Hulda Þórhallsdóttir hefur verið ráðin forstöðumaður þjónustuupplifunar hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Klöppum grænum lausnum.
Hulda starfaði áður hjá Deloitte frá árinu 2018 og stýrði þar innri sjálfbærnimálum og innleiðingu sjálfbærnistefnu alþjóðafyrirtækisins. Fyrir hönd Deloitte átti hún sæti í vinnuhópum um sjálfbærnimál sem starfar þvert á aðildarfélög Deloitte í Norður og Suður Evrópu. Hulda sinnti einnig sjálfbærnitengdum verkefnum þvert á svið fyrir viðskiptavini. Helstu verkefni voru staðfesting sjálfbærniupplýsinga, gloppugreiningar og áreiðanleikakannanir í tengslum við ESG sem og verkefni í tengslum við innleiðingu CSRD/ESRS hluta nýrra evrópskra sjálfbærnireglugerða.
Grænar lausnir Klappa miða meðal annars að því að hjálpa fyrirtækjum, sveitarfélögum og stofnunum að byggja upp innviði á sviði upplýsingatækni til að takast á við áskoranir sem fram undan eru í sjálfbærnimálum, ekki síst vegna alþjóðlegra skuldbindinga um að draga úr losun. Fyrirtækið hefur vaxið hratt á síðustu þremur árum og eru nú með rúmlega fjögur þúsund notendur í yfir 20 löndum.
„Við erum afar ánægð að fá Huldu til liðs við Klappir og bjóðum hana velkomna til starfa. Hulda hefur mikla og víðtæka reynslu á sviði sjálfbærnimála. Reynsla hennar í að vinna að innri sjálfbærnimálum, innleiða alþjóðlega stefnu og vinna með viðskiptavinum gerir hana að verðmætum liðsauka fyrir teymi okkar hjá Klöppum. Við erum fullviss um að þekking hennar og reynsla mun nýtast Klöppum og viðskiptavinum fyrirtækisins vel í alþjóðlegu umhverfi sjálfbærnimála,“ segir Jón Ágúst Þorsteinsson, forstjóri Klappa.