fbpx
Sunnudagur 24.nóvember 2024
Eyjan

Orðið á götunni: Sigríður Andersen næsti leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn? – Hildur hefur „misst klefann“

Eyjan
Sunnudaginn 22. september 2024 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Orðið á götunni er að vandræðagangur Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur virðist engan enda ætla að taka. Flokkurinn hefur nú sex borgarfulltrúa en náði engu að síður að þríklofna í atkvæðagreiðslu um Borgarlínuna í síðustu viku. Ljóst er að Hildur Björnsdóttir, oddviti lista flokksins, hefur „misst klefann“ eins og sagt er þegar þjálfarar íþróttaliða ráða ekki lengur við sitt fólk.

Mannlíf fjallaði um málið laugardag í Orðrómi. Þar sagði m.a.: „Uppnámið innan borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins vegna borgarlínunnar hefur vakið mikla athygli. Flokkurinn er þríklofinn í málinu og hver höndin upp á móti annarri. Þetta kom í ljós þegar greidd voru atkvæði um uppfærða Borgarlínu. Þetta er ekki síst skondið í því ljósi að Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, og allir helstu áhrifamenn flokksins í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur, styðja áform um Borgarlínu.“

Mannlíf heldur svo áfram og segir að fáum dyljist að Hildur Björnsdóttir hafi misst tökin á borgarstjórnarflokknum og nái ekki að láta hann ganga í takt. Afleiðingin sé sú að fylgi flokksins í borginni sé „fyrir neðan allar hellur.“

Hildur leiddi lista flokksins í kosningunum 2022 en þá tapaði Sjálfstæðisflokkurinn tveimur borgarfulltrúum og hlaut næst minnsta fylgi í borginni frá upphafi. Hildur Björnsdóttir hefur ekki náð að láta til sín taka að ráði í borgarmálunum og ætla má að hún fái ekki annað tækifæri til að leiða lista flokksins í næstu kosningum. Þá yrði hún áttundi einnota oddviti flokksins frá því Davíð Oddsson lét af embætti borgarstjóra fyrir 33 árum.

Orðið á götunni er að innan Sjálfstæðisflokksins sé þegar farið að svipast um eftir næsta oddvita sem gæti leyst Hildi af hólmi. Ljóst er að enginn núverandi borgarfulltrúa hefði minnsta möguleika á að ná viðunandi árangri og því er leitað að vönum stjórnmálamanni utan núverandi hóps. Menn staldra nú við nafn Sigríðar Á. Andersen, fyrrum ráðherra og þingmanns. Hún þurfti að víkja úr ríkisstjórn árið 2019 að kröfu Vinstri grænna sem hótuðu ella stjórnarslitum. Innan Sjálfstæðisflokksins eru margir ósáttir við meðferðina á Sigríði og linkind flokksforystunnar gagnvart hótunum Vinstri grænna, bæði þá og síðar.

Sigríður Andersen er ákveðinn hægri stjórnmálamaður en margir telja að skortur á slíku fólki og þannig viðhorfum í flokknum sé meginástæða þess að Miðflokkurinn hrifsar nú til sín fylgi flokksins samkvæmt flestum skoðanakönnunum það sem af er þessu ári.

Orðið á götunni er að ekki þyrfti að koma á óvart að Sigríður Á. Andersen leiddi lista Sjálfstæðisflokksins í næstu borgarstjórnarkosningum sem fara fram vorið 2026.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Þorsteinn Pálsson leiðréttir Össur: Nei, Össur, það er ekki Viðreisn heldur Samfylkingin sem hallar sér til hægri

Þorsteinn Pálsson leiðréttir Össur: Nei, Össur, það er ekki Viðreisn heldur Samfylkingin sem hallar sér til hægri
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Segir fund með Grindvíkingum sláandi – „Það er orðið svo þreytt að segja að hugur manns sé hjá þeim“

Segir fund með Grindvíkingum sláandi – „Það er orðið svo þreytt að segja að hugur manns sé hjá þeim“