Ólafur Ragnar Grímsson breytti og jók vægi forsetaembættisins á hinu pólitíska sviði með því að láta reyna á þanþol stjórnarskrárinnar og Guðni Th. Jóhannesson hefur lýst sig sammála túlkun Ólafs Ragnars á valdi forseta þó að ekki hafi reynt á afstöðu hans gagnvart synjun laga eða þingrofsbeiðni, að sögn Ólafs Þ. Harðarsonar, prófessors emeritus í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Ólafur er gestur Ólafs Arnarsonar í fyrsta hlaðvarpsþætti nýs árs á Eyjunni. Þeir fara yfir víðan völl.
„Já, hann jók held ég greinilega pólitískt vægi forsetaembættisins. Forsetarnir, sérstaklega tveir á undan honum, Vigdís og Kristján Eldjárn, sem voru bæði mjög farsælir forsetar. Þau höfðu ekkert skipt sér af pólitík. Vigdís fékk t.d. mikinn fjölda áskorana um að setja EES-samninginn í þjóðaratkvæði sem hún ákvað að verða ekki við og gaf út sérstaka yfirlýsingu um að hún vildi ekki breyta hefðum embættisins,“ segir Ólafur.
„Ólafur, hins vegar, reyndi á þanþol stjórnarskrárinnar vegna þess að stjórnarskráin er tiltölulega óljós um marga hluti og forsetinn hefur töluvert sjálfdæmi um það hvernig hann túlkar hana. Helstu breytingarnar sem Ólafur gerði. svona stjórnskipulega eða túlkun á stjórnskipaninni, þá held ég að það sé fyrst og fremst tvennt sem skiptir þar verulega miklu máli. Í fyrra lagi, eins og þú nefnir, þá virkjaði hann synjunarákvæðið sem hann hafði nú sjálfur skrifað um á áttunda áratugnum að orðið væri dauður bókstafur og átti náttúrlega við að það væri dauður bókstafur í þeim skilningi að það hefði aldrei verið notað og væri ekki líklegt að yrði notað – en hann var ekki að segja að það væri dauður bókstafur í þeim skilningi að forsetinn hefði ekki þetta vald,“ segir Ólafur og bætir því við að það teljist til meiriháttar tíðinda að Ólafur Ragnar skyldi virkja þetta vald og synja þrisvar á sínum 20 ára ferli.
„Hitt, sem menn hafa kannski minna tekið eftir, er að hann breytti hefðbundinni túlkun á hlutverki forsetans varðandi þingrof,“ segir Ólafur. „Menn höfðu áður litið svo á, og ég hafði skrifað í yfirlitsgreinum um íslensk stjórnmál að þingrofsvaldið væri í reynd hjá forsætisráðherranum þó að formlega færi forsetinn með það vald, en það datt eiginlega engum í hug á þessum tíma að forsetinn myndi neita forsætisráðherranum um þingrof ef hann óskaði eftir því. Ég komst nú að því snemma á ferli Ólafs að hann hafði allt aðrar skoðanir á þessu og hann taldi að það væri sjálfstæð aðkoma forsetans að þingrofi og síðan, 2016, þá gekk Sigmundur Davíð á hans fund og þeim ber nú ekki alveg saman um hvað gerðist á þeim fundi en Ólafur fullyrðir að Sigmundur hafi verið að biðja um þingrof – hann hafi að minnsta kosti verið með skjalatöskuna þar sem slíkar beiðnir eru venjulega geymdar hjá forsætisráðherranum.“
Ólafur Þ. segir að í öllu falli hafi Ólafur Ragnar gert grundvallarbreytingu: „Núna held ég að allir fallist á það, eða það sé orðin hefðbundin túlkun, að forsetinn hafi þarna sjálfstæða aðkomu og hann sé ekki skyldugur til að verða við þingrofsbeiðni þó að forsætisráðherra beri hana fram. Þetta tvennt er pólitískt mikilvægt.“
Myndirðu þá líta svo á að hann hafi frumkvæðisvald hvað þingrof varðar?
„Nei, hann hefur ekki frumkvæðisvald, hann getur ekki rofið þingið upp á sitt eindæmi,“ segir Ólafur og bætir því við að rétt sé að undirstrika varðandi Guðna, núverandi forseta, sé að þó að hann hafi ekki beitt synjunarvaldinu og það hafi ekki komið upp sú staða að hann þyrfti að taka afstöðu til þingrofsbeiðni þá hafi hann klárlega lýst því yfir að hann væri sammála Ólafi Ragnari um þessa túlkun.
Þeir nafnar ræða meira um forsetaembættið, komandi forsetakosningar og mögulega frambjóðendur. Þeir rifja upp fyrsta skiptið sem kjósendur Sjálfstæðisflokksins fengu sinn frambjóðanda kjörinn á Bessastaði. Þá fara þeir yfir pólitíkina og veika stöðu Sjálfstæðisflokksins og raunar allra stjórnarflokkanna, stöðu einstakra forystumanna og fara vítt og breitt yfir völlinn. Hlaðvarpið í heild verður aðgengilegt hér á Eyjunni kl. 10 í fyrramálið, laugardaginn 6. janúar.