fbpx
Þriðjudagur 24.desember 2024
Eyjan

Svarthöfði skrifar: Framsýn útvistun sorphirðu

Svarthöfði
Miðvikudaginn 10. janúar 2024 18:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Svarthöfða rak í rogastans er hann fékk fregnir af því að Sorpa væri hætt að dreifa brúnum bréfpokum undir lífrænan úrgang heimila í verslanir. Framvegis verður einungis hægt að nálgast þessa poka á sex endurvinnslustöðvum Sorpu á höfuðborgarsvæðinu og í verslun Góða hirðisins að Köllunarklettsvegi 1. Ástæða þessa ku vera hömlulaust hamstur heimila á þessum pokum.

Svarthöfði man ekki betur en að einungis séu nokkrar vikur liðnar síðan Sorpa fullvissaði fólk um að brúnu bréfpokarnir yrðu áfram gjaldfrjálsir og engin breyting yrði á aðgengi að þeim. Þetta var til að bera til baka orðróm um að senn yrði farið að rukka fyrir þá. Fáa hefur sjálfsagt grunað að um áramót yrðu þeir með öllu horfnir úr verslunum.

Á Facebook rakst Svarthöfði á færslu frá Eyrúnu Magnúsdóttur blaðamanni sem gerir vissar athugasemdir við innleiðingu Sorpu á hinu nýja flokkunarkerfi. Hún vísar í tilkynningu frá Sorpu þar sem fram kemur að enn sé „töluvert af matarleifum eftir í tunnunni fyrir blandað rusl og því til mikils að vinna að ná sem mestum matarleifum úr blönduðu tunnunni á nýju ári.“

„Hver er lausnin á því?“ spyr Eyrún. „Jú, við ætlum að færa brúnu pokana fjær fólki svo erfiðara sé að nálgast þá!“ svarar hún sjálf. Ekki er laust við að Svarthöfði telji sig greina eilítinn vott af kaldhæðni í skrifum Eyrúnar.

Allt frá því að skipt var út sorptunnum við heimili Svarthöfða seint í sumar og settar þar gljáandi fínar og nýjar hólfaskiptar tunnur hefur hann samviskusamlega lagt hálft eldhúsið hjá sér undir mismunandi fötur og poka fyrir mismunandi flokka sorps. Til að byrja með fór hann svo reglulega með flokkað ruslið og kom því fyrir í viðeigandi hólfi í sorptunnu. Upp úr miðjum september fór að síga á ógæfuhliðina í þessum efnum, þegar hvert flokkunarhólfið á fætur öðru í sorptunnunum fylltist svo ekki varð meiru komið fyrir. Lítið bólaði á því að öskubílarnir mættu í götuna til að hirða þetta vandlega flokkaða sorp.

Á endanum gafst Svarthöfði upp og fór að fara sjálfur með sitt vandlega flokkaða sorp í grenndargámana í hverfinu. Nú er svo komið að hann og fleiri úr hans hverfi fara hver á sinum fjallabíl þrisvar til fjórum sinnum í viku með sorp af ýmsu tagi í grenndargáma. Sparnaðurinn hjá Sorpu við þetta hlýtur að vera umtalsverður. Engin þörf er á að senda öskubílana til að losa tunnur við hvert heimili – íbúarnir fara bara sjálfir með þetta í grenndargáma. Reyndar virðist sparnaðurinn hjá Sorpu hafa gengið fulllangt þar sem ekki virðist heldur vera neitt ferli um að losa grenndargámana og þar er því farið að hlaðast upp talsvert af sorpi utan við gámana. Sorpa er greinilega búin að útvista sorplosun frá heimilum borgarinnar til heimila borgarinnar en vert er að benda á að grenndargámarnir losa sig ekki sjálfir og heimilin búa almennt ekki yfir tækjakosti til að fara með grenndargámana til losunar á endurvinnslustöðvum Sorpu.

Svarthöfði getur samt ekki annað en dáðst að stjórnvisku og umhverfisnæmni stjórnenda Sorpu fyrir þetta síðasta útspil. Það er tær snilld að stöðva hamstur heimilanna á brúnu bréfpokunum með því að fjarlægja þá úr verslunum og skikka fólk til að gera sér ferð á næstu endurvinnslustöð til að ná sér í poka, sem væntanlega verða taldir ofan í fólk til að koma í veg fyrir að þeir verði hamstraðir þar líka. Upplagt að láta fólk fá 2-3 poka í einu. Laugardagarnir geta þá farið í að bíða í langri bílaröð við endurvinnslustöðvarnar eftir brúnum pokum. Kannski líka hægt að nota ferðina til að skila frá sér vandlega flokkuðu sorpi í rétta gáma þar.

Svarthöfði er þess fullviss að bíllausar, einstæðar mæður á Völlunum í Hafnarfirði telja það ekki eftir sér að dragnast með börnin í strætó á endurvinnslustöðina að ná í bréfpoka undir lífrænt rusl sem þær verða svo að koma sjálfar í grenndargáma, kannski áður en þær fara með börnin í leikskólann á morgnana – eða bara taka sorpið með í vinnuna og skila því í grenndargáminn þegar búið er að sækja börnin í leikskólann.

Svarthöfði sér að þetta er allt úthugsað hjá stjórnendum Sorpu, rétt eins og sorpeyðingarstöðin GAJA sem mögulega virkar eins og stefnt var að einhvern tímann í framtíðinni. Mögulega!

Ekki væri úr vegi að einhver hinna fjölmörgu háskóla sem hér á landi starfa tæki sig til og byggi til raunhæft verkefni um Sorpu og innleiðingu hins nýja flokkunarkerfis sorps, eða bara ákvarðanatöku innan Sorpu yfirleitt, fyrir stúdenta í viðskiptafræðideild. Svarthöfði er sannfærður um að slíkt verkefni gæti aukið áhuga margra á viðskiptafræðum og rekstri.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Segir 10 Prís verslanir opna á næsta ári

Segir 10 Prís verslanir opna á næsta ári
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Afhjúpar lævíst plott Sjálfstæðisflokksins til að tryggja sér fjárhagslega yfirburði – Svona reyndi hann að veikja samkeppnina

Afhjúpar lævíst plott Sjálfstæðisflokksins til að tryggja sér fjárhagslega yfirburði – Svona reyndi hann að veikja samkeppnina
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Halla endurnýjar listaverkin á Bessastöðum

Halla endurnýjar listaverkin á Bessastöðum
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu: Góð verslun fyrir jólin – sprenging í netverslun í nóvember

Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu: Góð verslun fyrir jólin – sprenging í netverslun í nóvember
Eyjan
Fyrir 1 viku

Björn Leví skrifar – Verri niðurstaða

Björn Leví skrifar – Verri niðurstaða
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sigmundur um vöruhúshneykslið – „Ekki skipulagsslys heldur skemmdar­verk”

Sigmundur um vöruhúshneykslið – „Ekki skipulagsslys heldur skemmdar­verk”