fbpx
Sunnudagur 08.september 2024
Eyjan

Orðið á götunni: Að vera eða vera ekki – ótrúlegt klúður og vandræðagangur Guðrúnar Hafsteinsdóttur

Eyjan
Sunnudaginn 8. september 2024 10:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Orðið á götunni er að Guðrún Hafsteinsdóttir hafi haldið einstaklega illa á máli Helga Magnúsar Gunnarssonar, vararíkissaksóknara. Nú eru liðnar margar vikur frá því að Sigríður Friðjónsdóttir, ríkissaksóknari, óskaði eftir því að ráðherra setti Helga Magnús í tímabundið leyfir frá störfum vegna ummæla sem hann viðhafði á samfélagsmiðlum í kjölfar dóms yfir Mohamad Kourani vegna alvarlegs ofbeldisbrots, en Kourani hafði um árabil haft uppi hótanir í garð Helga Magnúsar og fjölskyldu hans.

Orðið á götunni er að almennur skilningur sé á þeim tilfinningum sem Helgi Magnús lét í ljós vegna áralangra og viðvarandi hótana í hans garð og fjölskyldunnar frá manni, sem íslenska dómskerfið hefur staðfest að sé stórhættulegur. Mjög skiptar skoðanir eru hins vegar á því hvort eðlilegt sé að næst æðsti maður ákæruvaldsins tjái sig með þeim hætti sem Helgi Magnús gerði á samfélagsmiðlum.

Sigríður vísaði til þess að Helgi Magnús hefði fyrir tveimur árum fengið áminningu frá henni vegna svipaðs atviks er hún óskaði eftir því að dómsmálaráðherra sendi Helga í tímabundið leyfi. Ekki liggur ljóst fyrir hvort sú áminning hafi nokkurt lögmætt gildi þar sem Helgi Magnús er skipaður í sitt embætti af ráðherra, rétt eins og Sigríður. Ýmsir lögfræðingar telja að einungis ráðherra geti áminnt ráðherraskipaðan mann og þar með hafi áminning frá Sigríði ekkert lögmætt gildi.

Þá furða lögfræðingar sig á því hvernig á því stendur að ríkissaksóknari óski eftir því að ráðherra sendi Helga í tímabundið leyfi þar sem lagabókstafurinn er skýr: næsta skref á eftir áminningu er embættismissir, ekki tímabundið leyfi.

Orðið á götunni er að Guðrún Hafsteinsdóttir hafi í raun staðið frammi fyrir einföldu viðfangsefni, sem afgreiða hefði mátt á innan við einni vinnuviku, í þessu máli. Fyrst hefði hún þurft að ákvarða hvort áminning Sigríðar Friðjónsdóttur fyrir tveimur árum var lögmæt. Ef svo var ekki stóð ráðherra frammi fyrir því að annað hvort vísa beiðni ríkissaksóknara frá eða áminna Helga nú, teldi hún þörf á því í ljósi færslna hans á samfélagsmiðlum.

Ef áminning Sigríðar á hendur Helga Magnúsi var lögmæt er ljóst að val ráðherra stóð einungis á milli þess hvort hafna ætti beiðninni um tímabundið leyfi eða víkja Helga Magnúsi varanlega úr embætti, þ.e. ef ráðherra vildi fara að lögum.

Í öllu falli er ljóst að dómsmálaráðherra hefði þurft að kalla Sigríði Friðjónsdóttur á sinn fund til að gera alvarlegar athugasemdir við embættisfærslur hennar, annað hvort fyrir að hafa farið út fyrir sitt valdsvið með því að áminna Helga Magnús fyrir tveimur árum eða fyrir að gera tillögu um tímabundið leyfi til handa Helga Magnúsi þegar tillagan hefði átt að vera um varanlegan embættismissi.

Orðið á götunni er að ástæðan fyrir vandræðagangi dómsmálaráðherra í þessu máli sé mjög einföld. Upp á síðkastið hefur nafn hennar borið á góma þegar rætt er um mögulega eftirmenn Bjarna Benediktssonar á formannsstóli í Sjálfstæðisflokknum, en margir búast fastlega við að hann láti af embætti á landsfundi í febrúar. Mjög skiptar skoðanir eru innan flokksins í máli Helga Magnúsar og Guðrún Hafsteinsdóttir virðist ekki geta ákveðið í hvorn fótinn hún ætlar að stíga. Kunnugir segja að hún sjái formannsstólinn í hyllingum og vilji engan mann styggja.

Orðið á götunni er hins vegar að með hiki sínu og vandræðagangi hafi Guðrún þegar klúðrað máli Helga Magnúsar og hver niðurstaða hennar verði skipti engu máli úr þessu; sjálfstæðismenn séu tilbúnir að láta margt yfir sig ganga frá formanni sínum en ákvarðanafælnir vinglar eigi ekki upp á pallborðið.

Orðið á götunni er að betra hefði verið fyrir Guðrúnu að taka skjóta ákvörðun í málinu, á hvorn veginn sem hún hefði verið, þá væri þegar farið að fenna yfir málið, en þingsetning verður á þriðjudaginn og dómsmálaráðherrann er búinn að tryggja að ákvörðunin, hver sem hún verður, verður að hitamáli í þinginu. Þá er einnig talið líklegt að Helgi Magnús birtist næst á framboðslista Miðflokksins gangi niðurstaða dómsmálaráðherra gegn honum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Hyggst ekki yfirgefa flokkinn þó fýlan hafi lekið af honum

Hyggst ekki yfirgefa flokkinn þó fýlan hafi lekið af honum
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Trumpliðar ekki í neinum vafa – „Við megum spila ABBA!“

Trumpliðar ekki í neinum vafa – „Við megum spila ABBA!“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Brynjar segir það list að vera leiðinlegur

Brynjar segir það list að vera leiðinlegur
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Davíð Þorláksson: Verðmæti Keldnalandsins hefur þrefaldast – blómleg byggð og græn svæði væntanleg

Davíð Þorláksson: Verðmæti Keldnalandsins hefur þrefaldast – blómleg byggð og græn svæði væntanleg