fbpx
Fimmtudagur 26.desember 2024
Eyjan

Dagur B. Eggertsson: Jón Gnarr talaði aðallega um hundinn sinn – gott að hafa ólík og breið sjónarmið við borðið þegar ákvarðanir eru teknar

Ritstjórn Eyjunnar
Laugardaginn 20. janúar 2024 08:00

Dagur B. Eggertsson er kátur með fylgi Samfylkingarinnar og meirihlutans í borginni. DV/KSJ

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þegar til stykkisins kemur að taka ákvarðanir og leggja línur er styrkur af því að hafa við borðið fólk með ólíka og breiða sýn, segir Dagur B. Eggertsson, fyrrverandi borgarstjóri, sem hefur verið borgarstjóri með þrjá mismunandi fjögurra flokka meirihluta á bak við sig. Dagur rifjar upp að á fyrsta fundinum í meirihlutaviðræðum hans og Jóns Gnarr talaði Jón nær allan tímann um Tobba, hundinn sem hann átti, sem væri aggressívur ólíkt honum sjálfum. Dagur er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Eyjunnar.

Eyjan - Dagur B - 2.mp4
play-sharp-fill

Eyjan - Dagur B - 2.mp4

„Ég man samt á fyrsta fundinum þegar við vorum að mynda meirihlutann, þetta var allt svolítið sérstakt af því að Jón hafði verið með kvikmyndatökulið í gegnum alla kosningabaráttuna,“ segir Dagur.

„Hann lagði fyrst og fremst áherslu á það að hann væri ekki vondur maður þó að hann ætti svolítið aggressívan hund. Hann talaði um Tobba, sem var hundurinn, meira og minna allan tímann og hann sá einhvern veginn að mér þætti þetta óvenjulegur fundur í meirihlutaviðræðum þannig að hann sá ástæðu til að fullvissa mig um að hann væri ekki með kveikt á myndavélum, kvikmyndagerðinni væri lokið, og það auðvitað stóðst allt og við gáfum okkur bara góðan tíma í þetta – að mynda meirihluta – og lögðum grunn sem stóð.“

Nú bauð Besti flokkurinn ekki fram í kosningunum 2014. Það stóð kannski aldrei til?

„Þau ræddu það mikið en Jón ákvað sjálfur að hætta og vildi einhvern veginn bara að Besti flokkurinn væri búinn að ljúka sínum ferli, en Björt framtíð verður til upp úr Besta flokknum og mörg sem höfðu verið í Besta flokknum fóru þar í framboð og það varð næsti meirihluti, raunar með fleirum, en það er fyrsti meirihlutinn sem ég er borgarstjóri fyrir. Þetta voru Samfylking, Björt framtíð, VG og Píratar.“

Dagur segir þann meirihluta einungis hafa þurft á annað hvort Bjartri framtíð eða Pírötum að halda en þau hefðu tekið sig saman og sagst vilja koma inn bæði. „Sem reyndist vera frábært. Ég hef núna verið borgarstjóri í þremur meirihlutum í fjögurra flokka samstarfi og alltaf mismunandi flokkar.“

Hægt er að hlusta á hlaðvarpið í heild sinni hér :

Einnig er hægt að hlusta á Spotify eða hlaðvarpsþjónustu Google:

Já, þú hefur fengið bæði gagnrýni og aðdáun, kannski ekki frá sömu hópum, en Samfylkingunni hefur gengið upp og ofan í kosningum en alltaf er niðurstaðan – eftir borgarstjórnarkosningar er niðurstaðan sú að það er myndaður meirihluti – þetta gerðist 2014, þetta gerðist 2018 og þetta gerðist aftur 2022 – og í hvert sinn sem meirihluti hefur verið myndaður þá hefur samsetning hans breyst.

„Já, það er auðvitað dálítið merkilegt, og ekki algengt, en ég held að lykilstaðreyndin í þessu sé að á þessum tíma, og alveg frá nánast fyrir 2010, var að mótast kannski sýn á brýnustu verkefnin fyrir þróun borgarinnar og hvernig þyrfti að halda á málum í Reykjavík – sem naut stuðnings nýrrar kynslóðar þvert á flokka og líka langt inn í Sjálfstæðisflokkinn ef út í það er farið. Þar var töluverður kynslóðamunur og þessir meirihlutar hafa í raun verið myndaðir í kringum þessa sýn að ýmsu leyti,“ segir Dagur.

„Auðvitað kemur fleira til og þó að fylgi hafi verið mismunandi milli flokka í kosningum hefur alltaf verið meirihlutastuðningur við flokka sem hafa átt svona sameiginlegan kjarna þó að það sé ýmislegt annað sem greinir þá að. Svo er það nú mín reynsla að þegar til stykkisins kemur að taka ákvarðanir um einstök mál eða leggja línur þá er styrkur af því að hafa við borðið fólk með svolítið ólíka og breiða sýn,“ segir Dagur B Eggertsson.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Segir 10 Prís verslanir opna á næsta ári

Segir 10 Prís verslanir opna á næsta ári
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Afhjúpar lævíst plott Sjálfstæðisflokksins til að tryggja sér fjárhagslega yfirburði – Svona reyndi hann að veikja samkeppnina

Afhjúpar lævíst plott Sjálfstæðisflokksins til að tryggja sér fjárhagslega yfirburði – Svona reyndi hann að veikja samkeppnina
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Halla endurnýjar listaverkin á Bessastöðum

Halla endurnýjar listaverkin á Bessastöðum
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu: Góð verslun fyrir jólin – sprenging í netverslun í nóvember

Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu: Góð verslun fyrir jólin – sprenging í netverslun í nóvember
Eyjan
Fyrir 1 viku

Björn Leví skrifar – Verri niðurstaða

Björn Leví skrifar – Verri niðurstaða
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sigmundur um vöruhúshneykslið – „Ekki skipulagsslys heldur skemmdar­verk”

Sigmundur um vöruhúshneykslið – „Ekki skipulagsslys heldur skemmdar­verk”
Hide picture