fbpx
Mánudagur 06.janúar 2025
EyjanFastir pennar

Sigmundur Ernir skrifar: Kúvendingar á hægrivængnum

Eyjan
Laugardaginn 31. ágúst 2024 13:30

Sigmundur Ernir Rúnarsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sú var tíðin að Sjálfstæðisflokkurinn átti hægri væng stjórnmálanna á Íslandi með húð og hári – og raunar svo mjög að hann þurfti ekki að hafa áhyggjur af fylgi sínu. Það skilaði sér í kjörkassana í hverjum kosningunum af öðrum eins og hver önnur ósjálfráð hreyfing. Og eftir stóð pattaralegur flokkur afturhaldsins með á að giska fjörutíu prósenta fylgi á landsvísu, jafnvel sextíu prósent í sjálfri höfuðborginni Reykjavík. Fyrir vikið hélt hann völdum, árum og áratugum saman, ef ekki einn og óstuddur, þá með hækju sér til hjálpar, lengst af Framsókn.

En nú er hún Snorrabúð stekkur.

Ástæðan fyrir því að þessi lífsseigi hægriflokkur á nú undir högg að sækja í meira mæli en nokkru sinni áður, er að hann hefur að mörgu leyti yfirgefið sjálfan sig. Hann heldur ekki lengur með stefnumálum sínum. Það er Sjálfstæðisflokknum meira atriði að halda völdum en sínum eigin kúrs. Þar fyrir utan situr í stafni umdeildur formaður sem ítrekað mælist ótrúverðugasti og óvinsælasti ráðherra og stjórnmálamaður landsins. Og líklega er leitun að laskaðri forystumanni Sjálfstæðisflokksins í bráðum hundrað ára sögu hans. Það er engin hjálp í því.

„Það er Sjálfstæðisflokknum meira atriði að halda völdum en sínum eigin kúrs.“

Á sama tíma fitnar helsti keppinauturinn eins og púkinn á fjósbitanum. Og sjálfsagt hefði þurft að tyggja það margsinnis ofan í áhugafólk og sérfræðinga um stjórnmálasöguna fyrir nokkrum árum að Miðflokkurinn ætti í fyllingu tímans eftir að mælast stærra og sterkara stjórnmálaafl en gamli Sjálfstæðisflokkurinn í skoðanakönnunum.

En það hefur nú gerst. Og það eru stórtíðindi í íslenskri pólitík.

Miðflokkurinn sækir afl sitt í harða og skýra innflytjendastefnu. Hann vill reisa skorður við þeim mikla fjölda útlendinga sem hefur komið hingað til lands um langa hríð. Hann geldur sérstakan varhug við hælisleitendum. Og er heldur ekkert sérstaklega viljugur til að taka við fólki frá átakasvæðum eða efnahagslegu flóttafólki. En líklega rímar þetta við skoðanir fjöldamargra íhaldsmanna á Íslandi sem telja einangrun affarasælli en alþjóðlegt samstarf. Herðing komi í stað mannúðar. Og þröskuldar rísi rammgerðir á landamærunum.

Gott og vel. Þetta er skoðun. Og ber að taka sem slíkri.

En það minnir okkur á aðra flóttamenn. Raunar innlenda. Einmitt fólkið sem flýr núna Sjálfstæðisflokkinn í unnvörpum og samsamar sig í æ ríkari mæli með Miðflokknum. Telur hann tala tæpitungulaust í þessum umtalaða málaflokki, ólíkt sínum gamla flokki sem hafi sofnað svo til værðarlega á verðinum í dómsmálaráðuneytinu um áratugaskeið. Og tekið samstarfið við sósíalista fram yfir harðlínu og stefnufestu.

Skipta þá engu rökin sem lúta að mikilvægi og nauðsyn erlends vinnuafls. Og alls þess fjölda sem komið hefur hingað til lands og reist volaða þjóð upp úr efnahagshruni og haldið uppi hagvextinum eftir það. Það gildir einu. Og þótt það vanti núna, svo dæmi sé tekið, ekki færri en eitt þúsund rafvirkja á Íslandi – og er þá bara ein einasta iðngrein nefnd til sögunnar – þá fer betur á því að snúa öllu á hvolf og segja aðflutta ræna Íslendinga störfum. Þetta er tónninn. Og honum er ekki svo auðveldlega breytt. Því hann fer vel í munni. Og hafa eyjaskeggjar líka löngum hræðst allt sem að utan kemur.

Á flokksráðsfundi sjálfstæðismanna um helgina er meginspurningin þessi: Vill Sjálfstæðisflokkurinn sveipa sig skikkju Miðflokksins? Skulu það vera nýju fötin keisarans?

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Arnar fær ekki starfið
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Happdrættisvinningur

Óttar Guðmundsson skrifar: Happdrættisvinningur
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Bríet Ísis Elfar

Steinunn Ólína skrifar: Bríet Ísis Elfar
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Furðulegt kosningakerfi

Óttar Guðmundsson skrifar: Furðulegt kosningakerfi
EyjanFastir pennar
06.12.2024

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?
EyjanFastir pennar
27.11.2024

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum
EyjanFastir pennar
24.11.2024

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur
EyjanFastir pennar
19.11.2024

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?
EyjanFastir pennar
17.11.2024

Vandamál okkar eru léttvæg

Vandamál okkar eru léttvæg