fbpx
Þriðjudagur 28.janúar 2025
Eyjan

Þórdís Kolbrún spyr hvað okkur finnst um þetta

Ritstjórn Eyjunnar
Fimmtudaginn 25. janúar 2024 13:30

Mynd: DV/Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag var öllum spurningum þingmanna beint til Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur Reykfjörð, fjármála- og efnahagsráðherra. Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, spurði ráðherrann út í áætlanir um að afnema persónuafslátt til þeirra sem búsettir eru erlendis en fá lífeyri frá hinu opinbera á Íslandi. Var gildistöku þessara fyrirætlana frestað um eitt ár, um síðustu áramót, að áeggjan Flokks fólksins. Vildi Guðmundur meina að verið væri að klekkja vísvitandi á þessum hópi sem ætti nógu erfitt með að ná endum saman en Þórdís sagði þessi áform ætluð til að koma í veg fyrir tvöfaldar ívilnanir og að lífeyriskerfið sé misnotað.

Sjá einnig: Inga með mikilvæg skilaboð til lífeyris- og eftirlaunaþega

Guðmundur Ingi fór ekki í grafgötur með hvað honum finnst um þessi áform:

„Rétt fyrir síðustu jól sló ríkisstjórn Íslands, nánar tiltekið fjármálaráðuneytið, eigið met í lágkúru og fjárhagslegu ofbeldi gegn þeim sem minnst mega sín. Kirfilega falin í gistináttabandorminum kom fram ný birtingarmynd af grimmilegri skerðingarstefnu stjórnvalda. Í bandorminum var ákvæði um að fella niður persónuafslátt ellilífeyrisþega og öryrkja sem búa erlendis, fólks sem hefur gefist upp á því að hokra við sárafátæktarmörk hér á landi og haldið út í leit að betra lífi. Á einu bretti átti að svipta þau 65.000 kr. á mánuði, persónuafslætti, sem hefði í mörgum tilfellum verið nóg til að fólk gæti ekki staðið undir leigu eða fæði.“

Fólk sé líka fá ívilnanir frá ríkinu sem það býr í

Þórdís Kolbrún útskýrði í fyrra svari sínu hvers vegna ákveðið var að ráðast í þessa breytingu:

Ástæðan fyrir því að þetta var lagt til hafi verið sú að persónuafslátturinn hafi ekki skilað til lífeyrisþeganna heldur runnið í ríkissjóð erlendra ríkja. Staðan í dag sé sú að eftirlauna- og lífeyrisþegar fái notið persónuívilnana, ýmist frá búseturíkinu eða því ríki sem tekjurnar koma frá. Samkvæmt flestum tvísköttunarsamningum þá eigi Ísland eitt rétt á að skattleggja lífeyri frá opinberum lífeyrissjóðum. Erlenda ríkið megi ekki skattleggja þessar tekjur en því beri samt sem áður að veita persónuívilnanir þannig að maður sem sé með hluta af tekjum sínum frá opinberum lífeyrissjóði á Íslandi og aðrar tekjur annars staðar frá geti notið tvöfaldrar ívilnunar á við þann sem ekki sé með tekjur frá opinberum sjóðum og þá sé viðkomandi sem njóti tvöföldu íhlutunarinnar með fullan persónuafslátt frá Íslandi og frá búseturíkinu. Þetta mál þurfi að skoða nánar vegna þess að væntanlega sé markmiðið ekki að sumir fái tvöfalda ívilnun á meðan aðrir fá einfalda.

Ráðherrann minntist hins vegar ekki sérstaklega á þann hóp fólks sem býr erlendis en treystir alfarið á lífeyri frá Íslandi.

Guðmundur Ingi var enn hvassari í síðari fyrirspurn sinni:

„Hvers vegna í ósköpunum gáfuð þið ykkur ekki einhverja nokkra mánuði til að upplýsa þetta fólk um það og tala við það og senda þetta inn? Af hverju er verið að negla þetta inn í bandorminn í felum, í skjóli nætur til þess eingöngu að klekkja á þessu fólki? Hvers lags vinnubrögð eru þetta? Þið viðurkennið að þið ætlið að sparka fólk niður fjárhagslega og koma svo og klappa því eftir á og segja: Heyrðu, æ, fyrirgefðu, nú ætlum við að skoða hvers vegna við vorum að sparka þig niður.“

Hvað finnst okkur um þetta?

Í seinna svari sínu var Þórdísi Kolbrúnu tíðrætt um að engar breytingar í þessum efnum biðu hættunni á misnotkun á kerfinu heim og spurði hvað „okkur“ finnst um það. Hvort ráðherrann átti við þingheim eða þjóðina alla er ekki fyllilega ljóst:

„Hvað finnst okkur um að það séu dæmi um að verið sé að misnota kerfið eins og það er í dag? Hvað finnst okkur um að það sé töluvert um röng framtalsskil einmitt vegna þessa kerfis eins og það er núna?“

„Hvað finnst okkur um að það sé einhver misnotkun á kerfi þar sem sumir fá tvöfalda ívilnun sem hvergi er gert ráð fyrir að eigi að vera staðan á meðan aðrir fá það sem gert er ráð fyrir? Erum við sammála um að vilja koma í veg fyrir það? Er þá ekki eðlilegt að tillagan komi aftur inn og fái þinglega meðferð til að komast að því ef einhverju þarf að breyta? Eða er kannski auðveldara að taka slaginn og segja: Við viljum ekki breyta því þrátt fyrir að við vitum að það sé ekki verið að fara rétt með? Fyrir hvern er það ósanngjarnt? Fyrir þá sem þurfa á kerfinu að halda.“

Fjármála- og efnahagsráðherra vísaði þó ekki í nein gögn um hversu útbreidd þessi meinta misnotkun er eða hversu mörg hafa þegið bæði persónuafslátt frá Íslandi og ívilnanir frá þeim ríkjum sem viðkomandi búa í.

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Eldhugur í nýrri framkvæmdastjórn ESB – litlu ríkin í stórum hlutverkum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Eldhugur í nýrri framkvæmdastjórn ESB – litlu ríkin í stórum hlutverkum
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Trump dregur Bandaríkin út úr WHO og opnar dyrnar fyrir ráðherra með klikkaða kórónuveirukenningu

Trump dregur Bandaríkin út úr WHO og opnar dyrnar fyrir ráðherra með klikkaða kórónuveirukenningu