fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
EyjanFastir pennar

Sigmundur Ernir skrifar: Bandaríkin afskrifa Evrópu

Eyjan
Laugardaginn 27. janúar 2024 14:00

Sigmundur Ernir Rúnarsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það eru viðsjár á Vesturlöndum. Gamalkunnug gildi vestrænnar samvinnu eru að veikjast til muna. Og jafnvel lýðræði og mannréttindi eiga undir högg að sækja í því mikla stórveldi sem hæst hefur haldið frelsiskyndlinum á lofti frá því seint á átjándu öld.

Nú skakkar þar miklu. Forheimska lýðskrumsins er að festa sig í sessi í Bandaríkjunum. Harðsvíruðustu þjóðmálaskúmarnir þar í landi hafa ekki einasta óbeit á hlutlægum og óvilhöllum málflutningi, heldur hræðast þeir ágenga og vandaða blaðamennsku eins og heitan eldinn. Allt sem áður þótti rétt og óumdeilt er helber lygi í óðamála tranti þeirra.

Og stefið sem klifað er á er gamalkunnur loddaraskapur sem fasistar hafa löngum notað. Heiminum er einfaldlega skipt í okkur og hina. Við og þeir. Flóknara er það nú ekki. Og þar af leiðandi víkur frjálslyndi og alþjóðasamvinna fyrir sjálfumglaðri einangrunarhyggju.

Ótti þeirra sem enn trúa á lýðréttindi og skilyrðislausa mannúð í tiltölulega friðsömum heimi er að breytast í angist og örvæntingu á nýju ári. Það eru sterkar líkur á því að umdeildasti og ógeðfelldasti forseti í sögu Bandaríkjanna komist aftur til valda í Hvíta húsinu. Og þar fer sannkallaður svikahrappur sem vílar ekki fyrir sér að ljúga upp í opin geðið á þeim sem vilja, ellegar neyðast, til að hlusta.

Þegar hér er komið sögu er ekki aðeins langlíklegast að Donald Trump hreppi útnefningu repúblikana í komandi forsetakosningum í landinu heldur benda ítrekaðar skoðanakannanir til þess að hann leggi Joe Biden, núverandi forseta, að velli, en sá er veikur fyrir í mörgum skilningi.

Trump fékk röskan helming atkvæða í fyrstu forkosningum repúblikana í Iowa á dögunum sem varð til þess að helsti keppinautur hans, Ron DeSantis ríkisstjóri í Flórída, kastaði frá sér hvíta klæðinu. Eftir stendur Nikki Haley, fyrrverandi sendiherra hjá Sameinuðu þjóðunum, sem hefur ekki einu sinni reynst hálfdrættingur á við Trump í forkosningunum. Það segir nefnilega sína sögu um vinsældir karlsins á meðal stækasta íhaldsins í Vesturheimi að hann tók ekki bara Iowa með trompi, ríki sem hann tapaði árið 2016, heldur naut hann stuðnings í því þveru og endilöngu. Hann vann í níutíu og átta sýslum ríkisins, en Nikki Haley hafði sigur í einni, en þó með aðeins eins atkvæðis mun.

„Donald Trump er sagður hafa sagt fyrir ekki svo alls kostar löngu að Bandaríkin myndu aldrei hjálpa Evrópu ef álfan sætti árás.“

Ófyrirsjáanlegur galgopi verður því væntanlega aftur á stóli Bandaríkjaforseta innan skamms. Og líkast til gengur hann fram af meiri ofstopa en nokkru sinni áður við að aftengja Ameríku við aðrar álfur.

Þar er vert að hafa í huga að Donald Trump er sagður hafa sagt fyrir ekki svo alls kostar löngu að Bandaríkin myndu aldrei hjálpa Evrópu ef álfan sætti árás. Þetta á hann meðal annars að hafa tjáð Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins á efnahagsráðstefnunni í Davos í Sviss árið 2020.

Þetta yrðu straumhvörf. Evrópa byggi við nýjan veruleika, ekki síður en Atlantshafsbandalagið. Og í þessu efni er Trump, vel að merkja, rækilega studdur af harðlínuöflunum sem ráða innan repúblikana, en þeim er lýst sem svo grjóthörðum Kremlverjum, að útséð er um örlög Úkraínu.

Yfirvöld í Þýskalandi eru sögð vera farin að búa sig undir það að Rússar geri árás á aðildarríki Nató. Þýska blaðið Bild vísar í leynileg skjöl frá varnarmálaráðuneytinu þar sem því er gert skóna að Rússar ætli sér að stigmagna stríðsátökin í Úkraínu á næstu misserum og fara svo út fyrir Úkraínu. Þetta muni óhjákvæmilega leiða til þriðju heimsstyrjaldarinnar ef af verður. Og ekki eru margar vikur frá því hátt settir ráðamenn í Svíþjóð sögðu að borgarar landsins þyrftu að búa sig undir stríð.

Þetta er vitaskuld skelfileg þróun. En hún er því miður rökrétt afleiðing af því að vestræn samvinna nýtur ekki lengur samstöðu innan raða lýðræðisríkjanna sem lengstum hafa viljað vinna saman.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vestræn gildi andspænis lögmáli frumskógarins

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vestræn gildi andspænis lögmáli frumskógarins
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Þankar um aga og uppeldi

Björn Jón skrifar: Þankar um aga og uppeldi
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótauppgjör

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótauppgjör
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Góðavondafólkið

Steinunn Ólína skrifar: Góðavondafólkið
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótaávarp

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótaávarp
EyjanFastir pennar
07.12.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Furðulegt kosningakerfi

Óttar Guðmundsson skrifar: Furðulegt kosningakerfi
EyjanFastir pennar
06.12.2024

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?