fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Eyjan

Loksins gripið inn í taumlaust djammið í Borgartúni – „Dropinn hefur holað þennan stein, svo mikið er víst“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Miðvikudaginn 17. janúar 2024 18:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tilkynnt var í gær um breytingar á 23 stöðugildum hjá þjónustu- og nýsköpunarsviði borgarinnar (ÞON). Þessa breytingar fela í sér 12 uppsagnir, en í 11 tilvikum verða samningar ekki endurnýjaðir eða ekki ráðið í lausar stöður, samkvæmt svörum sem fréttastofa Vísis fékk frá samskiptastjóra borgarinnar.

Um er að ræða lið í hagræðingu innan sviðsins, en greiningarvinna hafi leitt í ljós að fækka þyrfti stöðugildum hjá sviðinu samhliða skipulagsbreytingum. Meðal veigamestu breytinganna er að skrifstofa sviðsstjóra verður lögð niður og verkefni hennar færð á skrifstofu stafrænnar Reykjavíkur. Skrifstofa sviðsstjóra er ein af fimm skrifstofum sem reknar eru undir merkjum ÞON en hinar fjórar eru Stafræn Reykjavík, skrifstofa þjónustu- og umbreytinga, gagnaþjónustan og skrifstofa upplýsinga- og skjalastýringar. Skrifstofustjóri á skrifstofu sviðsstjóra er Karen María Jónsdóttir.

Segja má að ÞON hafi verið umdeilt svið hjá borginni enda hefur gífurlegu fjármagni verið veitt til sviðsins í verkefni sem til þessa hafa ekki beint auðveldað borgarbúum lífið með slíkum hætti að það réttlæti fjárveitingar og þau ár sem sviðið hefur haft til að þróa lausnir. Ein þeirra sem hefur heyrst hvað hæst í hvað gagnrýni á sviðið varðar er borgarfulltrúi minnihlutans, oddviti Flokks fólksins, Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir.

Hún vekur athygli á skipulagsbreytingunum á Facebook þar sem hún segir að loksins eigi að taka til á sviðinu. Hún hafi árum saman gagnrýnt fjáraustur til sviðsins og hvernig fjármagni hafi verið varið. Skort hefur á skilvirkni og forgangsröðun á stafrænum lausnum til að gera þjónustu skilvirkar. Kolbrún segist hafa oft fengið vont fyrir vikið.

Þetta eru tíðindi

Kolbrún skrifar:

„Í bráðum 6 ár hefur fjármagni verið dælt í þetta svið og enn eru ekki komnar virkar stafrænar lausnir hjá skóla- og frístundasviði nema að hluta til. Vel á annan tug milljarða hefur farið til sviðsins, 13 milljarðar á þremur árum 2018-2021 og svo enn meira. Algert dómgreindarleysi og skortur á gagnrýnni hugsun ríkti hjá síðasta meirihluta og núverandi líka, alla vega fram til þessa, þegar kom að þessu sviði sem nánast þurfti bara að rétta út höndina og segja: „meiri pening“. 

Svo þetta eru tíðindi og ég fullyrði að Flokkur fólksins á ríkan þátt í að nú hefur rofað til hjá ráðamönnum, loksins og það er vegna þess að við höfum verið óþreytandi að gagnrýna hvernig farið hefur verið með gríðarlega mikið fjármagn af fullkominni lausung. Að gagnrýna ÞON (Þjónustu- og nýsköpunarsvið) hefur ekki alltaf verið auðvelt og það er í raun kafli út af fyrir sig. En dropinn hefur holað þennan stein svo mikið er víst.“

Undanfarin ár hefur Kolbrún ítrekað notað vettvang sinn í borgarstjórn til að gagnrýna meirihlutann, andvaraleysi hans en einnig  ÞON og þær gríðarlegu fjárhæðir sem þangað hafa runnið þrátt fyrir að sviðið hafi í raun ekki skilað frá sér mörgum tilbúnum og frágengnum lausnum til grunnsviða. Kolbrún segir í samtali við Eyjuna að fyrir gagnrýni sína hafi hún fengið yfir sig reiði, jafnvel hótanir og sagt að skammast sín.

„Mínar áhyggjur snúa fyrst og fremst að því að farið er með fé borgarbúa af lausung og kæruleysi enda gríðarmikið fjármagn farið í alls konar tilraunastarfsemi, uppgötvunar- og þróunarfasa eins og það er kallað og hreinan leikaraskap alla vega fyrstu ár þessara vegferðar.“

Flöskuhálsar og stöðugt partý

Heimildarmaður Eyjunnar, sem vann að verkefni fyrir sviðið, tekur undir með Kolbrúnu og segjast hafa furðað sig á hversu illa farið er með peninga í störfum sviðsins. Einföld verkefni strandi á þrætufundum hönnuða, verkefni vel á veg komin séu aftur send á upphafspunkt þar sem stjórnendur sviða hafa skyndilega tekið ákvörðun um að breyta forsendum þess, flöskuhálsar séu alltof margir, millistjórnendur sendi misvísandi skilaboð og eins hafi borið á valdabaráttu innan tiltekinna verkefna með tilheyrandi töfum og útgjöldum. Sviðið sé að vinna að starfrænum lausnum fyrir ólík svið borgarinnar en samræming þar á milli sé nánast engin og skipulagi verulega ábótavant.

Lýsti  heimildarmaður því svo að innan sviðsins séu gjarnan stjórnendur sem hafi lítinn skilning á því starfi sem þar fer fram hvað varðar stafrænar lausnir. Þar sem verkefni þurfi að fara í gegnum marga flöskuhálsa lendi forritarar jafnvel í því að vera á fullum launum dögum saman án þess að geta nokkuð gert.

Fyrir sviðið starfi fjöldi verktaka sem eru skikkaðir til að mæta í hópefli, starfsmannaskemmtanir og ráðstefnur og rukka að sjálfsögðu fyrir það kostnað, jafnvel aksturskostnað ef þeim er gert að ferðast tilteknar vegalengdir. Hafi borgin komið fram við verktaka eins og almenna starfsmenn og jafnvel gert þeim að mæta á sérstaka fundi um líðan í vinnu, fundi til að deila hugmyndum sínum um hvernig sé best að starfa í teymi og hvað einkenni góða stjórnendur. Heimildarmaður benti á að það sé tilgangslaust að draga verktaka inn í svona ferli enda rukka þeir fyrir það og þar með óþarfa kostnaður fyrir borgina. Viðkomandi hefur starfað fyrir smærri og stærri fyrirtæki í einkarekstri og segir að svona vinnubrögð yrðu aldrei liðin þar. Heimildarmaður sagði að síðar yrði áhugavert að skoða aðkomu þeirra fyrirtækja sem hafi tekið að sér stóra þætti vinnu fyrir sviðið, ýmist í gegnum útboð eða án þess, hvaða fólk sé þar að baki, en dæmi væru um að fyrirtæki hafi hreinlega farið að skipta sér að stjórnun og framkvæmd verkefna sem með réttu ættu ekki að koma þeim við.

Uppskrúfaðar kynningar en afraksturinn fábrotinn

Kolbrún segir ekki annað hægt en að spyrja spurninga þegar milljarðar hafa runnið inn á sviðið á örfáum árum. Sviði sé duglegt að halda uppskrúfaðar kynningar um verkefni sín, en afraksturinn í engu takt við umfang fjárveitinga. „Hver er afraksturinn? Enn vantar mikið af grunnlausnum t.d. í skóla- og frístundasvið, og umhverfis- og skipulagssvið, þótt eitthvað þokist en margar kynningar frá sviðinu eru síðan um eitthvað allt annað.“

Kolbrún lagði fram fyrirspurn um starfsmannaveltu og uppsagnir og fékk svör sem staðfesti að fólki hafi í óvenjumiklum mæli verið sagt upp störfum á sviðinu síðustu fimm ár. Segir í bókun Kolbrúnar:

„Í svari frá Þjónustu- og nýsköpunarsviði segir að frá árinu 2018 hafi 67 starfsmenn sagt upp störfum og 22 starfsmönnum verið sagt upp störfum á sviðinu. Þetta er óheyrilega há tala að mati fulltrúa Flokks fólksins. Það er vissulega hægt að bera því við að uppsagnir séu vegna skipulagsbreytinga. Talað er um að ávallt sé um að ræða beina uppsögn. Hvað er hér átti við? Þeir sem þurft hafa að taka pokann sinn eða hafa hætt eru deildarstjóri, fjármálaráðgjafi, fjármálastjóri, fulltrúi skjalasafns, gæða- og öryggisstjóri, hugbúnaðarsérfræðingur, kerfisfræðingur, kerfisstjóri, lögfræðingur, mannauðsráðgjafi, mannauðsstjóri, safnvörður, skrifstofustjóri, teymisstjóri, tölvunarfræðingur, verkefnastjóri, vörustjóri, þjónustufulltrúi og öryggis- og húsvörður. Fulltrúi flokks fólksins er gáttaður á þessum upplýsingum og spyr hvort það geti raunverulega verið að meirihlutanum finnist ekkert athugavert við þetta.“

Mælaborð, dagatöl og fjöldi hausa sem fékk að fjúka

Kolbrún hafði eins óskað eftir útlistun á þeim virku lausnum sem hafi komið úr starfi sviðsins og segir að svörin hafi flest vísað á lausnir á borð við mælaborð og viðburðardagatöl, frekar en stærri lausnir sem geta létt álag af starfsfólki og bætt þjónustu við borgarbúa. Kolbrún segist ítrekað hafa fengið ábendingar um vandamál á starfsmannasviði og kallað eftir þeim upplýsingum. Þetta rímar við þær upplýsingar sem Eyjan hefur fengið frá sínum heimildarmönnum.

Kolbrún segir að af þeim 34 lausnum sem hafi komið frá sviðinu séu 14 dagatöl og kort en megnið séu svokölluð mælaborð sem t.d. telja sundlaugagesti. Varla geti þetta talist brýnar lausnir. Aðeins ein lausnin hafi með börn að gera en það sé kostnaðargreining á sérstökum stuðningi við börn. Segir í bókun Kolbrúnar við svari sem lagt var fram á  fundi Stafræns ráðs í apríl 2023:

„Enn bólar ekkert á upplýsingavef yfir framlögð mál borgarfulltrúa. Fjögur áru eru síðan ákveðin upphæð var eyrnamerkt fyrir það verkefni sem var áður en fjárhagsstaða borgarinnar varð svo slæm sem raun ber vitni. Það er öllum ljóst sem fylgst hafa með að fyrstu árin í stafrænni vegferð var ekki kannað hvort til væru lausnir í notkun áður en farið var í nýþróun lausna. Þessi vegferð öll  hefur verið með ólíkindum“

Kolbrún fer einnig hörðum orðum um Stafrænt ráð borgarinnar sem sett var á laggirnar eftir síðustu kosningar. Áður voru nýsköpunarmálin undir Mannréttinda- nýsköpunar-  og lýðræðisráði. Þetta Stafræna ráð sé puntið eitt og aðeins notað til að sýna ráðamönnum glærur á montkynningum, en rétt er að geta þess að fyrir setu í ráði og setja fundi eru greidd laun.

Samkvæmt opnu bókhaldi borgarinnar nam launakostnaður fyrir Stafrænt ráð um 11,5 milljónum á fyrstu þremur ársfjórðungum síðasta árs, en heildar launakostnaður hjá ÞON rétt rúmum milljarði og tæpum 1,1 milljarði á árinu 2022. Starfsmannakostnaður skrifstofu sviðsstjóra ÞON var sá hæsti af öllum skrifstofum sviðsins á fyrstu þremur ársfjórðungum síðasta árs, eða tæp 1,9 milljón á meðan kostnaður hjá Stafrænni Reykjavík var rétt rúmlega 700 þúsund.

Veigamest í starfsmannakostnaði skrifstofu sviðsstjóra var kostnaður vegna veisluþjónustunnar Nomy upp á 573 þús, og til veislusalarins Sykursalurinn, 557 þús. ÞON greiddi á fyrstu þremur ársfjórðungum samtals 774 þús til Líf og sál sálfræðistofu,

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Sigmundur Davíð um slaufun Þórðar Snæs – „Þeir sem eru fyrstir til að kasta steinunum það eru yfirleitt ekki þeir syndlausu“

Sigmundur Davíð um slaufun Þórðar Snæs – „Þeir sem eru fyrstir til að kasta steinunum það eru yfirleitt ekki þeir syndlausu“
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Össur segir Þorgerði farna að hallast til hægri – „Hún smó undan sem fugl á flugi“

Össur segir Þorgerði farna að hallast til hægri – „Hún smó undan sem fugl á flugi“
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Þetta myndi Arnar Þór gera ef hann væri Donald Trump

Þetta myndi Arnar Þór gera ef hann væri Donald Trump