fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
EyjanFastir pennar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Hugrekki, patentlausnir og glamúr

Eyjan
Fimmtudaginn 4. janúar 2024 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það einkennir oft umræðu um efnahagsmál á Íslandi að leitað er logandi ljósi að sökudólgi í stað þess að líta í eigin barm. Í því samhengi er oft bent á íslensku krónuna. Það er þægilegt að telja sér trú um að til séu sársaukalausar töfralausnir á efnahagsáskorunum Íslendinga, eins og til dæmis að skipta bara um gjaldmiðil. Því miður eru slíkar patentlausnir sjaldnast lykillinn og takmarkaður glamúr og glans yfir raunverulegu lausnunum. Því verður ekki neitað að ef við tækjum upp annan gjaldmiðil, tökum evru sem dæmi, og næðum að fylgja þeim aga sem henni fylgir yrði vaxtastigið hér á landi lægra. Aftur á móti ætti það líka við ef við héldum krónunni en myndum tileinka okkur sama aga. Í báðum tilfellum eru grunnstefin stöðugleiki og öguð hagstjórn. Það er nefnilega tómt mál að taka upp nýjan gjaldmiðil í leit að stöðugleika. Gjaldmiðlar eru ekki rót óstöðugleikans, þeir eru einfaldlega spegilmynd hans.“

Þetta er tilvitnun í áramótahugvekju Sigríðar Margrétar Oddsdóttur framkvæmdastjóra SA í Viðskipta-Mogganum. Að auki skrifaði hún að hugrekki, kjark og þor þyrfti til að segja hlutina eins og þeir eru.

En eru hlutirnir svona? Skoðum það:

Fyrsta athugasemd

Það er fölsk staðhæfing að þeir sem vilja skoða upptöku evru, þar á meðal margir viðsemjendur SA, haldi því fram að sú kerfisbreyting leysi Íslendinga sjálfkrafa undan agaðri hagstjórn.

Það sem menn og konur hafa sagt er þetta: Traustur gjaldmiðill er verkfæri sem auðveldar okkur að ná stöðugleika.

Önnur athugasemd

Þegar framkvæmdastjóri SA blaðar í félagaskrá sinni eru hlutirnir svona:

Tvö af þremur stærstu orkufyrirtækjunum, öll stóriðjufyrirtækin, öll stærstu sjávarútvegsfyrirtækin, öll stærstu ferðaþjónustufyrirtækin, öll stærstu fyrirtækin í þekkingariðnaði og helstu eignarhaldsfyrirtækin standa utan krónuhagkerfisins. Fyrir vikið fá þau helmingi betri vaxtakjör en önnur aðildarfyrirtæki SA og launafólk.

Að auki fara langtíma lánaviðskipti þeirra aðildarfyrirtækja SA, sem ekki eru á erlendum lánamarkaði, fram í verðtryggðum krónum. Þær eru þeirrar náttúru að geta ekki gengisfallið og lúta því allt öðru lögmáli en íslenska krónan.

Óskin um sameiginlegan stöðugan gjaldmiðil fyrir alla snýst um þá hugmyndafræði að allir sitji við sama borð. Er það glamúrboðskapur?

Þriðja athugasemd

Gjaldmiðill hefur þríþætt hlutverk. Hann er milliliður í viðskiptum. Hann geymir verðmæti. Og hann er mælikvarði á árangur efnahagslegrar starfsemi.

Evran uppfyllir þessi þrjú skilyrði.

  • Krónan er yfirleitt nothæf í almennum innlendum viðskiptum. Ekkert bílaumboð með aðild að SA gefur þó viðskiptavinum sínum kost á að festa kaup á nýjum bíl í íslenskum krónum. Slík viðskipti við aðildarfyrirtækin eru bundin í erlendri mynt.
  • Krónan geymir ekki verðmæti og er því ónothæf í lánaviðskiptum til lengri tíma. Til þess nota aðildarfyrirtæki SA sérstaka ógengisfellanlega krónu.
  • Krónan er flöktandi mælikvarði á efnahagslegan árangur. Þess vegna gera þau  aðildarfyrirtæki SA upp í erlendri mynt, sem fá til þess sérstakt leyfi.
  • Krónan hefur svo þá sérstöðu í alþjóðasamfélagi gjaldmiðla að rúmlega heil þjóðarframleiðsla í eignum lífeyrissjóða er fest í gjaldeyrishöftum til að halda uppi verðgildi hennar.

Hvergi á vesturlöndum fyrirfinnst flóknara gjaldmiðlakerfi í einu landi. Er ekki nær lagi að kalla þetta fyrirkomulag samansafn patentlausna?

Fjórða athugasemd

Framkvæmdastjóri SA segir að allt sem þurfi sé bara sami hagstjórnaragi og hjá grannþjóðunum.

Verðbólga er sjö sinnum hærri á Íslandi en í Danmörku. Samkvæmt þessari röksemdafærslu eru ráðherrar í ríkisstjórn Danmerkur sjö sinnum hæfari til að halda aga í hagkerfinu en ráðherrar í ríkisstjórn Íslands.

Er þetta trúverðugt?

Er ekki hitt alveg eins trúlegt að íslenskir ráðherrar séu álíka hæfir og danskir ráðherrar en hafi bara lélegri verkfæri?

Fimmta athugasemd

Í tvennum síðustu kjarasamningum hefur SA samið við viðsemjendur sína  um miklar skattalækkanir og aukin útgjöld ríkissjóðs. Meiri verðbólga og miklu hærri vextir en í grannlöndunum eru mælikvarði á árangurinn.

Nú hefur SA gert þjóðarsátt við viðsemjendur sína um margfalt meiri hækkun útgjalda ríkissjóðs en áður. Þjóðarsáttin 1990 snerist hins vegar um stöðugan gjaldmiðil; ekki um aukin ríkisútgjöld.

Hefði það kannski fremur sýnt hugrekki að fallast á upphaflega tillögu viðsemjendanna um að skoða stöðugan gjaldmiðil?

Sjötta athugasemd

Gjaldmiðlar eru ekki rót óstöðugleikans skrifar framkvæmdastjóri SA.

Helstu sérfræðingar landsins í peningahagfræði, Ásgeir Jónsson og Hersir Sigurgeirsson, komust hins vegar að þessari niðurstöðu 2014:

Þó svo að sveigjanlegt gengi eigi samkvæmt klassískum hagfræðikenningum að mýkja hagsveiflur, og gengið falli þegar illa árar fyrir þjóðarbúskapinn, er reyndin samt sem áður sú að frjáls gjaldeyrismarkaður er oftar en ekki uppspretta sveiflna fremur en mótvægi gegn þeim. Það stafar af því að gjaldeyrisvelta er mikil og oft ofsakennd og íslensk stjórnvöld geta aldrei haft nema mjög takmarkaða stjórn á gengisþróuninni.“

Er þetta glamúrhagfræðikenning? Eða lýsing á hlutunum eins og þeir eru?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Meirihluti fyrir málamiðlun um þjóðaratkvæði

Þorsteinn Pálsson skrifar: Meirihluti fyrir málamiðlun um þjóðaratkvæði
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Ástæða til bjartsýni á framtíðina

Björn Jón skrifar: Ástæða til bjartsýni á framtíðina
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Einmanaleiki drykkjunnar

Óttar Guðmundsson skrifar: Einmanaleiki drykkjunnar
EyjanFastir pennar
14.11.2024

Ágúst Borgþór skrifar: Þórður Snær myndi slaufa Þórði Snæ

Ágúst Borgþór skrifar: Þórður Snær myndi slaufa Þórði Snæ
EyjanFastir pennar
14.11.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Satt eða logið

Þorsteinn Pálsson skrifar: Satt eða logið
EyjanFastir pennar
07.11.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Eldhúsborðin og umheimurinn

Þorsteinn Pálsson skrifar: Eldhúsborðin og umheimurinn
EyjanFastir pennar
02.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða þjóðin

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða þjóðin