Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra færir í grein í Morgunblaðinu, sem hún endurbirtir í færslu á Facebook-síðu sinni, rök fyrir því að flokkur hennar, Sjálfstæðisflokkurinn, sé besti valkosturinn fyrir fátækt fólk á Íslandi.
Hún vísar í upphafi í grein eftir þjóðþekkta konu sem starfaði í Alþýðuflokknum. Áslaug nafngreinir ekki konuna en segir hana hafa skrifað í greininni um hvernig Alþýðuflokkurinn hefði barist fyrir kosningarétti fátækra sem þegið hefðu félagslegan stuðning en fram á fyrri hluta 20. aldar var fólk í slíkri stöðu svipt kosningaréttinum. Áslaug Arna segir hina ónefndu kona hafa lýst furðu sinni yfir því hvaða flokki þessi þjóðfélagshópur greiddi atkvæði sitt þegar loksins tókst að afnema lög sem kváðu á um að þau sem þáðu framfærslustyrk yrðu svipt kosningaréttinum:
„Árið 1934 fékk fátækasta fólkið á Íslandi loks ótakmarkaðan kosningarétt. Þegar kjördagur rann upp og fólkið í Pólunum í Reykjavík klæddi sig í sparifötin fór það í kjörklefann til að kjósa. Fólkið kaus, í stórum stíl, Sjálfstæðisflokkinn. Forystukonan gat með engu móti skilið af hverju fólkið sem Alþýðuflokkurinn barðist fyrir að fengi kosningarétt hefði ekki launað þeim greiðann og kosið til vinstri.“
Pólarnir í Reykjavík voru hrörlegt íbúðarhúsnæði sem byggt var syðst við Laufásveg og sérstaklega ætlað bágstöddum fjölskyldum. Pólarnir voru upphaflega byggðir í mikilli húsnæðiseklu í fyrri heimstyrjöldinni og áttu að vera til bráðabirgða en voru stækkaðir og stóðu á endanum í tæpa hálfa öld.
Áslaug Arna segir hina fátæku íbúa Pólanna hafa með skynsemina að leiðarljósi kosið Sjálfstæðisflokkinn í stórum stíl:
„Af hverju rifjaði ég upp þessa grein? Veruleikinn var að á þessum tíma áttaði þetta skynsama fólk sig á því að flokkurinn sem barðist fyrir jöfnum tækifærum, stétt með stétt og blómlegu atvinnulífi var Sjálfstæðisflokkurinn. Flokkurinn sem vildi hjálpa fólki út úr fátækt. Við viljum hjálpa fólki til að hjálpa sér sjálft. En við vitum líka að það verður alltaf einhver hópur sem þarf áframhaldandi stuðning og velferðarkerfið á að vera það sterkt að fólk fái þann stuðning sem það þarf. Til þess þarf þó skýra forgangsröðun. Velferðarkerfið verður ekki sterkt nema við ýtum undir og styðjum við framtak einstaklinga og árangur fyrirtækja. Samhengi verðmætasköpunar og velferðar verður ekki rofið.“
Áslaug Arna segir að Sjálfstæðisflokknum hafi ekki gengið nógu vel undanfarin misseri að koma þessum skilaboðum á framfæri og pólitískir andstæðingar hafi reynt að skilgreina flokkinn þannig að hann vinni eingöngu í þágu tiltekins þjóðfélagshóps.
Dæmi um slíkar staðhæfingar er grein Reynis Böðvarssonar jarðskjálftafræðings sem fagnar mjög minnkandi fylgi Sjálfstæðisflokksins. Hann segir flokkinn aðeins gæta hagsmuna auðugasta hluta þjóðarinnar og segir Sjálfstæðismenn hafa frá upphafi reynt að koma í veg fyrir allar umbætur í þágu þeirra sem ekki teljast auðugir.
„ Þolinmæði fólks er þrotin, fólk er búið að fá nóg, búið að fá nóg af Sjálfstæðisflokknum“
Þessu andmælir Áslaug Arna og segir stefnu Sjálfstæðisflokksins vera fyrir alla og að blómlegt atvinnulíf og öflugt velferðarkerfi séu ekki andstæður:
„Sjálfstæðisflokkurinn er sá flokkur sem hefur stuðlað að því að fólk geti hjálpað sér sjálft. Við þurfum ekki að skipta um stefnu heldur ætlum við að vinna áfram á grundvelli okkar hugmyndafræði. Standa með einstaklingnum, með fjölskyldunum. Sjálfstæðisstefnan er ekki stefna hinna fáu, heldur stefna fyrir alla.“