fbpx
Föstudagur 27.desember 2024
Eyjan

Orðið á götunni: Farsæll sigurvegari skilar af sér – ólund sjálfstæðismanna með mesta móti

Eyjan
Þriðjudaginn 16. janúar 2024 16:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Orðið á götunni er að gleði sjálfstæðismanna yfir því að Dagur B. Eggertsson stígur í dag úr stóli borgarstjóra sé blandin örvæntingu, vonbrigðum og vonleysi. Ástæðan er vitanlega sú að ekkert bendir til þess að eyðimerkurgöngu flokksins í sínu fyrrum höfuðvígi taki neinn enda í bráð þótt sigursæll leiðtogi Samfylkingarinnar hverfi væntanlega fljótlega af vettvangi borgarmálanna.

Borgarstjórnarferill Dags er óvenju glæsilegur. Hann hefur setið á borgarstjórastóli í hartnær áratug og leitt vaxandi borg á tímum mikilla breytinga. Hann hefur myndað fjóra meirihluta með mismunandi flokkum (raunar má segja að meirihlutarnir séu fimm ef tekinn er með skammlífur meirihluti Samfylkingar, Framsóknar, Vinstri grænna og F-lista 2007-2008).

Orðið á götunni er að sjálfstæðismönnum svíði mjög sá hæfileiki Dags að laða ólíkt fólk og flokka til samstarfs við sig og halda Sjálfstæðisflokknum í minnihluta í borginni þrátt fyrir að gengi Samfylkingarinnar í kosningum hafi ekki alltaf verið eins og best er á kosið. Allt frá 2010, er Jón Gnarr varð borgarstjóri í meirihlutasamstarfi Besta flokksins og Samfylkingar, hefur Dagur verið leiðandi afl í borgarstjórn Reykjavíkur. Frá 2010 til 2014 var hann formaður borgarráðs, sem talin er mest valdastaða í borgarstjórninni, jafnvel valdameiri en embætti borgarstjóra. Veldur þó ávallt sá er á heldur.

Frá 2014 hefur Dagur verið borgarstjóri, samfellt í meira en níu og hálft ár, fyrst í meirihlutasamstarfi með Bjartri framtíð, VG og Pírötum. Björt framtíð bauð ekki fram 2018 og þá kom Viðreisn inn í meirihlutasamstarfið sem áfram var undir forystu Dags. Eftir mikinn kosningasigur Framsóknar 2022 varð úr að Framsókn kom inn í meirihlutann í stað VG.

Einungis þrír borgarstjórar hafa nú setið lengur en Dagur B . Eggertsson. Knud Zimsen sat í 18 ár frá 1914 til 1932. Næstur honum er Gunnar Thoroddsen, sem sat í rúmlega 13 og hálft ár, 1947-1960. Í þriðja sæti yfir borgarstjóra sem lengst hafa setið er Geir Hallgrímsson sem sat í rúm 13 ár, en hann lét af embætti 1972 til að helga sig landsmálum.

Orðið á götunni er að sjálfstæðismenn geti ekki leynt svekkelsi sínu yfir því hve vel Degi hefur tekist að halda í völdin í Reykjavík og alltaf hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið úti í kuldanum í minnihluta, nú síðast með Sósíalistaflokknum, VG og Flokki fólksins. Kemur þetta vel fram í pistli frá Birni Bjarnasyni sem birtist á vefsvæði hans í dag. Björn virðist ekki geta á sér heilum tekið vegna velgengni Dags.

Orðið á götunni er að vert sé að halda því til haga að sjálfur reyndi Björn að sveipa sig skikkju borgarstjóra fyrir röskum 20 árum, er hann steig úr ráðherrastóli til að leiða Sjálfstæðisflokkinn í borgarstjórnarkosningunum 2002. Ekki reið hann feitum hesti frá því og R-listinn undir forystu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur borgarstjóra vann öruggan sigur og fékk hreinan meirihluta. Björn fékk því að kynnast áhrifaleysi í minnihluta í borgarstjórn Reykjavíkur.

Þegar hann nú bölsótast yfir Degi B Eggertssyni, sem hefur margoft tekist það sem Birni lánaðist aldrei, koma óneitanlega upp í hugann orð Mikka refs, þegar hann gat með engu móti náð í berin sem hann þráði þó svo mjög: „Berin eru súr …“

Orðið á götunni er að ólund Björns Bjarnasonar og annarra flokkseigenda Sjálfstæðisflokksins muni svo bara aukast þegar Dagur fer í framboð til Alþingis, enda fyrirséð að innkoma hans á svið landsmálanna mun muni styrkja mjög stöðu Samfylkingarinnar og er hún þó sterk fyrir.

Orðið á götunni er að eftir kosningar muni Dagur beita sér fyrir myndun ríkisstjórnar samkvæmt Reykjavíkurmódelinu sem þýðir að Sjálfstæðisflokkurinn horfir fram á að vera haldið utan ríkisstjórnar, jafnvel í nokkur kjörtímabil, líkt og gerst hefur í Reykjavík þar sem áhrifaleysi í minnihluta hefur verið hlutskipti flokksins í mörg ár og jafnvel er hægt að telja í áratugum þann tíma sem eyðimerkurgangan hefur varað.

Engan þarf því að undra að ólund Björns og félaga sé með mesta móti á þessum merku tímamótum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Gagnrýna tíðar hækkanir á ofurlaunum borgarfulltrúa – „Af hverju gildir hið sama ekki um örorkubætur“

Gagnrýna tíðar hækkanir á ofurlaunum borgarfulltrúa – „Af hverju gildir hið sama ekki um örorkubætur“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Hvað verður um Framsóknarflokkinn? – Hver tekur við forystunni?

Orðið á götunni: Hvað verður um Framsóknarflokkinn? – Hver tekur við forystunni?