fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
Eyjan

Ágúst Bjarni og Hafdís Hrönn skrifa: Venjulegt fólk og afborgun lána við núverandi aðstæður

Eyjan
Miðvikudaginn 10. janúar 2024 16:34

Ágúst Bjarni Garðarsson og Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir eru þingmenn Framsóknar.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Verðbólga og háir vextir hafa áhrif á samfélagið allt þar sem byrðar fólks og fyrirtækja þyngjast með hverjum deginum. Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá nokkrum að stjórnmálin um heim allan eru með vindinn í fangið þessi misserin. Hækkanir á hækkanir ofan dynja á almenningi víða um heim og við hér á Íslandi erum ekki undanskilin og finnum fyrir þeim. Þá gildir einu hvort við séum að horfa á húsnæðislánin okkar, matarkörfuna, tryggingarnar eða hvað eina annað. Afleiðingar af þessum hækkunum eru að almenningur í landinu fær minna fyrir krónurnar sínar.

Við höfum oft og tíðum rætt um „venjulegt“ fólk og hina „venjulegu“ fjölskyldu; fólkið sem af einhverjum ástæðum fellur oft á milli skips og bryggju í hinni daglegu umræðu. Hér er um að ræða hóp sem fær ekki alltaf mikla athygli, hver sem ástæðan er fyrir því, hvort sem það er vegna þess að sá hópur telst ekki vera í viðkvæmri stöðu eða til minnihlutahóps. Hann hefur ekki hátt og er í raun nokkuð ósýnilegur ef svo má segja. Hann mætir til vinnu, hugsar um fjölskylduna, eldar matinn og borgar reikninga. Þessa hversdagslegu hluti og lífið gengur sinn vanagang dag eftir dag, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð. Líkt og hamstur í hjóli.

Við teljum að þetta sé hópurinn sem telur sig ekki vera í þeirri stöðu að geta haft hátt um stöðuna eða telja sig jafnvel ekki eiga rétt á því að kvarta. Þau sem þessum hópi tilheyra eru ekki meðal þeirra tekjulægstu, en eru ólík og bera oft mikið álag. Þetta er hópurinn sem heldur samfélaginu á gangandi og það er því til mikils að vinna að grípa inn í og létta undir þeim sem þyngstar bera byrðarnar í því árferði sem nú geisar.

Hvalrekaskattur – „við og þið“ eða „við og hinir“

Okkur hefur verið það tíðrætt síðustu mánuði að ef við ætlum okkur að ná tökum á ástandinu þurfa allir að taka þátt í því verkefni. Að taka þátt þýðir m.a. að stíga ölduna með fjölskyldum og fyrirtækjum í landinu. Við erum að sjá mikinn hagnað viðskiptabankanna þriggja þar sem bæði þjónustutekjur og vaxtatekjur þeirra eru að hækka umtalsvert. Þetta er tilkomið vegna þess að vaxtabyrði „venjulegs“ fólks er að aukast. Það er ekki annað að skynja á umræðunni að upplifun fólks sé sú að hér á landi sé að skapast samfélag sem megi kalla „við og þið“ eða „við og hinir“. Við fréttir sem þessar verður það upplifun fólks, sem alls ekki má vanmeta, að hér séu ekki allir að taka þátt og leggja sitt að mörkum til að rétta skútuna og það er vont að finna fyrir þeirri tilfinningu. Almenningur er að taka á sig auknar byrðar með ýmsum hætti og það gengur ekki að hér séu aðilar, stórfyrirtæki og aðrir, sem halda að þeir séu eyland í þessu samfélagi sem við byggjum saman. Við erum í tímabundnu ástandi, sem kallar á óvenjulegar tímabundnar aðgerðir. Af þessari ástæðu teljum við það koma vel til greina að skattleggja hagnað og arðgreiðslur alveg sérstaklega og styðja enn markvissari hætti við þá hópa sem nú standa í miðjum ólgusjó. Annað er hreinlega ósanngjarnt.

Gerð langtíma kjarasamninga

Jákvæður tónn var sleginn í kjaraviðræðum Samtaka atvinnulífsins og stærstu stéttarfélaga á almennum vinnumarkaði þegar sameiginleg yfirlýsing var send út nú rétt fyrir áramót. Í yfirlýsingunni er sérstaklega tiltekið mikilvægi þess að semja til lengri tíma svo auka megi fyrirsjáanleika og stöðugleika í efnahagslífinu. Þessi yfirlýsing er skynsamlegt innlegg í okkar mikilvægasta verkefni sem er að ná niður verðbólgu og háum vöxtum og hefur hvarvetna fengið jákvæð viðbrögð. Mesta kjarabótin fyrir fólk og fyrirtæki í landinu til lengri tíma er óumdeilanlega að ná niður vöxtum.

Það er til mikils að vinna að lenda farsælum langtímakjarasamningum. Þó svo að ríkisstjórnin eigi ekki formlega aðkomu að kjarasamningsgerðinni hafa aðilar vinnumarkaðarins kallað eftir því að stjórnvöld liðki fyrir gerð kjarasamninga. Þar teljum við meðal annars nauðsynlegt að rýna í stöðu barnafjölskyldna á Íslandi með það að markmið að skoða með hvaða hætti og hvaða aðgerðum er hægt að beita til að koma enn betur til móts við þann þunga róður sem margar fjölskyldur standa frammi fyrir þessa stundina. Það er staðreynd að við þurfum að einbeita okkur betur að barnafjölskyldum. Það er hreinlega lýðheilsumál, því ekki viljum við sjá þennan aldurshóp brenna upp í báða enda fyrir fimmtugt sem yrði samfélagslega mjög dýrt.

Húsnæðismarkaður í jafnvægi

Líkt og fyrr segir þá heldur enginn hér á fríspili; ekki ríkið, ekki sveitarfélög, ekki Seðlabankinn og ekki fyrirtækin í landinu. Ábyrgðin er okkar allra. Rörsýn Seðlabankans hefur verið of mikil og of mikill skortur er á sýn á stóru myndina, heildarsamhengi hlutanna til framtíðar, og hvert við erum raunverulega að stefna. Við þurfum framtíðarsýn og þora að sjá fyrir okkur hvernig við ætlum að hafa hlutina eftir 2, 3, 5 eða 10 ár. Vaxtahækkanir Seðlabankans hafa haft verulega neikvæð áhrif á framboðshlið húsnæðis og hert lánþegaskilyrði hafa það einnig, en gera það á öðrum enda. Annars vegar er dýrt að byggja íbúðir vegna hárra vaxta og hins vegar er erfitt að selja íbúðir vegna hertra lánþegaskilyrða Seðlabankans. Það sjá allir að þetta gengur ekki upp og hefur letjandi áhrif á uppbyggingaraðila og þar með fasteignamarkaðinn sem er alls ekki það sem við þurfum núna. Það er skammgóður vermir að pissa í skó sinn.

Snjóhengja kynslóða er að myndast sem mun svo á einhverjum tímapunkti ryðjast út á markaðinn, stíflan mun bresta og þá, ef ekki verður gefið vel í með annars vegar opinberum aðgerðum líkt og innviðaráðherra hefur ráðist í með aðgerðum í almenna íbúðakerfinu, þar sem stofnframlög voru tvöfölduð og framlög til hlutdeildarlána voru aukin, og hins vegar á almennum byggingamarkaði. Þurfum að þora að taka ákvarðanir sem byggja á framtíðarsýn því ef við stígum ekki þessi nauðsynlegu skref þá munum við sjá skarpari sveiflu með tilheyrandi neikvæðum áhrif á landsmenn en þær sem við þegar þekkjum og erum að reyna að komast út úr.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar  
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar       

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu: Góð verslun fyrir jólin – sprenging í netverslun í nóvember

Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu: Góð verslun fyrir jólin – sprenging í netverslun í nóvember
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Stjórnarsáttmáli verður kynntur um helgina

Stjórnarsáttmáli verður kynntur um helgina
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Gagnrýna tíðar hækkanir á ofurlaunum borgarfulltrúa – „Af hverju gildir hið sama ekki um örorkubætur“

Gagnrýna tíðar hækkanir á ofurlaunum borgarfulltrúa – „Af hverju gildir hið sama ekki um örorkubætur“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Hvað verður um Framsóknarflokkinn? – Hver tekur við forystunni?

Orðið á götunni: Hvað verður um Framsóknarflokkinn? – Hver tekur við forystunni?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sigmundur um vöruhúshneykslið – „Ekki skipulagsslys heldur skemmdar­verk”

Sigmundur um vöruhúshneykslið – „Ekki skipulagsslys heldur skemmdar­verk”
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Óttar Guðmundsson skrifar: Happdrættisvinningur

Óttar Guðmundsson skrifar: Happdrættisvinningur
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Ríkisstjórn rísandi sólar?

Orðið á götunni: Ríkisstjórn rísandi sólar?
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Steinunn Ólína skrifar: Bríet Ísis Elfar

Steinunn Ólína skrifar: Bríet Ísis Elfar