fbpx
Miðvikudagur 04.september 2024
Eyjan

Forlagið kennir íslensku í gegnum LingQ

Eyjan
Þriðjudaginn 3. september 2024 12:37

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Forlagið Bókaútgáfa hefur nú birt fyrstu kafla fjölda bóka í tungumálaforritinu LingQ. Forlagið, rithöfundarnir Gunnar Helgason, Joachim B. Schmidt, Anna Hafþórsdóttir og Jónas Reynir Gunnarsson gerðu nýlega samning við Rökkva Vésteinsson um að setja fyrstu 2-3 kaflana af ýmsum bókum þeirra inn í forritið.

LingQ er tungumálaforrit sem byggist helst á lestri og hlustun, en innbyggðar þýðingar sem maður sér jafnóðum hjálpa notendum að skilja og smám saman læra málið. Árið 2022 var íslensku bætt í LingQ af Rökkva Vésteinssyni í sjálfboðavinnu og árið 2023 samdi hann við LingQ um að gera ókeypis að læra hana þar með allri virkni sem forritið býður upp á. Tulipop, sem framleiðir vinsælt barnaefni undir sama nafni, varð fyrsta íslenska fyrirtækið til að bjóða upp á efni frá sér í LingQ í fyrra. Forlagið hefur nú einnig ákveðið að taka þátt í átakinu.

„Fátt kennir tungumál betur en vandaður og vel unninn texti og það á við um útgefna texta góðra höfunda. Okkur finnst gaman að leggja okkar af mörkum til að auðvelda fólki að læra íslensku. Svo spillir ekki ef nemendurnir skemmta sér vel við námið og vilja lesa fleiri bækur,“ segir Sigþrúður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Forlagsins.

Svissneski höfundurinn Joachim B. Schmidt, sem núna býr á Íslandi, hefur nýlega slegið í gegn með bókunum um Kalmann, óvenjulegan karakter frá Raufarhöfn, en fyrstu þremur köflum beggja Kalmann-bókanna hefur nú verið bætt í LingQ. Joachim kom fyrst til Íslands árið 2003 og flutti síðan hingað 2007. Hann talar um að hann hafi fyrst getað tjáð sig af viti eftir svona 5 ár, en í dag talar hann reiprenndi íslensku, þótt honum finnist hann í raun engan veginn hættur að læra, eins og hann orðar það sjálfur. „Þetta er mjög spennandi verkefni, ég hefði viljað fá að vera með svona app þegar ég lærði íslensku fyrir 20 árum, þess vegna er gaman að taka þátt í því núna,“ sagði hann um framtakið.

„Tungumál eru ekki bara til í einhverju tómarúmi,“ sagði Rökkvi Vésteinsson, sem leitaði til Forlagsins og höfunda til að gera þetta samkomulag „Þau eru ekki bara röð af stöfum og reglum um hvernig á að raða þeim og þá myndi heldur enginn með minnsta viti nenna að læra þau. Þau eru miklu frekar tól til að tjá hugsanir, segja sögur og eiga samskipti. Til þess lærir maður þau. Það er því mikið betra að læra tungumálið gegnum sögur og það að kynnast menningu landsins, en bara með því að læra málfræðireglur og orð. Innflytjendur á Íslandi vilja augljóslega ekki bara skilja málið hérna, heldur menninguna. Að lesa íslenskar bókmenntir og sögur sem gerast á Íslandi eru frábær leið til þess.“

„Barnabækur eru oftast aðeins auðveldari til að læra tungumál með og Gunnar Helgason er auðvitað einn mesti barnabókahöfundurinn okkar. Verkin hans eru líka bæði skemmtileg fyrir börn og fullorðna. En fólk sem vill læra íslensku þarf auðvitað að hafa aðgang að efni af öllum flækjustigum um alla mögulega mismunandi hluti og þetta er nokkuð fjölbreytt bókasafn sem fólk fær núna aðgang að gegnum LingQ“.

Rökkvi telur að þetta samstarf opni marga möguleika. „Ég held að allir græði á þessu. Þau sem eru að læra íslensku geta lesið þessa fyrstu kafla úr bókunum og þannig náð framförum, síðan geta þau keypt bækurnar í heild sinni af Forlaginu til að sjá hvernig sögurnar enduðu. Íslendingar geta líka gert það sama, skráð sig í LingQ, lesið byrjunina á hverri bók og þannig fundið hvaða bækur þeim finnst áhugaverðar upp á það hvaða bækur þau vilji kaupa. Við þetta myndu þau líka læra hvernig LingQ virkar og sjá hvort þau myndu kaupa aðgang að því til að læra erlend tungumál seinna“.

Hann vill að lokum hvetja fólk til að leggja sitt af mörkum. „Ég vona að þetta leiði til þess að fleiri höfundar leiti til mín um að birta hluta úr bókum sínum, eða jafnvel birta þær í heild sinni í LingQ.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Svarthöfði skrifar: Hið fullkomna gegnsæi

Svarthöfði skrifar: Hið fullkomna gegnsæi
Eyjan
Fyrir 6 dögum

 „Ekki viðunandi staða“ – Vilhjálmur hefur áhyggjur af stöðu Sjálfstæðisflokksins í borginni 

 „Ekki viðunandi staða“ – Vilhjálmur hefur áhyggjur af stöðu Sjálfstæðisflokksins í borginni 
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Orðið á götunni: Vatnajökulsþjóðgarður – ráðaleysið og sleifarlagið eins og úr dystópískri vísindaskáldsögu

Orðið á götunni: Vatnajökulsþjóðgarður – ráðaleysið og sleifarlagið eins og úr dystópískri vísindaskáldsögu
Eyjan
Fyrir 1 viku

Topparnir hjá Högum fá kauprétt á sama tíma og áfengissala Hagkaupa opnar – Stærsti hluthafinn reyndi að sporna við

Topparnir hjá Högum fá kauprétt á sama tíma og áfengissala Hagkaupa opnar – Stærsti hluthafinn reyndi að sporna við