Svarthöfði skemmtir sér konunglega þessa dagana að fylgjast með pólitíkinni og það hvernig veruleikinn bítur nú í rassinn á hrokafullum pótintátum sem virðast hafa litið á kjósendur sem einfeldinga sem hægt væri að bjóða hvað sem er.
Nú, þegar vinstri stjórn Katrínar og Barna hefur setið í því sem næst sjö ár eru Vinstri græn við það að hverfa – fjarri því að ná inn einum einasta fulltrúa á þing, gangi kannanir eftir. Sjálfstæðisflokkurinn, sem hefur verið turninn í íslenskri pólitík allt frá stofnun, horfir nú undir iljarnar á Miðflokknum, sem virðist vera að taka við hlutverki hins fyrrnefnda sem stoðin á hægri væng íslenskra stjórnmála.
Nú lítur út fyrir að þingmannafjöldi Sjálfstæðisflokksins stefni í að verða á bilinu 9-11 eftir næstu kosningar á sama tíma og Samfylkingin stefnir í að fá 20 menn og leiða næstu ríkisstjórn, sem samkvæmt könnunum gæti vel samanstaðið af Samfylkingunni, Miðflokknum og Viðreisn, sem samkvæmt síðustu könnun Gallups fengju 36 þingmenn ef kosið yrði nú.
Svarthöfði veltir því fyrir sér hvernig á þessu stendur. Hvernig má það vera að Sjálfstæðisflokkurinn stefnir í að verða smáflokkur, kannski þriðji eða fjórði stærsti flokkur landsins?
Í gær hélt Sjálfstæðisflokkurinn flokksráðsfund. Þar flutti formaðurinn, Bjarni Benediktsson ræðu, sem virðist hafa fallið vel í kramið hjá fundargestum, innvígðum og innmúruðum flokksmönnum. Svarthöfði komst samt ekki hjá því að fá aulahroll yfir ræðu formannsins, sem var uppfull af aulabröndurum og þvættingi, enda meginstef fundarins að „koma gildum Sjálfstæðisflokksins skýrt og örugglega á framfæri“. Aulabrandarar og hótfyndni hafa einmitt verið megingildi Sjálfstæðisflokksins á undanförnum árum, ekki síst í þessi sjö ár sem flokkurinn hefur starfað í vinstri stjórn Katrínar og Bjarna.
Bjarni fullyrti að Íslandi vegni best þegar Sjálfstæðisflokkurinn er við stjórnvölinn og sagði sex vinstri stjórnir hafa setið frá lýðveldisstofnun, sem væri sex of mikið. Þarna telur Svarthöfði Bjarna hafa mismælt sig vegna þess að Bjarni stýrir nú sjálfur sjöundu eða jafnvel áttundu vinstri stjórninni. Hugtakið vinstri stjórn skilgreinist ekki af því að Sjálfstæðisflokkurinn sé utan stjórnar heldur því hvað sú ríkisstjórn gerir. Ríkisstjórn Bjarna og Katrínar er skólabókardæmi um vinstri stjórn sem stundar útgjaldaþenslu eins og enginn sé morgundagurinn, keyrir ríkissjóð í skuldasúpu og skapar verðbólgu sem bitnar á almenningi í landinu, auk þess að vanrækja innviði. Skýrara dæmi um vinstri stjórn finnst ekki.
Bjarni taldi það síðan sér til sóma að hnýta í Dag B. Eggertsson vegna uppgjörs á óteknu orlofi til hans er hann lét af embætti borgarstjóra í upphafi þessa árs. Tók hann þar undir einstaklega ósmekklegar árásir ritstjóra Morgunblaðsins á Dag í blaði sínu vegna þessa máls, þar sem Davíð Oddsson uppnefndi Dag „orlofssugu“.
Svarthöfði er á því að Bjarni Benediktsson hafi sennilega ekki vaknað nógu snemma í gærmorgun til að gefa sér tíma til að renna yfir helstu fjölmiðla áður en hann mætti á flokksráðsfundinn. Slæmt fyrir hann því að hann hefði án efa sleppt því að gera hatursraus Davíðs Oddssonar að sínu ef hann hefði lesið frétt á Vísi um orlofsuppgjör síðustu tíu borgarstjóra Reykjavíkur, sem birtist á netinu kl. 7:01 í gærmorgun.
Þar kom fram að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er sá borgarstjóri sem fengið hefur flesta ótekna orlofsdaga greidda. Sá sem fengið hefur næstflesta ótekna orlofsdaga greidda er enginn annar en Davíð Oddsson, sem fékk 93 orlofsdaga greidda. Dagur er ekki einu sinni í þriðja sæti því að þar situr Markús Örn Antonsson með 90 ótekna daga á þriggja ára borgarstjóraferli. Alllangt að baki þessum orlofskóngum (orlofssugum?) kemur svo Dagur B. Eggertsson með 69 daga eftir tíu ár á borgarstjórastóli.
Svarthöfði sér í hendi sér að seinheppni og óforskömmugheit formanns Sjálfstæðisflokksins og ritstjóra Morgunblaðsins ríða ekki við einteyming. Þeim síðarnefnda hefur tekist að gera Morgunblaðið að ómerkilegum bleðli þrátt fyrir að þar starfi margir færir blaðamenn sem eru vandir að virðingu sinni og sá fyrrnefndi er búinn að keyra Sjálfstæðisflokkinn í pólitískt gjaldþrot.
Svarthöfði skynjar að andstæðingar Sjálfstæðisflokksins mega ekki til þess hugsa að Bjarni eða Davíð hverfi af sviðinu. Saman hefur þeim tekist það sem engum andstæðingum flokksins hafði tekist í 95 ára sögu Sjálfstæðisflokksins. Þeim hefur tekist að gera Sjálfstæðisflokkinn að smáflokki sem tapað hefur áttum og erindi sínu í stjórnmálum. Þetta eru ómissandi menn.