Fréttastofur fjölmiðla eru sérlega hrifnar af alls konar skoðana- og viðhorfskönnunum. Einu sinni var spurt um fylgi við einstaka stjórnmálaflokka en tímarnir eru breyttir. Neysluvenjur fólks er tíundaðar og skilgreindar, líðan fullorðinna og unglinga, hamingjustuðull heilla samfélaga og afstaða til ýmiss konar mála. Allt er þetta tilreitt af tölvuforritum og tengt öðrum breytum í sömu könnun. Reiknað er út hversu margir kjósendur Miðflokksins nota sykur í kaffið í samanburði við fylgjendur Vinstri grænna. Eru eigendur rafbíla sem kjósa Pírata hamingjusamari en Framsóknarmenn á bensínbílum? Þessar rannsóknir eru einungis fréttnæmar ef þær hafa að geyma einhver hamfaratíðindi: Íslensk börn eru óhamingjusömust í heimi! Íslenskir karlmenn hata vinnuna sína! Meirihluti kvenna er með áfallastreituröskun!
Samkvæmt þessum könnunum hefur stór hluti fólks orðið fyrir einhvers konar áreiti eða einelti. Niðurstaðan er venjulega sú að heimur sé á helvegi og fólk almennt í mikilli vanlíðan.
Fyrir gamlan geðlækni sem unnið hefur með líðan og tilfinningar fólks í áratugi koma þessar niðurstöður venjulega á óvart. Maður veltir því fyrir sér hvort spurningarnar séu of leiðandi? Er fólk einungis að taka þátt í ráðandi neikvæðni? Er andleg líðan virkilega svona slæm á mestu velferðartímum í sögu þjóðarinnar?
Þessar kannanir eru skoðanamyndandi og hafa venjulega niðurdrepandi áhrif á samfélagið. Fólk skammast sín fyrir að vera ánægt með lífið eða sátt við bílinn, matarkörfuna eða maka sinn. Slík jákvæðni ber vott um samfélagslegan mótþróa þegar allir eiga að kvarta undan líðan sinni. Barn sem segist vera hamingjusamt sýnir af sér borgaralega óhlýðni. Allar þessar dellukannanir valda enn frekari vanlíðan sem er auðvitað gott fyrir næstu könnun sem kemur verr út en sú síðasta og er enn meira fréttaefni. Þessi sjálfbæri iðnaður með öllum sínum álitsgjöfum og rugludöllum bólgnar út eins og púki á fjósbita í takt við ráðandi kenningu að allt sé á beinni boðleið til andskotans.