fbpx
Sunnudagur 19.janúar 2025
Eyjan

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Til varnar Svandísi!

Eyjan
Miðvikudaginn 10. janúar 2024 10:44

Ole Anton Bieltvedt.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Umboðsmaður Alþingis gerði á dögunum athugasemd við þá gjörð Svandísar Svavarsdóttur, matvælaráðherra, að leyfa ekki hvalveiðar í fyrra, fyrr en frá 1. september, sem jafngilti hvalveiðibanni sl. sumar, með ákvörðun, sem hún tók og tilkynnti 20. júní, en Hvalur hf. hafði ætlað að hefja veiðar 21. júní.

Taldi hann að trausta lagastoð hefði skort, meðalhófsreglan hefði ekki verið virt sem skyldi og að þetta gæti ekki talizt góð stjórnsýsla.

Ég skil þessa afstöðu og gagnrýni Umboðsmanns á þann veg, að hann hafi, fyrst og fremst, talið að „bann“ ráðherra hafi komið með of stuttum fyrirvara. Það hafi verið megin gallinn á gjörðinni.

Hvað með lög nr. 50/2013 um velferð dýra?

Samkvæmt því sýnist mér þessi afstaða Umboðsmanns aðallega snúast um tímasetningu ákvörðunarinnar, formið, en ekki málefnið, innihald og tilgang ákvörðunar ráðherra, sem gekk út á það að tryggja nauðsynlega vernd dýranna, skv. lögum nr. 55/2013, gegn limlestingum, misþyrmingum og kvalafullum veiðiaðferðum, en 16. júní fékk ráðherra skýrslu Fagráðs um velferð dýra í hendur, kolsvarta skýrslu um stórfellt dýraníð við veiðar 2022, sem sýndi, að fyllsta þörf væri á þeirri vernd.

Orðalag skýrslunnar var afdráttarlaust og skýrt: „Niðurstaða ráðsins var sú að sú veiðiaðferð, sem beitt er við veiðar stórhvela, samrýmist ekki ákvæðum laga nr. 55/2013 um velferð dýra“.

Það vekur undrun undirritaðs að Umboðsmaður skuli ekkert hafa gert með lög nr. 55/2013, og margvísleg ákvæði þeirra laga, sem öll styðja gjörð ráðherra og hún byggir einmitt „bannið“ á. Hins vegar talar Umboðsmaður um „alþjóðleg viðmið um mannúðlegar veiðar“ án þess að fram komi hver þau eigi að vera og hvernig þau eigi að koma inn í myndina. Hefði ekki verið nær, að hann hefði tekið hin íslenzku lög um velferð dýra, nr. 55/2013, sem tóku gildi 1. janúar 2014, og Svandís byggði sína ákvörðun 20. júní á, inn í sína greiningu!?

Auðvitað er Umboðsmaður enginn Guð frekar en aðrir menn.

Ástæður síðbúins „banns“

Svandís tók við embætti matvælaráðherra í árslok 2021. Vorið 2022 gerði hún ráðstafanir til að fylgzt væri náið með langreyðaveiðum þá um sumarið, en starfsmenn Fiskistofu fylgdust með veiðum í hvalveiðibátunum, og eftirlitsdýralæknir MAST skoðaði alla hvalina sem veiddust, 148 talsins, í landi.

Voru þetta fagleg og vísindaleg vinnubrögð og hlýtur grunnskýrsla um veiðarnar – reyndar rosalega ljót skýrsla, þar sem fram kom að lífið hafði verið murkað úr 41% dýranna með fólskulegum og skelfilegum hætti – að hafa legið fyrir seint á árinu 2022.

Hvalur hf. lá hins vegar í því að leita eftir frestun á endanlegum frágangi og útgáfu skýrslunnar, þóttist þurfa tíma til að meta hana og gera athugasemdir þó að efnið hafi legið fyrir og Hvalsmönnum hafi auðvitað verið full kunnugt um hvað gerðist í veiðunum og hvers væri að vænta frá því að veiðum lauk haustið 2022.

Kristjáni Loftssyni og öllum þeim, sem tengjast hvalveiðum, líka starfsmönnum, mátti því lengi hafa verið ljóst að ekkert öryggi væri til staðar um hvalveiðar 2023.

Á grundvelli gamalkunnrar þrákelkni, sjálfbirgingsháttar og frekju taldi Kristján Loftsson þó að hann myndi fá vilja sínum um áframhaldandi hvalveiðar framgengt, þrátt fyrir að fyrir lægi í ítarlegum og faglegum grunngögnum, sem hann þekkti full vel, að þær orkuðu stórlega tvímælis.

Síðbúið bann var ekki gott, en annars vegar olli Kristján því sjálfur og hins vegar mátti honum löngu hafa verið ljóst að til þess kynni að koma.

Hvalveiðar, reglugerðir og lög

Gjarnan má glugga aðeins betur á lagalega hlið hvalveiða.

2009 setti þáverandi sjávarútvegsráðherra reglugerð um það, að verka bæri hval í lokuðu rými, undir þaki, til samræmis við reglugerð ESB um hollustuhætti í matvælaiðnaði og matvælaöryggi.

Þessi reglugerð tók gildi 2010. Í 8 ár, fram til 2018, hunzaði Kristján Loftsson þessa reglugerð, hélt áfram að verka undir beru lofti, eins og var 1949, þar sem sníkjudýr, fuglar og hvers kyns óværa gátu komizt í afurðirnar, og komst upp með það.

Hvar voru sjálfskipaðir löggæslumenn í hvalveiðimálum, Teitur Björn Einarsson og aðrir hans líkar, D-liðar, og áhugi þeirra á löghlýðni og réttri framgöngu í hvalamálum þessi 8 ár?

Skilyrði hvalveiðileyfis fyrir 2014-2018 var að Hvalur skilaði veiðidagbókum fyrir veiðarnar strax í lok veiðitímabils. Hvalur neitaði hins vegar, að skila veiðidagbókunum, þrátt fyrir þetta afdráttarlausa ákvæði veiðileyfis, Fiskistofa margkrafðist bókanna en Kristján Loftsson sýndi Fiskistofu, og auðvitað sjávarútvegsráðuneytinu, bara fingurinn. Góð framkoma og löghlýðni það.

Þetta virðist líka hafa verið í sinni D-liða, því ekki heyrðist múkk frá þeim um óréttmæti þessarar háttsemi, þetta reglubrot, jafnvel ekki eftir að forráðamenn Hvals höfðu verið sakfelldir fyrir hana fyrir Sakadómi Vesturlands.

Þess í stað verðlaunaði Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra D, Kristján Loftsson fyrir brotin með nýju hvalveiðileyfi fyrir tímabilið 2019-2023. Því umfangsmesta, sem um getur.

Teitur Björn Einarsson og D-liðar ættu að hafa hægt um sig í snakki og kröfugerð um góða stjórnsýslu. Oft ættu menn að byrja á að líta sér nær.

Erfið ákvörðun en hugrökk og hárrétt

Svandís Svavarsdóttir var í erfiðri stöðu helgina 16.-20. júní í fyrra. Þetta var reyndar þjóðhátíðardagshelgin. Átti hún að gera skyldu sína, skv. lögum um velferð dýra nr. 55/2013, eftir að hafa fengið í hendur þá rétt áður kolsvarta skýrslu um stórfelld brot Hvals hf. á sömu lögum og skelfilegt dýraníð þeirra við veiðar 2022, eða átti  hún að beygja sig fyrir voldugum hvalveiðisinnum, D-liðum og öðrum pótintátum, láta formið, svokallaða „góða stjórnsýslu“, hafa forgang á kostnað verndar og velferðar dýranna; gefa skít í skyldur sínar skv. lögum nr. 55/2013.

Fyrir mér gerði Svandís – í ljósi heildarmálsins – það eina rétta, tryggði dýrunum lögvarinn rétt þeirra, jafn langt og það gat náð í þeirri stöðu, og sýndi þar með líka af sér fágætt hugrekki, mennsku og manndóm.

Þeir, sem þykjast vera dýravinir en ráðast svo á Svandísi vegna ákvörðunar hennar um „bann“, vernd dýranna, og eru að reyna að styrkja sína pólitísku stöðu með því eru fyrir mér bæði að sýna af sér dómgreindarskort og óheilindi; átti efnið sjálft, inntak málsins, lögboðin og bráðnauðsynleg vernd tuga eða hundraða friðsamra risa úthafanna að víkja fyrir formi ákvörðunarinnar!?

Það er vonandi að ekki komist aftur til valda sjávarútvegsráðherra, sem er svo mikill aumingi að leyfa aftur veiðar stórhvela sem allar aðrar siðmenntaðar þjóðir banna!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Tímamóta-Dagur þakkar fyrir sig – „Og angurværi gaurinn – ég – til hægri, þakkar fyrir sig!“

Tímamóta-Dagur þakkar fyrir sig – „Og angurværi gaurinn – ég – til hægri, þakkar fyrir sig!“
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Vilhjálmur Birgisson skrifar: Mikilvægi faglegrar erlendrar úttektar á gjaldmiðlamálum

Vilhjálmur Birgisson skrifar: Mikilvægi faglegrar erlendrar úttektar á gjaldmiðlamálum
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Fyrrum þingmaður segir okkur ekki ráða við þetta einfalda verkefni

Fyrrum þingmaður segir okkur ekki ráða við þetta einfalda verkefni
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ásdís Rán útilokar ekki annað forsetaframboð

Ásdís Rán útilokar ekki annað forsetaframboð
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Segir óvíst að Kristrúnu takist að halda Degi úti í horni til lengdar

Segir óvíst að Kristrúnu takist að halda Degi úti í horni til lengdar
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Það má semja um aðildarskilmála að ESB – mörg dæmi sýna það og sanna

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Það má semja um aðildarskilmála að ESB – mörg dæmi sýna það og sanna
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Auðræðið eflist og lýðræðið linast

Sigmundur Ernir skrifar: Auðræðið eflist og lýðræðið linast
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Nýir leiðtogar munu spreyta sig fyrir næstu borgarstjórnarkosningar – alger uppstokkun í aðsigi

Orðið á götunni: Nýir leiðtogar munu spreyta sig fyrir næstu borgarstjórnarkosningar – alger uppstokkun í aðsigi