréttindastöðu hvað lífsgæði snertir ættum ekki að forðast að horfa í spegilinn og vinna heimavinnuna okkar. Okkar vegna.

Ég er sumsé í miðaldrakrísunni miðri, enda á ég fyrr en ég get snúið mér við, ef allt fer að óskum, bráðum fjögur fullvaxta börn, sem eru byrjuð að takast á við ýmsar áskoranir sjálf. Það er djöfullega erfitt að vera ung manneskja, allavega fannst mér það, og samtíminn er frekar kaldur og harður húsbóndi. Því er stanslaust haldið að okkur, að okkur skorti margt og hamrað á að við þurfum sífellt að fara út fyrir okkur sjálf til að finna hvar gleðin býr og hjartað slær. Það er sérlega hart gengið að ungu fólki á þessum nótum. Og við fullorðin sem fyrirmyndir erum ekkert að standa okkur sérstaklega vel í viðspyrnunni og föllum í gildrurnar sjálf, aftur og aftur.

Söluvaran, hamingjan sjálf, sem kaupmenn heimsins hafa slegið eign sinni á, þarf helst að vera stanslaus og stöðug. Markaðurinn svokallaði, sem er sköpunarverk mannanna, sér svo rækilega til þess að hamingjan sé matreidd á sem fjölbreyttastan hátt svo að það sé alveg öruggt að við finnum til vanmáttar og skorts, þó í raun vanhagi okkur ekki um neitt.  Samanburðurinn við aðra er rækilega markaðssettur svo við megum bera okkur sjálf sem oftast við aðra og finna þar með til enn frekari vanmáttar.

Þessi vítahringur og leit að einhverju, sem að við förum að trúa að við þörfnumst, er bæði slítandi og ófullnægjandi og auðvitað er það svo að á meðan að þetta eru háværustu fagnaðarerindin sem boðuð eru fjarlægjumst við hvert annað og okkur sjálf alltaf meira og meir. Og fyrir vikið situr sú heimavinna sem hver fullorðin einstaklingur þyrfti óhjákvæmilega að vinna, sjálfs sín vegna, á hakanum. Næði þessa dagana er ekki auðsótt og afskaplega illa markaðssett.

Við vitum að allt á sér andhverfu. Samt er það vandlega bælt í söluræðunum sem bjóða upp á lyklana að hamingjunni ef við bara; gerum þetta eða hitt, eignumst þetta eða hitt, förum hingað eða þangað, því þá verði allt svo frábært!

Það sem við gleymum hins vegar, eða forðumst að muna, er að við drögnumst alltaf um með okkur sjálf, meingölluð náttúrulega. Gallagripurinn Steinunn Ólína verður ekkert skárri þó hún klæði sig í fallegan kjól, fái stærri leikhlutverk, láti stækka á sér nefið, éti fasana og gisti í svítu. Gallagripurinn Steinunn verður aðeins skárri ef hún þorir að gangast við sjálfri sér með illu og góðu. Og það er eins og lífið sjálft, verk í vinnslu.

Ég og örugglega margir þrá að geta fagnað hverjum degi sem nýju tækifæri með fullri meðvitund um kosti sína og takmarkanir. Sáttir við að vera bara ágætis gallagripir.

Í myrkrinu, angistinni og óttanum, þar sem við skoðum það sem við forðumst, og viljum helst gleyma, er vegurinn að ljósinu og að leið sem er fararinnar virði. Það er vont en það er til frelsunar. Ég lofa.

Aldrei má gleyma að hafa húmor fyrir sjálfum sér og sjá það broslega í viðleitni okkar og annara til að forðast það, sem er beint fyrir framan nefið á okkur. Við erum nefnilega kostulegar skepnur.

Allir þekkja sögur úr eigin lífi, eða þeirra sem þeir til þekkja, af eldhúsinnréttingum eða sófasettum sem urðu skyndilega forsenda boðlegs jólahalds, brúðkaupum sem áttu að bæta samböndin, rifrildum sem héldu fyrir fólki vöku, börnum sem boðið var í heiminn til að stilla til friðar meðal fullorðins fólks, stöðuhækkuninni sem átti að veita lífsfyllingu, og bara öllu bullinu sem við teljum okkur trú um að setji plástur á hjartasárið, þegar við erum á harðahlaupum undan okkur sjálfum.

Hjartað í okkur öllum slær til lífs og þráir aðeins eitt. Að við elskum og séum elskuð.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Eldhúsborðin og umheimurinn

Þorsteinn Pálsson skrifar: Eldhúsborðin og umheimurinn
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Björn Jón skrifar: Endimörk dellunnar

Björn Jón skrifar: Endimörk dellunnar
EyjanFastir pennar
20.10.2024

Björn Jón skrifar: Sögubrot í miðri atburðarás

Björn Jón skrifar: Sögubrot í miðri atburðarás
EyjanFastir pennar
19.10.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Fóstbræðrasaga síðari tíma upplausnar

Sigmundur Ernir skrifar: Fóstbræðrasaga síðari tíma upplausnar
EyjanFastir pennar
12.10.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Vandi villta vinstrisins

Sigmundur Ernir skrifar: Vandi villta vinstrisins
EyjanFastir pennar
12.10.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Ríkisstjórn á skilnaðarbraut

Óttar Guðmundsson skrifar: Ríkisstjórn á skilnaðarbraut