Flýtiakstursgjöld í miðborg Reykjavíkur munu leggjast nokkuð jafnt á íbúa höfuðborgarsvæðisins, líka þá sem búa í miðborginni, þannig að þeir sem keyra mest borga mest. Reynsla af slíku erlendis sýnir að gjaldtaka af þessu tagi hafi jákvæð áhrif á umferðina. Ekki er um að ræða hreina viðbót við aðra skatta þar sem gjöldin koma í stað beinnar fjármögnunar ríkisins á fjárlögum. Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri Betri samgangna, er viðmælandi Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Eyjunnar.
„Þetta er eitthvað sem hefur jákvæð áhrif á umferðina og ólíkt öllu hinu sem við erum að gera, sem kostar mikla peninga, þá skilar þetta tekjum þannig að þetta er mikilvægt og reynslan á Norðurlöndum og víðar er að þetta hafi mjög jákvæð áhrif,“ segir Davíð.
Hann segist hafa skilning á því að fólki sé illa við að hið opinbera sé alltaf að reyna að klípa meira og meira af því. Þetta kæmi hins vegar í stað þess að ríkið væri að fjármagna þetta beint af fjárlögum og ætti því ekki að vera hrein viðbót við aðra skatta.
En hvað með þá sem búa innan svæðis?
„Yfirleitt greiða menn bara ef þeir fara inn eða út af svæðinu. Þetta hljómar fyrsta kastið eins og þetta sé einhvers konar úthverfaskattur, skattur á þau sem búa í úthverfum en þurfa að sækja vinnu, þjónustu, afþreyingu eða annað inn á miðsvæðið, en við höfum skoðað þetta rækilega og það er Alþingis að ákveða útfærslurnar, fjárhæðir og hvernig þetta verður útfært. Vegagerðin og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eiga til líkan sem heitir Samgöngulíkan höfuðborgarsvæðisins þar sem hægt að skoða ýmislegt; hvernig ýmsar framkvæmdir geta haft áhrif á umferðina og hvernig umferðin getur þróast,“ segir Davíð.
Hann segir þetta líkan einnig bjóða upp á að skoðað sé hvernig svona gjaldtaka hefur áhrif á umferðina og hvernig hún myndi leggjast á íbúa eftir mismunandi póstnúmerum. Við sjáum þar að það er vel hægt að útfæra þetta með þannig hætti að þetta leggist nokkuð jafnt yfir íbúa – fólk sem býr miðsvæðis og keyrir þá út úr svæðinu borgar þá líka – þannig að það er hægt að útfæra þetta með þannig hætti að þetta leggist nokkuð jafnt yfir íbúa höfuðborgarsvæðisins, en þó þannig að þeir sem keyra mest borga mest og þeir sem keyra mest á háannatíma borgi þá aðeins meira.“
Einnig er hægt að hlusta á Spotify.