fbpx
Þriðjudagur 05.nóvember 2024
EyjanFastir pennar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Hvað er þetta allt sem er að koma?

Eyjan
Fimmtudaginn 19. september 2024 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hvað er eiginlega þetta allt, sem ríkisstjórnin segir að sé að koma?

Verðbréfamarkaðurinn svaraði aukinni lánsfjárþörf ríkissjóðs samstundis með hærri ávöxtunarkröfu á skuldabréf. Af því leiddi að bankarnir hækkuðu vexti á verðtryggð útlán.

Þvert á þennan veruleika staðhæfir ríkisstjórnin að þetta allt, sem hún segir að sé að koma, sé lækkun verðbólgu og vaxta.

Raunvextir hækka

Hvort ætli veruleikinn á verðbréfamarkaði eða loforð ráðherranna gefi gleggri mynd af því sem er að koma? Svarið kann að hljóma sem þversögn. En trúlega eru báðir aðilar að varpa ljósi á það sem í vændum er.

Ráðherrarnir tala bara um nafnvexti. En markaðurinn er að bregðast við þeim kjarna skilaboðum Seðlabankans að hækka raunvexti til langrar framtíðar. Þó að raunvextirnir séu það sem bítur í fjárhag heimila og fyrirtækja loka stjórnmálin augunum fyrir því.

Stríðsástandsstýrivextir hafa þegar dregið úr umsvifum á ákveðnum sviðum. Verðbólga ætti því að lækka á næstu mánuðum. Gangi allt að óskum gætu nafnvextir staðnæmst í 6% eftir tvö ár.

Raunvextirnir lækka því ekki og verða áfram þrefalt hærri en í grannlöndunum.

Seta án þýðingar

Þetta er kaldi veruleikinn sem við blasir á kosningaári. Fjárlögin voru síðasta tækifæri ríkisstjórnarinnar. Í staðinn jókst hallinn frá því sem fjármálaáætlunin gerði ráð fyrir og raunvextirnir hækkuðu.

Af stjórnvalda hálfu hefur Seðlabankinn því einn glímt við dýrtíðardrauginn. Og bankinn mun einn stýra þróun mála á næstu mánuðum.

Áframhaldandi seta ríkisstjórnarinnar hefur því enga efnahagslega þýðingu.

Kosningar hefðu því ekki truflað framgang verðbólgu og vaxta. Þvert á móti.

Tvö kjörtímabil

Nýr fjármálaráðherra hefði vissulega getað gert betur. En hitt verða allir sanngjarnir menn að viðurkenna að það var útilokað eftir lausatök í sjö ár að gera svo róttækar ráðstafanir í ríkisfjármálum nú að verulega hefði munað um þær.

Að sama skapi er alveg ljóst að ný ríkisstjórn mun ekki gera neitt kraftaverk í fyrstu fjárlögum. Hún getur stigið fyrstu skref með sölu eigna til að greiða niður skuldir og með því að styrkja fjármálaregluna og setja þak á vöxt útgjalda. Hin leiðin er að hækka skatta.

Veruleikinn er sá að það mun taka tvö kjörtímabil að vinda ofan af tveggja kjörtímabila lausatökum.

Engin skyndilausn

Það eru engar skyndilausnir til. Ný ríkisstjórn getur ekki lofað sambærilegum raunvöxtum og í grannlöndunum. Hugsanlega geta raunvextir lækkað eitthvað þegar líður á næsta kjörtímabil ef fjármálastjórnin verður ábyrg.

En hitt er útilokað að hér verði samkeppnishæfir raunvextir. Markaðurinn hefur þegar sent skýr skilaboð í þá veru.

Að auki verður ný ríkisstjórn að halda áfram með þau gífurlegu fjármagnshöft, sem nú eru á lífeyrissjóðunum og skekkja verðmyndun á gjaldmiðlinum og eignamarkaði og torvelda verulega markvissa efnahagsstjórn.

Ómöguleiki

Þeir flokkar sem ætla að mynda næstu ríkisstjórn þurfa að viðurkenna að það er ekki unnt að skella allri skuldinni á ríkjandi stríðsvöxtum á þá sem nú sitja við ríkisstjórnarborðið.

Ríkisstjórnin gat ekki með hefðbundnum ráðum tryggt sambærilega vexti og heimili og fyrirtæki í grannlöndunum njóta. Það var og verður ómöguleiki óháð því hverjir sitja í ríkisstjórn.

Vandinn liggur nefnilega að stórum hluta í kerfinu. Við erum með fleiri gjaldmiðla og flóknara gjaldmiðlakerfi en nokkur önnur vestræn þjóð. Vandi sem liggur í kerfinu sjálfu verður ekki leystur nema með breytingum á því.

Ef við ætlum að tryggja heimilum og fyrirtækjum á innlendum markaði samkeppnishæfa raunvexti, eins og útflutningsfyrirtækin njóta, er óhjákvæmilegt að taka upp samkeppnishæfan gjaldmiðil.

Tækifæri

Af því að ríkisstjórnin ætlar að sitja í öndunarvél í heilt ár í viðbót er lengsta kosningabarátta sögunnar fram undan.

Hún mun snúast um verðbólgu og vexti. Þessi ríflegi tími gefur tækifæri til málefnalegra umræðna um eðli þess vanda. Merkingarlítil slagorð leysa hann ekki.

Þeir sem ætla að tala ærlega til kjósenda ættu ekki að loka augunum fyrir þeim skilaboðum sem markaðurinn er að senda um langtíma raunvexti.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Fóstbræðrasaga síðari tíma upplausnar

Sigmundur Ernir skrifar: Fóstbræðrasaga síðari tíma upplausnar
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Fimmtugastaogfyrsta ríkið

Óttar Guðmundsson skrifar: Fimmtugastaogfyrsta ríkið
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Ríkisstjórn á skilnaðarbraut

Óttar Guðmundsson skrifar: Ríkisstjórn á skilnaðarbraut
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Eins og farsi eftir Dario Fo

Svarthöfði skrifar: Eins og farsi eftir Dario Fo
EyjanFastir pennar
03.10.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Skuggasundið

Þorsteinn Pálsson skrifar: Skuggasundið
EyjanFastir pennar
29.09.2024

Björn Jón skrifar: Að vera menningarríki

Björn Jón skrifar: Að vera menningarríki
EyjanFastir pennar
26.09.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Töframeðal stjórnmálanna

Þorsteinn Pálsson skrifar: Töframeðal stjórnmálanna
EyjanFastir pennar
22.09.2024

Björn Jón skrifar: Ísbirnir og aðrar fjarlægar skepnur

Björn Jón skrifar: Ísbirnir og aðrar fjarlægar skepnur