fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Eyjan

Neituðu að lækka gjaldskrá Hafnarfjarðar til að liðka fyrir kjarasamningum

Ritstjórn Eyjunnar
Föstudaginn 19. janúar 2024 10:30

Ráðhús Hafnarfjarðar/Mynd: Ja.is

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar síðastliðinn miðvikudag var tekinn fyrir tillaga frá minnihlutanum í bæjarstjórn um að draga úr þeim gjaldskrárhækkunum, til að liðka fyrir kjarasamningum, sem samþykktar voru fyrir áramót, í bæjarstjórn, sem liður í fjárhagsáætlun þessa árs. Meirihlutinn hafnaði því aftur á móti og munu því 9,9 prósent gjaldskrárhækkanir Hafnarfjarðarbæjar sem samþykktar voru fyrir áramót, af meirihluta bæjarstjórnar, standa óbreyttar:

Jón Ingi Hákonarson bæjarfulltrúi Viðreisnar lagði fram tillögu á fundi bæjarráðs 11. janúar síðastliðinn um að dregið yrði úr gjaldskrárhækkunum en tillögunni var vísað til bæjarstjórnar. Samkvæmt tillögu Jóns yrðu gjaldskrárhækkanir lækkaðar úr 9,9 prósent í 3,5 prósent.

Í tillögu Jóns kom fram að kjarasamningsviðræður væru hafnar og ljóst að stefnt sé á nýja þjóðarsátt með hóflegum launahækkunum til að sporna gegn verðbólgu. Til þess að svo megi verða sé mikilvægt að ríki, sveitarfélög og verslun og þjónustufyrirtæki taki höndum saman og takmarki hækkanir á verðskrám til að ná fram markmiði um lækkun verðbólgu og vaxta. Hafnarfjörður, sem þriðja stærsta sveitarfélag landsins, leiki því lykilhlutverk í þessari sátt. Hækkun upp á 9,9 prósent sé langt umfram almennar verðlagshækkanir og því ekki til þess fallið að sátt náist á vinnumarkaði. Því sé lagt til að Hafnarfjarðarbær fylgi fordæmi Reykjavíkurborgar og takmarki gjaldskrárhækkanir við 3,5 prósent. Það skipti meira máli fyrir afkomu bæjarsjóðs að ná niður verðbólgu og vöxtum en hækkun gjaldskrár.

Samfylkingin hvatti einnig á þeim fundi til þess að dregið yrði úr fyrirhuguðum gjaldskrárhækkunum.

Meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks svaraði því þannig að við afgreiðslu fjárhagsáætlunar 4. desember síðastliðinn hafi það verið skýrt tekið fram og bókað í fundargerð að komið geti til endurskoðunar á gjaldskrám gefi niðurstöður kjarasamninga tilefni til. Hafnarfjarðarbær hafi því verið eitt fyrsta sveitarfélag landsins til að lýsa því formlega yfir að vera tilbúið til endurskoðunar og breytinga á gjaldskrá. Þangað til sé það óábyrgt að afsala sér fyrirfram tekjum sem eigi að standa undir kostnaði við þjónustu sveitarfélagsins.

Komu sér saman um að endurskoða ef kjarasamningar nást

Tillaga Viðreisnar var eins og áður segir rædd á fundi bæjarstjórnar. Guðmundur Árni Stefánsson oddviti Samfylkingarinnar lagði fram nýja tillögu sem var orðuð á almennari hátt:

„Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að gjaldskrár bæjarfélagsins verði lækkaðar umtalsvert, enda stuðli það að og tryggi sátt á vinnumarkaði og trausta kjarasamninga. Sem aftur leiði til vaxtalækkunar og lækkunar verðbólgu, enda kallað á aðkomu ríkisvaldsins og sveitarfélaga að þjóðarsátt í þessa veru.“

Hlé var þá gert á fundinum í tæplega hálfa klukkustund. Áðurnefnd tillaga Jóns Inga var tekin til atkvæða og var felld með atkvæðum meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks en minnihluti Samfylkingarinnar og Viðreisnar samþykkti tillöguna.

Borin var þá upp tillaga frá meirihlutanum um að gjaldskrár Hafnarfjarðar verði lækkaðar gefi niðurstaða kjarasamninga tilefni til þess:

„Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að gjaldskrár bæjarfélagsins verði lækkaðar gefi komandi kjarasamningar tilefni til þess, sem stuðli að og tryggi sátt á vinnumarkaði og trausta kjarasamninga. Slíkt mun leiða til vaxtalækkunar og lækkunar verðbólgu, enda kallað á aðkomu ríkisvaldsins og sveitarfélaga að þjóðarsátt í þessa veru. Fulltrúar bæjarins munu áfram koma þessu sjónarmiði skýrt til skila.“

Tillagan var samþykkt af öllum bæjarfulltrúum.

Vonbrigði eða óábyrgt?

Í bókunum sínum lýstu fulltrúar Viðreisnar og Samfylkingarinnar yfir vonbrigðum sínum yfir því að tillagan hafi ekki gengið eins langt og þeirra tillögur.

Jón Ingi Hákonarson, fulltrúi Viðreisnar, sagði meðal annars í sinni bókun:

„Að tala skýrt inn í kjaraviðræður eru þung lóð á vogaskálarnar þegar að kemur að baráttunni við vexti og verðbólgu. Tilllaga Viðreisnar um að takmarka hækkanir við 3,5% eru skýr skilaboð. Óljós loforð um endurskoðun gjaldskrár náist hagfelldir kjarasamningar eru einungis fögur fyrirheit án nokkurs vægis.“

Sams konar tónn var slegin í bókun bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar:

„Í ljósi þeirra markmiða sem lagt er upp með í kjarasamningsviðræðum milli aðila vinnumarkaðarins þá er nauðsynlegt að sveitarfélögin sýni með skýrum hætti að þau ætli að leggja sitt af mörkum til þjóðarsáttar. Hraustleg lækkun á þeim gjaldskrárhækkunum sem meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks samþykkti í fjárhagsáætlun 2024 yrðu skýr skilaboð frá Hafnarfjarðarbæ og bærinn myndi með því leggja sín lóð á vogarskálar sáttar á vinnumarkaði og festu í efnahagsmálum.“

Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri og oddviti Sjálfstæðisflokksins ítrekaði í sinni bókun þeir yfirlýsingar meirihlutans að Hafnarfjörður hafi verið eitt fyrsta sveitarfélag landsins til lýsa yfir vilja til að lækka gjaldskrár gefi niðurstöður kjarasamninga tilefni til. Þangað til sé það óábyrgt að afsala sér fyrirfram tekjum til að standa undir þjónustu bæjarins.

Það virðist því vera niðurstaða meirihluta bæjarstjórnar Hafnarfjarðar að bærinn geti ekki svarað ákalli aðila vinnumarkaðarins um að lækka gjaldskrár til að liðka fyrir kjarasamningum en það geti verið mögulegt ef það náist þrátt fyrir það kjarasamningar sem gefa tilefni til þess.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt