fbpx
Mánudagur 13.janúar 2025
Eyjan

Stefnuræða forsætisráðherra – Ræða Sigurðar Inga Jóhannssonar

Ragna Gestsdóttir
Miðvikudaginn 11. september 2024 20:18

Sigurður Ingi Jóhannsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Umræður um stefnuræðu forsætisráðherra fara nú fram á Alþingi. Útsending hófst kl. 19.40 og skiptast umræðurnar í tvær umferðir. 

Forsætisráðherra hefur 12 mínútur til framsögu en aðrir þingflokkar en þingflokkur forsætisráðherra hafa sex mínútur í fyrri umferð. Í seinni umferð hafa þingflokkarnir sex mínútur hver. Neðst í greininni má sjá röð flokkanna og ræðumenn þeirra. 

Hér fyrir neðan má sjá lesa ræðu Sigurðar Inga Jóhannssonar , fjármála- og efnahagsráðherra

Virðulegi forseti. Kæru landsmenn. 

Það er farið að hausta. Eftir sumar sem aldrei kom. Reyndar er veðrið í sumar líklega það eina sem ríkisstjórninni er ekki kennt um. 

Eftir nokkrar vikur eru sjö ár liðin frá því ríkisstjórn Framsóknar, Sjálfstæðisflokks og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs tók við stjórnartaumunum á Íslandi. Í stjórnartíð þessara flokka hefur mikið áunnist í umbótum á Íslandi á flestum sviðum. Í stjórnartíð þessara flokka hefur samfélagið líka þurft að takast á við stór og krefjandi verkefni. Eldsumbrot. Heimsfaraldur. 

Í heimsfaraldrinum var ríkissjóði beitt til að milda áhrifin af þeirri fordæmalausu stöðu sem við stóðum frammi fyrir. Ríkissjóði var beitt til að tryggja afkomu fólks. Þá þótti stjórnarandstöðunni ekki nóg að gert. Nú þykir henni of langt hafa verið gengið. Útsýnið af hliðarlínunni er misgott. 

Við höfum á þeim stutta tíma sem liðinn er frá faraldrinum náð undraskjótum efnahagslegum bata. En það eru aukaverkanir af hröðum vexti. Við höfum síðustu misserin búið við alltof háa verðbólgu, alltof háa vexti, sem koma niður á lífsgæðum okkar – tímabundið. 

Síðasta vetur var skrifað undir langtímakjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Aðkoma ríkisstjórnarinnar gerði þessa samninga mögulega. Megináherslan var á að koma til móts við barnafjölskyldur með hækkun barnabóta, gjaldfrjálsum skólamáltíðum auk sérstaks vaxtastuðnings sem greiddur var út um síðustu mánaðamót. Þessi aðkoma ríkisins var til að styðja aðila vinnumarkaðarins í þeirra góðu vegferð sem fólst í því að gera hófsama kjarasamninga sem myndu stuðla að lækkun verðbólgu og þar með lækkun vaxta. Og við sjáum nú til lands í þeirri sameiginlegu baráttu. Þetta er allt að koma. 

Við sjáum fram á mjúka lendingu hagkerfisins, farsæla aðlögun. Það plan sem ríkisstjórnin lagði upp með er að bera árangur. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar og langtímakjarasamningar hafa þar mest að segja. Og megináhersla þessarar ríkisstjórnar, reyndar megináhersla í stefnu Framsóknar frá stofnun flokksins, er að koma í veg fyrir atvinnuleysi.  

Sterkt atvinnulíf og mikil atvinnuþátttaka er grunnur að lífsgæðum okkar hér á Íslandi. Það er nefnilega svo að þegar talað er um lága verðbólgu á Spáni þá búa Spánverjar við tæplega 12 prósent atvinnuleysi þegar atvinnuleysi á Íslandi er 3,3 prósent. Atvinnuleysi í Svíþjóð er 8,5 prósent og svipað í Finnlandi. Atvinnuleysi ungs fólks á Íslandi er milli átta og níu prósent. Á Spáni er það tæp 27% og í Svíþjóð og Finnlandi um og yfir 20 prósent. Myndum við sætta okkur við slíkar atvinnuleysistölur? Það held ég ekki. Af því að atvinnuleysi fylgir vanmáttartilfinning sem er óholl fólki og samfélögum. 

Á morgun mæli ég fyrir frumvarpi til fjárlaga ársins 2025. Í þeim er boðað áframhaldandi aðhald en mikilvægustu málaflokkunum sem snúa að velferð og menntun hlíft. Það eru ekki tekin nein heljarstökk heldur stigin markviss skref í átt að meira jafnvægi. Við munum innan skamms sjá árangurinn af því erfiði sem samfélagið hefur tekið á sig. Auðvitað er skiljanlegt að fólk vilji sjá hraðari atburðarás, auðvitað er skiljanlegt að pólitískir andstæðingar vilji nýta þreytu samfélagsins á verðbólgunni til að komast að áður en fólk fer að upplifa auðveldari mánaðamót. Það er einfalt að hrópa hæðnislegar athugasemdir til þeirra sem standa í eldlínunni. Einfalt að koma með hnyttnar líkingar. En það eru ekki merkileg stjórnmál sem byggja á hæðni fremur en samvinnu og dugnaði. 

Virðulegi forseti. Kæru landsmenn. 

Við höfum sem samfélag upplifað miklar breytingar á síðustu árum. Það á enginn samfélag. Við erum hins vegar öll hluti af samfélagi og getum lagt til þess bæði gott og illt. Við þurfum að vera meðvituð um það sem við eigum sameiginlegt. Við þurfum að vera stolt af því sem íslenskt samfélag hefur áorkað í gegnum aldirnar. 

Sú bylting sem hefur orðið með tilkomu samfélagsmiðla hefur breytt samskiptum okkar. Við erum orðin tvístraðri sem samfélag. Og sú þróun ýtir undir skautun og einangrun. Það hefur líklega aldrei verið mikilvægara en nú að við horfum á það sem sameinar okkur fremur en að ýkja sérstöðu okkar, bæði sem manneskjur og samfélag. 

Ég vona að okkur sem sitjum á Alþingi lánist í vetur að vinna saman að þeim málum sem helst brenna á þjóðinni. Við í Framsókn munum ekki láta okkar eftir liggja. 

Hér fyrir neðan er röð flokkanna og ræðumenn þeirra.

Sjálfstæðisflokkur

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra í fyrri umferð

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra í seinni umferð

Samfylkingin

Kristrún Frostadóttir, 3. þingmaður Reykjavíkurkjördæmis suður, í fyrri umferð

Þórunn Sveinbjarnardóttir, 8. þingmaður Suðvesturkjördæmis, í seinni umferð.

Flokkur fólksins

Inga Sæland, 7. þingmaður Reykjavíkurkjördæmis suður, í fyrri umferð

Tómas A. Tómasson, 9. þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður, í seinni umferð

Framsóknarflokkur

Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, í fyrri umferð

Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, í seinni umferð

Píratar

Halldóra Mogensen, 3. þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður, í fyrri umferð

Andrés Ingi Jónsson, 10. þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður, í seinni umferð

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, í fyrri umferð

Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra í seinni umferð

Viðreisn

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, 5. þingmaður Suðvesturkjördæmis, í fyrri umferð

Hanna Katrín Friðriksson, 8. þingmaður Reykjavíkurkjördæmis suður, í seinni umferð

Miðflokkurinn

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, 7. þingmaður Norðausturkjördæmis, í fyrri umferð

Bergþór Ólason, 8. þingmaður Norðvesturkjördæmis, í seinni umferð

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Segir fréttir af fylgistapi Flokks fólksins stórlega ýktar því Maskína og fjölmiðlar gleymi mikilvægri staðreynd

Segir fréttir af fylgistapi Flokks fólksins stórlega ýktar því Maskína og fjölmiðlar gleymi mikilvægri staðreynd
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Katrín, Reimar og Salvör endurvekja félag frá sjötta áratugnum

Katrín, Reimar og Salvör endurvekja félag frá sjötta áratugnum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Jón Björn ráðinn framkvæmdastjóri hjá Íþróttasambandi fatlaðra

Jón Björn ráðinn framkvæmdastjóri hjá Íþróttasambandi fatlaðra
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Reiðin er vondur ráðgjafi – Hver ætlar að segja fúlu körlunum sem töpuðu kosningunum það?

Orðið á götunni: Reiðin er vondur ráðgjafi – Hver ætlar að segja fúlu körlunum sem töpuðu kosningunum það?
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Steinunn Ólína skrifar: Ár íss og elda

Steinunn Ólína skrifar: Ár íss og elda
Eyjan
Fyrir 1 viku

Segir Svandísi líta framhjá mikilvægu atriði sem átt hafi þátt í falli VG

Segir Svandísi líta framhjá mikilvægu atriði sem átt hafi þátt í falli VG