fbpx
Föstudagur 03.janúar 2025
EyjanFastir pennar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Bubbi, vextir og kosningar

Eyjan
Fimmtudaginn 5. september 2024 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það mun einn daginn sjóða upp úr og þegar það gerist þá dugar ekki að læsa samviskuna inni, hún verður einfaldlega rifin úr brjóstum manna þar sem hún hímir bakvið hvíta rimla þeirra sem kynda bálið.“

Þetta er tilvitnun í grein Bubba Morthens um íslensku stríðsástandsvextina, sem birtist á Vísi 23. ágúst. Ég játa að ég hrökk við þegar ég las þennan texta. Ekki af því að hann er mergjaður heldur vegna hins að hann gæti orðið að áhrínsorði.

Bretar settu forsætisráðherra sinn til að mynda af um leið og ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa fór í fáeina daga á sama stig og hún er viðvarandi hér.

Vopn óréttlætisins

Tónlistarmaðurinn dregur upp mynd af samfélagi andstæðna: Ungu fólki sem „á ekki sjens að kaupa sér heimili“ og hinum sem ekki þurfa að bera vaxtabaggana af því að þeir voru leystir undan þeirri kvöð að nota gjaldmiðil landsins.

Krónan er að hans mati vopn þeirra sem vilja viðhalda þessari gjá.

Svo segir hann: „Eina leiðin til að breyta þessu er í höndum fólks í næstu kosningum.“

Það leiðir okkur að spurningunni: Hvernig verða vextir lækkaðir í næstu kosningum?

Suðumarkið

Fyrst: Hverju getum við reiknað með að öllu óbreyttu?

Höfum í huga að það eru raunvextirnir sem bíta fólk. Þeir eru núna rúmlega 3%. Seðlabankinn telur 3,5 til 4% raunvexti nauðsynlega í fyrirsjáanlegri framtíð. Þeir munu því fremur hækka en lækka á næstunni.

Gangi þetta eftir fara stýrivextir ekki niður fyrir 6 til 6,5% loks þegar verðbólgumarkmiðinu verður náð. En þessi lækkun nafnvaxta mun lítið hjálpa því raunvextirnir verða óbreyttir eða hærri.

Óréttlætið sem Bubbi lýsir er því ekki að hverfa. Spurningin er: Hvar liggur suðumark raunvaxta?

Ekki í boði

Ein leið er að færa ákvörðunarvald um vexti aftur til ríkisstjórnarinnar. Við höfum bitra reynslu af því. Hjartahlýja stjórnmálamanna reyndist svo mikil að verðbólgan fór í 80%, kaupmátturinn rýrnaði, lífeyrissparnaðurinn fuðraði upp og bankarnir tæmdust.

Enginn stjórnmálaflokkur býður upp á þessa lausn í næstu kosningum.

Önnur leið væri að leggja skatta á þá sem starfa utan krónuhagkerfisins og nota ávinninginn til að jafna vaxtabyrði allra hinna.

Enginn stjórnmálaflokkur er með þessa lausn á dagskrá. Sennilega vegna þess að það myndi veikja um of samkeppnisstöðu útflutningsgreina og skaða þannig þjóðarbúið í heild.

Eftir standa tvær leiðir, sem kjósendur hafa val um. Önnur með mismunandi útfærslum:

Leið eitt

Fyrri leiðin er sameiginleg stefna núverandi stjórnarflokka. Hún felst í því að halda kerfinu óbreyttu en milda áhrifin með millifærslum til þeirra sem allra verst verði úti í raunvaxtafárinu án þess þó að hækka skatta.

Með því að afla ekki tekna viðheldur þessi leið þenslu. Fjallháir raunvextir verða viðvarandi veruleiki þótt nafnvextir lækki lítið eitt.

Miðflokkurinn fylgir sömu línu nema hvað hann vill skera ríkisútgjöldin stórlega niður.

Eftir að formaður Samfylkingar setti Evrópumálin á hilluna fylgir hún í meginatriðum sömu stefnu með því mikilvæga fráviki að hún vill hækka skatta umtalsvert. Það breytir ekki raunvaxtastefnu Seðlabankans en gefur svigrúm til hærri vaxtabóta.

Leið tvö

Seinni leiðin felst í því að taka upp evru með aðild að Evrópusambandinu. Með því eina móti má tryggja að heimilin búi við sama stýrivaxtaumhverfi og sama raunvaxtaumhverfi eins og útflutningsfyrirtækin, sem skapa yfir 40% þjóðarframleiðslunnar.

Þessi leið tryggir að allir sitja við sama borð í okkar litla hagkerfi. Hún tryggir jafna samkeppnisstöðu allra á heimamarkaði og gagnvart grannlöndunum. Vaxtasparnaður ríkissjóðs mun að auki skapa svigrúm til að efla velferðarkerfið án skattahækkana.

Eftir hillulagningu Evrópumálanna í Samfylkingu er Viðreisn eini flokkurinn sem boðar þessa stefnu fölskvalaust.

Þolinmæði

Þetta er það sem flokkarnir bjóða kjósendum í þingkosningum að ári.

Sumir segjast ekki hafa þolinmæði til að bíða í þrjú til fimm ár eftir leið tvö. Hinn kosturinn er þolinmæði fyrir viðvarandi 3,5 til 4% raunvöxtum samkvæmt mismunandi útfærslum á leið eitt.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: Af valkyrjum

Björn Jón skrifar: Af valkyrjum
EyjanFastir pennar
01.12.2024

Björn Jón skrifar: Ástæða til bjartsýni á framtíðina

Björn Jón skrifar: Ástæða til bjartsýni á framtíðina
EyjanFastir pennar
30.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Leiðinleg kosningabarátta

Óttar Guðmundsson skrifar: Leiðinleg kosningabarátta
EyjanFastir pennar
21.11.2024

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!
EyjanFastir pennar
21.11.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sér íslenskir skattar og yndi stjórnlyndra flokka

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sér íslenskir skattar og yndi stjórnlyndra flokka
EyjanFastir pennar
14.11.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Satt eða logið

Þorsteinn Pálsson skrifar: Satt eða logið
EyjanFastir pennar
11.11.2024

Svarthöfði skrifar: Allir vondir við aumingja Jón

Svarthöfði skrifar: Allir vondir við aumingja Jón