Á aðalfundi Pírata í Kópavogi um liðna helgi var ný stjórn félagsins kjörin. Fundurinn var haldinn samhliða aðalfundum Pírata í Reykjavík, Ungra Pírata og Pírata í Suðvesturkjördæmi líkt og í fyrra. Salóme Mist Kristjánsdóttir, öryrki og stjórnarmaður í NPA-miðstöðinni, stígur ný inn í stjórnina í stað Evu Sjafnar Helgadóttur varaþingmanns sem kjörin var í framkvæmdastjórn Pírata fyrr í mánuðinum. Evu eru þökkuð góð störf í þágu félagsins. Á fundinum spunnust einnig upp líflegar umræður um breytingar á merki félagsins, eins og segir í tilkynningu frá Pírötum.
Árni Pétur Árnason sagnfræðingur var endurkjörinn formaður stjórnar en athygli vekur að hann er einungis 22 ára. Indriði Ingi Stefánsson varaþingmaður, Matthías Hjartarson hátækniverkfræðingur og Elín Kona Eddudóttir skáld og sjálftitlaður eymingi, hlutu einnig endurkjör. Sem fyrr segir stígur Salóme Mist Kristjánsdóttir ný inn í stjórnina. Varamenn eru, líkt og í fyrri stjórn, Kjartan Sveinn Guðmundsson laganemi og Þorgeir Lárus Árnason verslunarstarfsmaður.
Aðspurður um kjörið sagði Árni: „Ég er mjög spenntur fyrir árinu. Síðasta stjórn undirbjó veturinn mjög vel og verkefnin eru ærin. Meirihlutinn hérna í Kópavogi hefur engan veginn mætt þörfum ungs fólks, öryrkja og annarra sem standa höllum fæti í bænum. Hér er nánast ekkert húsnæði byggt, loftslagsáætlun meirihlutans er bitlaus romsa sem ætti frekar heima í tragikómedíu, og þau eru bókstaflega hætt að leggja hjólastíga. Við Píratar höfum unnið gott starf til að veita þeim aðhald í þessum málum en þurfum að sýna íbúum að við erum raunhæfur valkostur til þess að bæta úr stöðunni á næsta kjörtímabili.“
Fráfarandi stjórn félagsins lagði fram tillögu um nýtt merki félagsins á fundinum. Merkið er dökkgrænt merki Pírata með Kópavogs-Kópi í stað þorsksins. Píratar í Kópavogi hafa þegar notast við dökkgrænan lit í merki sínu sem vísan til merkis Kópavogsbæjar. Heitar umræður voru um breytingarnar og ekki allir par sáttir. Ekki liggur fyrir hvort merkið sé brot á höfundarrétti Kópavogsbæjar á eigin merki en vildu sumir „píratera“ kópnum í leyfisleysi. Var tillögunni loks vísað til nýrrar stjórnar til frekari úrvinnslu.