Á Íslandi er verið að flytja fé frá fátækum til ríkra. Þrátt fyrir að ríkisskuldir Íslands séu mun lægri en hjá öðrum þjóðum í álfunni borgar íslenska ríkið miklu stærra hlutfall þjóðarframleiðslu í vexti en önnur ríki, vegna hás vaxtarstigs hér á landi. Þegar tekjudreifing annars vegar skattgreiðenda og hins vegar þeirra sem þiggja vaxtagreiðslur frá ríkinu er skoðuð kemur í ljós að kerfið á Íslandi er Hrói höttur með öfugum formerkjum. Þórólfur Matthíasson er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi markaðarins á Eyjunni.
Þegar maður horfir á fjárlagafrumvarpið þá hnýtur maður um einn útgjaldalið. Íslenska ríkið er að borga 300 milljarða á ári í vexti. Ríkissjóður Íslands er minna skuldsettur sem hlutfall af þjóðarframleiðslu en flestir aðrir ríkissjóðir í okkar álfu, sem er auðvitað mjög gleðilegt, en við erum að borga mun hærra hlutfall í vexti af þessum lágu ríkisskuldum, þetta er áhyggjuefni.
„Já, þetta er náttúrlega afleiðing af því vaxtastigi sem við búum við hérna innanlands því að stór hluti af ríkissjóðsskuldinni er gagnvart innlendum aðilum á innlendum skuldabréfamarkaði. Þar er ríkissjóður með aðeins betri kjör en einhver fyrirtæki, það er gengið út frá því að ríkissjóður sé öruggur greiðandi,“ segir Þórólfur.
Hann segir að þetta sé ekki allt saman greitt á árinu, hluti þessa sé verðbætur sem safnist upp þannig að þetta sé ekki allt saman greiðsluflæði. Nú sé allt gert upp á rekstrargrunni hjá ríkissjóði, ólíkt því sem áður var. „Sem betur fer. Hitt gaf nú ráðherrunum alls konar möguleika sem voru nánast brandarar þegar verið var að flytja ákvarðanir yfir áramót til þess að forðast að þær kæmu fram á fjárlögum.“
Þórólfur segir það áhyggjuefni hve vextir eru stór hluti ríkisútgjalda. „Það er ekki bara hvað þetta er stór liður; þetta er á pari við stærstu málefnaflokka í útgjaldamælingunni. Það er líka það að þarna er verið að taka skattfé, að stórum hluta virðisaukaskatt eða tekjuskatt einstaklinga – eitthvað sem almenningur á Íslandi greiðir inn til ríkissjóðs – og afhenda það öðrum hópi; það er að segja hópnum sem á eignir, geymir þær í bönkum eða kaupir ríkisskuldabréf. Nú, sá hópur, ef við myndum skoða tekjudreifinguna hjá þeim sem borga skatta og þeim sem þiggja vaxtagreiðslur frá ríkissjóði, þá væri alveg óhætt að tala um að þarna væri öfugur Hrói höttur – það er verið að flytja fé frá fátækum til ríkra.“
Einnig er hægt að hlusta á Spotify.