fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
EyjanFastir pennar

Steinunn Ólína skrifar: Í skólanum, í skólanum er skemmtilegt að vera!

Eyjan
Föstudaginn 13. september 2024 06:00

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir Mynd: Kári Sverrisson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eftir kappræður forsetaefnanna í BNA er nokkuð ljóst að mannkyninu hefur verið færður á silfurfati nokkuð óvenjulegur kennari, það er að segja frambjóðandinn Donald Trump.

Í heimi þar sem eiginhagsmunasýki, auðhyggja og skortur á samkennd er ríkjandi má segja að Donald Trump hafi verið sendur okkur til að spegla okkur í. Það eru engar ýkjur að sú spegilmynd er ekki fögur. Trump er táknmynd sjálfselskutímanna, þar sem eftirsókn eftir völdum og auði eru trúboðin mestu. Trump er bókstaflega eins og hann hafi verið búinn til af auglýsingastofu sem fékk það verkefni að búa til mann sem sameinar allt það versta sem uppi er í heiminum.

Áður en þið ágætu lesendur hættið að lesa og fullyrðið að þið eigið ekkert sameiginlegt með honum Trump, þá skulum við staldra aðeins við. Það er auðvelt að aðgreina sig frá honum og framgöngu hans allri en nokkur erfiðara að reyna að sjá hvar líkindin eru. Hvenær höfum við verið eins og Donald Trump?

Það má segja að öll hans tilvera endurspegli marga þá eiginleika manneskjunnar sem við kunnum síst að meta. Þessir eiginleikar eru svo sýnilegir og óhamdir í fari Trumps að flestum finnst nóg um og telja sig geta framandgert hann með hnussinu einu. En ef við freistum þess að reyna aðeins á okkur án þess að þurfa að fara í innsta kjarna strax þá getum við litið fyrst á samfélag okkar:

  • Í okkar samfélagi sjáum við óhamda græðgina birtast víða.
  • Í okkar samfélagi birtist sjálfumgleðin hvert sem litið er.
  • Í okkar samfélagi er einstaklingshyggjunni hampað sem dyggð.
  • Í okkar samfélagi er markvisst með samanburði unnið að aðskilnaði hópa á milli.
  • Í okkar samfélagi lýgur fólk í ábyrgðarstöðum stöðum sínum til varnar.
  • Í okkar samfélagi birtist hrokinn og yfirlætið víða.
  • Í okkar samfélagi er alið á fordómum.
  • Í okkar samfélagi er sjálftökufólk sem gerir tilkall til sameiginlegra auðæfa og hunsar þungavigt mállausrar náttúrunnar.

Það er auðvelt að fussa og sveia og afskrifa bandarísk stjórnmál sem skrípaleik sem hafi náð óvæntum hæðum en það má líka líta svo á að við mannkynið séum komin að vegamótum þar sem við verðum að staldra við og huga vel að framgöngu okkar allri. Og þá er hér spurningalisti fyrir þau sem þora:

  • Hef ég látið efnishyggjuna ná tökum á mér?
  • Hefur sjálfumgleðin orðið mér til háðungar?
  • Hef ég tekið mína velferð fram fyrir velferð allra?
  • Hef ég verið með sleggjudóma um fólk af annarri samfélagsgerð en ég tel mig tilheyra?
  • Hef ég logið til að komast undan?
  • Hef ég komið fram af hroka og yfirlæti gagnvart öðrum?
  • Hef ég talað óvarlega um þá sem ég þekki lítt?
  • Hef ég látið náttúruna líða fyrir mína tilstuðlan?

Ég veit ekki með ykkur en um allt ofangreint hef ég gerst sek. Það þýðir ekki að útskúfa eigi mér úr samfélagi mannanna, við erum öll mannleg og berum brestina í okkur til að læra megi af þeim.

Að sjá brestina, meðtaka og viðurkenna, þá er fyrsta skrefið og reyna að hafa gaman af!

Það skref legg ég til að allir stígi svo okkur megi farnast betur.

Eru þeir mannlegu brestir sem svo skýrt sjást í framgöngu Trump ekki hið besta lærdómsefni þegar upp er staðið? Það liggur í augum uppi að mannkynið þarf að láta af einstaklingshyggjunni, læra að hugsa um heildina og hvað heildinni komi vel. Það er ekki líklegt til vinnings að kasta ábyrgðinni eingöngu yfir á aðra, hvort sem það eru stjórnmálamenn eða þjóðfélagshópar, heldur er hollast að axla hana sjálf og þá er fyrst að hætta að tala um SIG og fara að tala um OKKUR.

Hvað viljum VIÐ? Hvað er best fyrir OKKUR? Hvað getum VIÐ gert saman?

Við getum alveg spurt okkur hvernig stjórnmálafólk viljum VIÐ til að stýra landinu? Viljum við ekki stjórnmálafólk sem hugsar meira um aðra en um sjálf sig? Ættum við ekki öll að hugsa meira um aðra en okkur sjálf?

Ef við viljum ekki stjórnmálafólk sem hunsar vilja OKKAR verðum VIÐ þá ekki sjálf að koma fram við þarfir annarra af meiri virðingu? Ef VIÐ viljum ekki stjórnmálafólk sem aðeins skarar eld að sinni köku verðum VIÐ þá sjálf ekki að vera örlátari í garð annarra? Ef VIÐ viljum ekki óheiðarleika í stjórnmálum verðum VIÐ þá ekki að vera heiðarleg sjálf?

Ef VIÐ viljum betra samfélag, verðum VIÐ þá ekki að vera betri hvert við annað?

Ef við gleymum nú aðeins Ég-inu og höllum okkur að Við-inu þá gæti okkur farið að ganga betur. VIÐ gætum sameinast um það sem öllum er fyrir bestu því VIÐ vitum alveg hverjar grunnþarfirnar eru svo að farsæld megi ríkja. En það þýðir heiðarleg framganga allra og að koma fram við aðra af virðingu og örlæti.

Heimspekingurinn Atli Harðarson birti á dögunum á Facebook stuttar þýðingar sínar á hugleiðingum dulspekingsins Johannesar Angelusar Silesius. Eitthvað var það við efnið sem kveikti í mér að skoða kauða frekar og að mínu viti eftir stuttan lestur hugleiðinga Angelusar má sjá að samvitundin er honum hugleikin. Sú hugsun að manneskjurnar séu eitt með öllu sem er.

Einnig að egóið sem sífellt er að hrella okkur með hugmyndum um aðskilnað frá öðrum, sérstakleika okkar og sérþarfir sé okkur töluvert til trafala.

Vísu eftir Angelus fyrrnefndan dundaði ég mér við að þýða einn morguninn. Þið metið viljann fyrir verkið en skilaboðin tengjast efni þessa pistils sumpart svo ég læt hana fljóta með.

Það rignir ekki á regnið
sólin skín ekki á sig
þú ert hér fyrir aðra
lífið snýst ekki um þig

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Aftur sektaðir af KSÍ
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vestræn gildi andspænis lögmáli frumskógarins

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vestræn gildi andspænis lögmáli frumskógarins
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Þankar um aga og uppeldi

Björn Jón skrifar: Þankar um aga og uppeldi
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótauppgjör

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótauppgjör
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Góðavondafólkið

Steinunn Ólína skrifar: Góðavondafólkið
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótaávarp

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótaávarp
EyjanFastir pennar
07.12.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Furðulegt kosningakerfi

Óttar Guðmundsson skrifar: Furðulegt kosningakerfi
EyjanFastir pennar
06.12.2024

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?