fbpx
Miðvikudagur 25.desember 2024
EyjanFastir pennar

Steingerður Steinarsdóttir skrifar: Hvenær má drepa dýr og hvenær ekki?

Eyjan
Fimmtudaginn 4. janúar 2024 10:51

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það sló mig mjög illa um daginn að lesa fréttir af því að matvælaráðuneytið hafi úrskurðað að MAST hefði ekki mátt slátra búfé Guðmundu Tyrfingsdóttur bónda í Lækjartúni í Ásahreppi. Ástæða þess að þetta kom illa við mig er að undanfarið hefur nokkuð farið fyrir fréttum að vanhöldum og vanrækslu á skepnum og MAST borið fyrir sig heimildarleysi þegar leitað hefur verið eftir svörum við því hvers vegna ekki sé brugðist við. Nú síðast voru fréttir af því að margoft hafi verið tilkynnt um illa haldið útigangsfé í Þverárhlíð í Borgarfirði án þess að stofnunin hafi brugðist við.

Hvers vegna eru heimildir MAST svo takmarkaðar í sumum málum en að því er virðist úr hófi frjálslegar í öðrum? Engin vanhöld voru á skepnum Guðmundu Tyrfingsdóttur. Þær höfðu notið góðs atlætis og engin þeirra var aðframkomin á nokkurn hátt. Þarna var því slátrað fjölda heilbrigðra dýra meðan önnur er látin veslast upp við óviðunandi aðstæður og það af hálfu stofnunar sem er ábyrg fyrir dýravernd í landi okkar.

Að mínu mati er ein æðsta skylda mannsins að koma vel fram við dýr og aðra menn. Þau eiga sama rétt til lífs og vellíðanar á þessari jörð og maðurinn. Takið eftir, ég segi sama rétt því maðurinn er þeim ekki æðri. Í Biblíunni er sagt að maðurinn sé skapaður í mynd guðs. Sumir hafa viljað túlka þetta sem svo að hann sé þar með kóróna sköpunarverksins en í því hefur mér fundist felast nokkur hroki. Guð leit yfir sköpun sína, dýrin, jurtirnar og allt annað á jörðu niðri og sá að það var gott. Hann hafði einnig fyrir því að bjarga dýrunum um borð í Örkina áður en hann sendi flóðið yfir Nóa og meðbræður hans. Bendir það ekki til þess að hann meti dýrin til jafns við mennina?

Þrátt fyrir þessar og fleiri augljósar vísbendingar telja sumir menn sig svo hafna yfir dýrin að þeir megi beita þau miskunnarlausum níðingsskap. Í hvert sinn sem ég verð vitni að eða heyri af slíku fyllist ég yfirgengilegri óbeit og sárum vanmætti. Að hluta til er ég alin upp á sveitabæ og þar varð ég aldrei vitni að hrottaskap gagnvart skepnum. Bændurnir báru virðingu fyrir bústofninum og leituðust við að sinna honum af kostgæfni. Í ríflega fjörutíu ár hef ég verið í sambúð með veiðimanni, sá er jafnvígur á troll, flugustöng og byssu og leggur sig alla tíð fram um að aflífa dýr á eins skjótvirkan og mannúðlegan hátt og hægt er. Hann og félagar hans hafa lagt á sig ómælt erfiði við að leita upp fugla sem þeir óttuðust að hafa sært til að forða þeim frá sársauka.

Að mínu mati ber það vott um sterka siðferðiskennd að bera virðingu fyrir öllu lífi og leitast við að hlúa að því, verja það og ef nauðsyn krefur eyða því á eins skjótvirkan og mannúðlegan hátt og nokkur kostur ef. Sé ekki mögulegt að slátra skepnu á slíkan hátt á að sjálfsögðu að láta af slíku athæfi. Hvalveiðar eru þess vegna ömurleg tímaskekkja og ekki haldbær ástæða að drepa hvali af því þeir eru til staðar í landhelgi okkar og forfeður okkar veiddu þá. Það er ekki réttlætanlegt eða verjanlegt að veiða þá fyrr en ásættanleg veiðiaðferð hefur verið fundin og í raun jafnvel ekki þá því við þurfum ekki á þessum mat að halda. Eigum nóg án hans.

Í Kóraninum eru dýrin sögð innblásin af anda guðs og manninum leyft að nýta þau aðeins ef hann kemur fram við þau af mannúð og miskunnsemi. Þessi lífsspeki finnst mér svo augljós og sjálfsögð að ekki þurfi einu sinni að ræða hana. Þess vegna vil ég fara fram á að MAST skýri fyrir almenningi hvers vegna þeir virðast stundum geta útvegað sér hratt og vel heimild til að fara inn á bæ og taka þar dýr og drepa af mannúðarástæðum en í öðrum alls ekki þótt órækar sannanir fyrir vanrækslu liggi fyrir? Einnig er fróðlegt að vita hvers vegna þeir bregðast seint eða alls ekki við sumum ábendingum um vanhöld á skepnum en aðrar virðast fá mikinn forgang hjá stofnuninni? Úrskurður matvælaráðuneytisins kallar á að MAST skýri þá vinnuferla sem farið er eftir og sýni fram á að stofnuninni sé treystandi til að standa vörð um velferð og réttinda dýra á Íslandi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Meiri starfslaun, takk!

Ágúst Borgþór skrifar: Meiri starfslaun, takk!
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Frá jöðrunum inn á miðjuna

Þorsteinn Pálsson skrifar: Frá jöðrunum inn á miðjuna
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum
EyjanFastir pennar
17.11.2024

Vandamál okkar eru léttvæg

Vandamál okkar eru léttvæg
EyjanFastir pennar
16.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Eldræður

Óttar Guðmundsson skrifar: Eldræður
EyjanFastir pennar
09.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Sérfræðingar í málefnum Bandaríkjanna

Óttar Guðmundsson skrifar: Sérfræðingar í málefnum Bandaríkjanna
EyjanFastir pennar
08.11.2024

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?