Í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag viðrar Vilhjálmur áhyggjur sínar af stöðu mála hjá hans gamla flokki. Í gær kom út ný skoðanakönnun Maskínu, svokallaður borgarviti, þar sem í ljós kemur að Sjálfstæðisflokkurinn tapar fylgi frá fyrri könnun. Hann fengi nú 20% atkvæða en hafði 23% í síðustu könnun í mars síðastliðnum.
Eins og margir muna var Sjálfstæðisflokkurinn stærsti flokkurinn í síðustu kosningum með 25% fylgi en endaði samt í minnihluta. Sjálfstæðismönnum, ungum sem öldnum, líst ekki á þessa stöðu enda mælist Samfylkingin stærsti flokkurinn í borginni með 26% fylgi.
Sjálfstæðisflokkurinn tapar fylgi í Reykjavík – Sanna Magdalena orðin vinsælli en Dagur
„Ljóst er að staða Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn er óviðunandi. Fylgið hefur um nokkurt skeið verið í lágmarki, eða í kringum 20%,“ segir Vilhjálmur sem hefur áður viðrað áhyggjur sínar af stöðu flokksins, nú síðast í grein í Morgunblaðinu þann 8. ágúst þar sem hann hvatti borgarstjórnarflokk Sjálfstæðisflokksins til að endurskoða vinnulag sitt.
„Það felst meðal annars í því að ná betra sambandi við kjósendur í Reykjavík og kynna vel þau málefni sem borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja áherslu á í störfum sínum á vettvangi borgarstjórnar. Heimsóknir á vinnustaði í hverfum borgarinnar eru í þessu sambandi mikilvægar,“ segir hann og heldur áfram:
„Það er auðvitað ekki viðunandi staða fyrir Sjálfstæðisflokkinn að fylgi við hann í höfuðborginni sé ekki meira en raun ber vitni. Ljóst er að málefnum borgarinnar er ekki vel stjórnað af meirihlutanum í borgarstjórn. Þess sér merki víða í borginni. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins verða að gera sér grein fyrir því að núverandi vinnulag þeirra er ekki líklegt til að færa Sjálfstæðisflokknum aukin áhrif á vettvangi borgarstjórnar. Betur má ef duga skal.“
Vilhjálmur leggur til að borgarfulltrúar flokksins efni til funda í öllum hverfum borgarinnar með flokksbundnum Sjálfstæðismönnum þar sem staða flokksins í borginni verði brotin til mergjar.
„Einnig væri jákvætt að borgarstjórnarflokkurinn kynnti tillögur sínar um aukin tengsl við borgarbúa hvað varðar mikilvæg málefni og aðgerðir í einstökum hverfum borgarinnar. Einungis öflug málefnastaða leggur grunninn að því að Sjálfstæðisflokkurinn verði ekki áfram í minnihluta í borgarstjórn.“