Morgunblaðið greinir frá því í morgun í látlausri frétt að Hagstofan, sjálfstæð undirstofnun forsætisráðherra, hafi nýlega gert stofnanasamning við sérfræðinga sína. Væntanlega hefur það verið gert með upplýstu samþykki ráðherrans. Á ferðinni eru samningar sem tryggja sérfræðingunum 5% launahækkun, sem bætist við þau 7% sem sérfræðingarnir fengu í síðustu kjarasamningum. Þannig hafi laun sérfræðinganna hækkað um yfir 12%, sem blaðið bendir á að sé umtalsvert meira en þau 6,75% sem almennt fékkst úr síðustu kjarasamningum.
Svarthöfði sér ekki betur en þarna hafi verið vel að verki staðið. Með þessu er Hagstofan að festa sig í sessi sem mótandi afl þegar kemur að kjörum hinna vinnandi stétta. Skemmst er að minnast frumkvæði stofnunarinnar þegar öllum starfsmönnum var gefið frí milli jóla og nýárs í hitteðfyrra, án þess að það skerti orlofsrétt þeirra. Sú nýbreytni var svo þróuð áfram um síðustu hátíðir þegar það var látið heita að starfsmenn hefðu ekki með mætingarskyldu en væru á bakvakt.
Svarthöfði þarf ekki að hugsa lengi til að átta sig á að það er ekki nokkur betur til þess fallinn að vera í fararbroddi þróunar og nýbreytni á vinnumarkaði. Stofnunin hefur enda yfirgripsmikil gögn um þróun verðlags og launa sem birt eru reglulega og því upplagt að hún taki að sér að leggja línurnar. Söfnun þessara gagna og hagskýrslugerð öll einfaldast líka mjög þegar skýrsluhöfundur hefur sjálfur ákveðið megin drættina.
Við blasir að óþarfi er að trufla embætti ríkissáttasemjara frekar með kjaraviðræðum breiðfylkingar verkalýðsfélaga og Samtaka atvinnulífsins sem nú standa, þar sem línan er komin. Hún liggur reyndar nokkru ofar en Svarthöfða skilst að sé þar til umræðu, en skítt með það. Ef Hagstofan, með öll sín gögn og upplýsingar, telur að óhætt sé að hækka laun um 5% og útdeila ókeypis frídögum, þá getur varla nokkur amast við því.
Það er svo sjálfstætt mál og til athugunar hvort við ættum ekki öll að vinna bara á Hagstofunni. Það myndi sannarlega leysa margan vanda.
Kannski væri allra skynsamlegast að sameina bara Hagstofuna og embætti ríkissáttasemjara. Þau eru svo gott sem á sömu addressu við Borgartún hvort eð er.