Þeir sem halda því fram að íslenska krónan sé jafngóð öðrum gjaldmiðlum og gjaldmiðillinn sé ekkert annað en hitamælir eru um leið að segja að allir fjármálaráðherrar íslenska lýðveldisins hafi verið handónýtir. Í Færeyjum er hagvöxtur meiri en hér á landi, landsframleiðsla á mann meiri, verðbólga lægri og vextirnir þar eru Evrópuvextir en ekki íslenskir. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Eyjunnar.
„Þú nefnir einmitt hagstjórnina. Það er kannski það sem þessir gömlu flokkar óttast, að þeir missi valdið úr sínum höndum, eða þau þurfi að fara eftir meiri aga, þau missa ekkert valdið. Við sjáum bara Evrópusambandið, þar er mjög misjafnlega stýrt efnahagslega eftir löndum. Þau eru mjög fullvalda innan evrunnar og Evrópusambandsins, það er mismikið atvinnuleysi og við sjáum að það er atvinnuleysi á sumum stöðum en ekki öðrum,“ segir Þorgerður Katrín.
Hún nefnir Færeyjar í þessu sambandi. „Það er mjög gott fyrir okkur að miða okkur við Færeyjar. Þau eru með svipað atvinnulíf, þau eru ekki risavaxin frekar en við, en þar er hagvöxtur meiri, þar er landsframleiðsla á mann orðin meiri, atvinnuleysi minna en hér og, ég tala nú ekki um, þar eru Evrópuvextir og þar er ekki sama verðbólga og hér og það er eitthvað sem við verðum að hafa hugfast.“
Þorgerður Katrín bendir á að eini gildi þótt vaxtastig lækki hér á landi. „Við munum alltaf borga þrisvar sinnum hærri vexti heldur en aðrar Evrópuþjóðir. Við verðum alltaf með hærri verðbólgu heldur en aðrar Evrópuþjóðir. Þó að þetta sé mjög hátt núna og vonandi fer þetta niður þá er veruleikinn samt þá að við erum alltaf að borga þrefalt á við aðrar þjóðir.“
Hún segir suma halda því fram að gjaldmiðillinn sé ekkert annað en hitamælir og þetta fari allt eftir hagstjórninni. „Eru þá allir fjármálaráðherrar íslenska lýðveldisins búnir að vera handónýtir? Auðvitað ekki. Við erum búin að hafa misgóða, vissulega, en það er eitthvað meira að og við eigum að spyrja okkur: Hvar er fíllinn í postulínsbúðinni?“
Einnig er hægt að hlusta á Spotify.