fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
EyjanFastir pennar

Svarthöfði skrifar: Fjárnám er orð dagsins – Ragnar Reykás seðlabankastjóri

Svarthöfði
Fimmtudaginn 26. september 2024 14:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Svarthöfði fylgist af næmni með þjóðfélagsmálum og ber hag samborgara sinna mjög fyrir brjósti. Einnig hugar hann að eigin hag og gerir sitt besta til að fylgjast með því sem helst ber á góma t.d. varðandi fjárhagslega heilsu einstaklinga og samfélagsins í heild. Af þeim sökum er hann einn fjölmargra Íslendinga sem bíður spenntur eftir niðurstöðum peningastefnunefndar Seðlabankans hverju sinni og áliti fjármálastöðugleikanefndar sama banka.

Á langri ævi hefur Svarthöfði hins vegar öðlast reynslu og komist að því að best er að taka ráðum og niðurstöðum sérfræðinganna af ákveðinni tortryggni. Hann rekur t.d. ekki minni til þess að greiningardeildir bankanna hafi nokkru sinni spáð rétt fyrir um verðbólguþróun, nema mögulega nokkra daga fram í tímann, þegar vel hittist á. Hvað áreiðanleika greiningardeilda bankanna og helstu sérfræðinga Seðlabankans er Svarthöfði helst á þeirri skoðun að um hann gildi hið sama og um biluðu klukkuna sem er rétt nákvæmlega tvisvar á sólarhring.

Svarthöfði hefur því tekið upp á því að fylgjast vel með því sem leikmenn haga að segja um efnahagsmál, fjármál einstaklinga og heilbrigði fjármálakerfisins. Á Facebook er Svarthöfði t.d. meðlimur í áhugaverðum hópi sem nefnist einfaldlega Fjármálatips. Á síðu hópsins ræða meðlimir um það sem þeim er efst í huga varðandi fjármál – mestmegnis sín eigin og heimilisins – en einnig í víðara samhengi.

Í gegnum árin hafa meðlimir hópsins skipst á upplýsingum um t.d. matarverð, mismunandi lánskjör, hagstæðustu tryggingarnar, hvernig best sé að ávaxta peninga til lengri eða skemmri tíma – svona þetta helsta sem brennur á venjulegu fólki í amstri dagsins.

Að undanförnu hefur Svarthöfði veitt því eftirtekt að tónninn á Fjármálatips er nokkuð breyttur frá því sem var. Fyrirspurnirnar eru annars eðlis en áður. Til viðbótar því að spurt sé um bestu reikningana til að geyma fjármuni í tiltekinn tíma eða hvort betra sé að taka verðtryggt eða óverðtryggt húsnæðislán, hvort betra sé að kaupa íbúð til að leigja út en fjárfesta í hluta- eða skuldabréfum birtast nú vangaveltur um það hvers vegna Íslendingum standi ekki til boða að taka lán á vaxtakjörum sem eru eitthvað í líkingu við það sem þekkist í öðrum löndum.

Eitt hefur sérstaklega vakið athygli Svarthöfða að undanförnu. Æ oftar detta nú inn á Fjármálatips fyrirspurnir um það hvað felist í fjárnámi. Fyrirspurnirnar bera þess merki að spyrjendur eru að kynnast þessu fyrirbæri í fyrsta sinn – eru væntanlega ungt fólk sem ekki fékk kennslu í áhrifum fjárnáms t.d. í síðasta hruni hér á landi fyrir hálfum öðrum áratug. Þetta er væntanlega unga fólkið sem nýverið hefur keypt sína fyrstu íbúð.

Úr þessu les Svarthöfði þau vondu tíðindi að efnahagsóstjórnin á Íslandi og okurvaxtaæði Seðlabankans og annarra banka hafa þegar læst klóm sínum í ný fórnarlömb. Hinn forni fjandi kynslóðanna er farinn að gæða sér á enn einni kynslóðinni.

Svarthöfði sem er eldri en tvævetur – eins og fram hefur komið fram í þessum pistlum oftar en einu sinni – sér að Fjármálatips er betri mælikvarði á heilsu hagkerfisins, efnahagsóstjórnina og misheppnaða peningastefnu en fagurgali stjórnarherra og seðlabankastjóra sem virðast engan sans hafa fyrir því að aðgerðir sem áttu að hægja aðeins á hagkerfinu kynda bál í einum hluta hagkerfisins og þrengja í senn að öndunarvegi venjulegs fólks – unga fólksins.

Svarthöfði kemst enn og aftur að þeirri niðurstöðu að það vanti hreinlega eitthvað mikið í þá sem stjórna þessu landi. Hann veltir fyrir sér hvort seðlabankastjóri, sem fagnar hverjum kjarasamningunum á fætur öðrum sem lóðum á vogarskálar stöðugleika en jafnharðan og vaxtastefna hans sjálfs reynist ónýt í baráttu gegn verðbólgu – og jafnvel eldsmatur fyrir verðbólguna – brýst hann fram á sjónarsviðið sem hinn eini sanni Ragnar Reykás og fordæmir kjarasamningana sem hann áður lofaði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Meirihluti fyrir málamiðlun um þjóðaratkvæði

Þorsteinn Pálsson skrifar: Meirihluti fyrir málamiðlun um þjóðaratkvæði
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Ástæða til bjartsýni á framtíðina

Björn Jón skrifar: Ástæða til bjartsýni á framtíðina
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Einmanaleiki drykkjunnar

Óttar Guðmundsson skrifar: Einmanaleiki drykkjunnar
EyjanFastir pennar
14.11.2024

Ágúst Borgþór skrifar: Þórður Snær myndi slaufa Þórði Snæ

Ágúst Borgþór skrifar: Þórður Snær myndi slaufa Þórði Snæ
EyjanFastir pennar
14.11.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Satt eða logið

Þorsteinn Pálsson skrifar: Satt eða logið
EyjanFastir pennar
07.11.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Eldhúsborðin og umheimurinn

Þorsteinn Pálsson skrifar: Eldhúsborðin og umheimurinn
EyjanFastir pennar
02.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða þjóðin

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða þjóðin