fbpx
Sunnudagur 19.janúar 2025
EyjanFastir pennar

Sigmundur Ernir skrifar: Það þarf að stytta upp í borginni

Eyjan
Laugardaginn 13. janúar 2024 14:00

Sigmundur Ernir Rúnarsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það voru varla liðnir nema fáeinir dagar af nýju ári þegar Guðrún Jónsdóttir, ein mikilvirkasta baráttukona fyrir kvenréttindum og fyrsti félagsráðgjafinn á Íslandi, féll frá, á tíræðisaldri.

Andlát hennar er okkur eftirlifendum áminning um hvaða manneskjur skipta mestu máli í samfélaginu. Og þar rís Guðrún hátt og gín yfir flestum þeim sem hefur opinberlega verið hampað á vettvangi dagsins fyrir brautryðjendastarf og óbilandi trú á umbyltingu í mannlegum samskiptum.

Sjálf var Guðrún fædd í sárri fátækt austur í Vík í Mýrdal og sagði frá því svo eftirminnilega að pabbi hennar hefði verið í eilífum snöpum eftir vinnu og aldrei fengið útborgað. Þegar hún flutti svo flutt til Reykjavíkur, fjórtán ára gömul, hefði hún aldrei séð peningaseðil.

Það lýsir auðvitað einurð hennar vel og viljastyrk að svo ung kona úr allsleysi æskuáranna braut af sér hlekki karlasamfélagsins um miðja síðustu öld og skráði sig ekki einasta í nám við Menntaskólann í Reykjavík, heldur sóttist hún líka eftir framhaldsnámi á æðsta skólastiginu. Það var fátítt um konur á þeim tíma. Og þótti varla við hæfi.

En til marks um ójafnrétti þessara ára er að einu konurnar sem héldu áfram námi eftir útskriftina úr MR vorið 1953 voru Guðrún og Auður Þorbergs, sem síðar varð lögfræðingur. Konur áttu ekki að venjast þvílíkri upphefð að setjast á háskólabekk.

„Styttur bæjarins eru varla til vitnis um að konur hafi skipt samfélagið nokkru máli.“

En Guðrún lét þann aldarháttinn ekki aftra sér. Hún hélt meira að segja utan til náms, en svo hún hefði efni á því, réði hún sig fyrst sem kokk á síldarbát. Að nokkrum árum liðnum snéri hún svo heim frá Gautaborg sem fyrsti félagsráðgjafinn á Íslandi – og lét auðvitað ekki staðar numið, heldur hóf að leggja drögin að kvenfrelsisbyltingunni á Íslandi með öllum þeim tiltæku ráðum sem sviðu á skinni margra íhaldssamra karlmanna sem töldu sig eiga þjóðfélagið með húð og hári.

Seinni tíma sögu Guðrúnar, þegar vel var liðið á öldina, þekkja landsmenn og mega þakka fyrir hana. Ógleymanlegt er það þeim sem hér fer fingrum um lyklaborðið þegar hann sat sem ungur blaðamaður á Helgarpóstinum andspænis Guðrúnu og Magdalenu Schram í húsakynnum borgarstjórnar árið 1985, en þar voru þær íklæddar síðkjólum með kórónur á höfði og borða um sig miðja þar sem á stóð Ungfrú spök, í tilviki Möllu, og Ungfrú meðfærileg hjá Gunnu. Með þessum eftirminnilega hætti voru þær að mótmæla því myglaða viðhorfi í forréttindasamfélagi karla að konur væru til skrauts í mannlífinu – og mættu þar í besta falla þakka fyrir að vera útlitið eitt. Og í borgarstjórn væru þær til þess eins að klípa í rassinn á.

Breytinguna þekkjum við – og byltinguna sömuleiðis. Og það eru konur eins og Guðrún Jónsdóttir sem hafa rutt þá braut, án þess að hika nokkru sinni, og eru hetjur sannar á heljarslóð.

En að því sögðu er það einkar umhugsunarvert að þakklætið berum við enn þá í hljóði. Styttur bæjarins eru varla til vitnis um að konur hafi skipt samfélagið nokkru máli. Einmitt þegar augljóst er að því er þveröfugu farið. Og það er kominn tími til að breyta því líka.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Björn Jón skrifar: Þankar um aga og uppeldi

Björn Jón skrifar: Þankar um aga og uppeldi
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Pólitísk aflögun í íslenskum landsmálum

Sigmundur Ernir skrifar: Pólitísk aflögun í íslenskum landsmálum
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Ár íss og elda

Steinunn Ólína skrifar: Ár íss og elda
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótaávarp

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótaávarp
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Orðið á götunni: Meiri músikk – minna mas!

Orðið á götunni: Meiri músikk – minna mas!
EyjanFastir pennar
13.12.2024

Steinunn Ólína skrifar: Bríet Ísis Elfar

Steinunn Ólína skrifar: Bríet Ísis Elfar
EyjanFastir pennar
12.12.2024

Ágúst Borgþór skrifar: Saklaus maður sakaður mánuðum saman um svívirðileg kynferðisbrot

Ágúst Borgþór skrifar: Saklaus maður sakaður mánuðum saman um svívirðileg kynferðisbrot
EyjanFastir pennar
09.12.2024

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu
EyjanFastir pennar
06.12.2024

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?
EyjanFastir pennar
05.12.2024

Ágúst Borgþór skrifar: Meiri starfslaun, takk!

Ágúst Borgþór skrifar: Meiri starfslaun, takk!