Vandi þjóðarinnar nú um stundir er vandi Grindvíkinga. Frá því verður ekki vikist. Erfiðleikar þeirra eru úrlausnarefni allra Íslendinga.
Og herhvötin er einfaldlega þessi: Það verður að gera allt sem í mannlegu valdi stendur til að tryggja efnahag þeirra og afkomu á næstu misserum og árum svo þeir fái ekki einasta um frjálst höfuð strokið, heldur viti hvað framtíðin ber í skauti sér. Gildir einu þótt úrlausnin sé flókin.
Samfélagið skuldar þeim svör í þessum efnum. Skýr svör og ábyrg.
Hinn kosturinn er ekki í boði.
Þjóðin hlýtur að hafa lært sína lexíu frá því Vestmanneyingar urðu að yfirgefa logandi heimabæ sinn fyrir hálfri öld. Þá voru þeir skildir eftir, svo að segja bjargarlausir, uppi á landi og urðu að treysta á guð og lukkuna á þeim mánuðum sem fóru í hönd. Þeim bauðst engin afkomutrygging og ekkert framtíðarhúsnæði fyrr en svo mörgum misserum seinna að margir, ef ekki flestir, voru aftur snúnir til síns heima í Eyjum eftir að gosinu lauk.
Þess eru mörg dæmi frá þessum örlagaríka tíma í sögu þjóðarinnar að Eyjamenn hafi flutt með sér atvinnustarfsemina úr sjávarplássinu suður af landi, öll tæki sín og tól, og komið þeim fyrir í hvaða húsakosti sem bauðst í bæjum og þorpum á fastalandinu til þess að sjá fram á það að geta framfleytt fjölskyldu sinni.
Karlar og konur þurftu einfaldlega að treysta á eigin mátt og megin.
„Það hefur orðið alger forsendubrestur fyrir byggðirnar suður með sjó – og hver veit hvað hann á eftir að teygja sig langt inn eftir skaganum.“
Þennan bitra veruleika ætla Íslendingar ekki að leika eftir þegar nokkuð er liðið á nýja öld. Þeir ætla að standa saman og trúa á samtakamáttinn. Sviðsmyndin er líka alvarlegri, ef eitthvað er, en í ársbyrjun 1973. Náttúrukraftarnir haga sér með allt öðrum hætti á Reykjanesskaga en úti fyrir Suðurlandi. Eitt ófyrirsjáanlegasta eldstöðvakerfi landsins hefur vaknað af átta hundruð ára blundi og er allt eins líklegt til að rífa upp jörðina á næstu árum og áratugum, ef ekki lengur. Og það sem svertir þessa mynd enn frekar er að gosið getur hvar sem er og hvenær sem er, af ógurlegum krafti, án þess að fyrirvarinn sé mikill. Á þennan veg tala vísindamenn, þeir sem gerst þekkja til gerninganna í iðrum jarðar. Íbúðabyggðir sem liggja ofan á sprungukerfinu á þessum slóðum eru því berskjaldaðar.
Það er mergurinn málsins. Það hefur orðið alger forsendubrestur fyrir byggðirnar suður með sjó – og hver veit hvað hann á eftir að teygja sig langt inn eftir skaganum.
Og það getur hver heilvita maður sett sig í spor ósköp venjulegs fólks sem stendur upp á íbúafundi og segir af angistinni einni saman að betur hefði farið að hús þess hefði farið undir hraun. Það vissi þá alltént eitthvað um hvar það stæði.
Samtryggingin slær í hjarta Íslendinga. Þeir vita að íslenska hagkerfið ræður við verkefnið. Þeir eru líka tilbúnir að greiða tímabundinn skatt til að létta þar undir. Fasteignir Grindvíkinga eru metnar á áttatíu milljarða króna, sem nemur vel innan við tveimur prósentum af árlegri landsframleiðslu, en af henni nemur framlag Grindvíkinga ríflega hálfu prósenti í heildarpotti hagkerfisins.
Nú þarf að taka af skarið.
Íslenska þjóðin hefur efni á Grindvíkingum.