fbpx
Laugardagur 07.september 2024
EyjanFastir pennar

Sigmundur Ernir skrifar: Verðlagning á peningum skiptir meginmáli

Eyjan
Laugardaginn 7. september 2024 13:30

Sigmundur Ernir Rúnarsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Enda þótt Íslendingar hafi aldrei komist almennilega upp á lagið með neytendavernd og verðvitund og jafnvel látið stjórnmálaskoðun sína ráða því hvar þeir kaupa sínar nauðsynjar fremur en hagstæðustu kjörin, þá má loksins greina uppsafnaða ólund á meðal eyjarskeggja í þessum efnum. Og gott ef þolinmæðin er ekki bara brostin, eftir allt sem á undan er gengið, þar á meðal langlundargeðið og meðvirknin með alltof háum vöxtum og verðbólgu.

Og það er náttúrlega sérstakt rannsóknarefni að það hafi tekið litla þjóð við ysta haf heila mannsævi, og gott betur, að rísa upp gegn ranglætinu – og leggjast á sveif með lausninni.

Ástæða þess að meirihluti landsmanna kýs nú – og það endurtekið – að skipta krónunni út fyrir evru og fá fullgilt atkvæðavægi inni í þingsölum ESB, í stað þess að húka frammi á gangi og taka áhrifalausir við regluverkinu, er að minnsta kosti þríþætt: Landsmenn átta sig á því að Evrópa þarf að standa saman á tímum stríðs og uppgangs öfgahyggju og halda jafnframt vöku sinni hvað sameiginleg gildi varðar. Þeir geta ekki lengur treyst á gömlu traustu verndarhöndina úr vestri sem er einfaldlega að verða með öllu ófyrirsjáanleg og jafnvel afhuga lýðræði. Og þeim finnst orðið í lagi að prófa aðrar leiðir í efnahags- og peningamálum en þær sem löngum hafa steytt á skeri hér við land og hafa í rauninni aldrei verið haffærar út fyrir landhelgina. Krónan er nefnilega bara til heimabrúks – og svo hefur ávallt verið, því hvergi annars staðar í heiminum er litið við henni – og öll íslensk fyrirtæki sem ætla sér að lifa af alþjóðlega samkeppni og geta um leið boðið upp á mannsæmandi launakjör, hafa fyrir margt löngu flúið hana. Og nú vill almenningur það sömuleiðis. Eðlilega. Hann vill njóta fyrirsjáanleika í heimilisbókhaldinu – og er búinn að viðurkenna það fyrir sjálfum sér að það er hægt að lækka þau verð sem skipta hag hans mestu máli.

Og því þá ekki að prófa það. Einmitt, sækja sér kjarabótina. Svo um munar.

Fyrir allan meginþorra landsmanna, sjálfa alþýðuna á Íslandi, skiptir máli hvað hlutirnir kosta. Og það er auðvitað ekkert annað en afkáraleg nesjamennska og sætta sig við það til langframa að greiða þá hærra verði en þurfa þykir. Því ef aðrar leiðir eru færar, hlýtur að vera sjálfsagt að skoða þær. Þó ekki væri annað.

„Og því þá ekki að prófa það. Einmitt, sækja sér kjarabótina. Svo um munar.“

Mestu skiptir í rekstri heimilanna hvað þau þurfa að leggja út fyrir menntun, heilsu, lyf, húsnæði, mat og samgöngur, sem eru helstu nauðsynjarnar, en hitt má heldur aldrei gleymast, sem skiptir meginmáli, en það er verðlagningin á peningunum sjálfum. Hvað kosta þeir heimilin?

Og er hægt að fá þá með ódýrari hætti? Og er hægt að treysta þeim til langframa?

Íslendingar hafa í rífan mannsaldur valið að halda í pening sem kostar þá óheyrilegar upphæðir og enginn áhugi hefur í rauninni verið á því að vita hver sá fórnarkostnaður hefur verið frá einum tíma annars. Þeir hafa bara borgað uppsett verð. Og látið sig hafa það þótt okrað sé óheyrilega á þeim hvað kostnað krónunnar varðar, sem stýrir svo vitaskuld vöruverðinu.

Og það dæmigerða er að enginn stjórnmálaflokkur hefur enn látið reikna það út hvaða umframkostnaður hefur lagst á íslenskt hagkerfi vegna þessarar örmyntar sem engar aðrar þjóðir vilja sjá. Fólk jafnt og fyrirtæki. Eru það hundruð milljarða? Eða meira? Flestir íslenskir stjórnmálaflokkar þora einfaldlega ekki í þá pólitík. Og vilja ekki vita það. En ástæðan er væntanlega sú að svarið er sárara en tárum tekur.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Full í vinnunni

Óttar Guðmundsson skrifar: Full í vinnunni
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Allir eru ómissandi

Steinunn Ólína skrifar: Allir eru ómissandi
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Hjartað mitt

Óttar Guðmundsson skrifar: Hjartað mitt
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Vanþekking á sveppum varð þeim að aldurtila

Steinunn Ólína skrifar: Vanþekking á sveppum varð þeim að aldurtila
EyjanFastir pennar
03.08.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Alþýðlegi forsetinn kveður embættið

Sigmundur Ernir skrifar: Alþýðlegi forsetinn kveður embættið
EyjanFastir pennar
03.08.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Æstir lýsendur

Óttar Guðmundsson skrifar: Æstir lýsendur
EyjanFastir pennar
27.07.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Það er tímabært að meirihlutinn ráði

Sigmundur Ernir skrifar: Það er tímabært að meirihlutinn ráði
EyjanFastir pennar
27.07.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Rafmagnsbíll, nei takk

Óttar Guðmundsson skrifar: Rafmagnsbíll, nei takk