Opinbert eftirlit stendur samkeppnishæfni Íslands fyrir þrifum. Íþyngjandi útfærslur hafa verið valdar auk þess sem fjöldi og umsvif eftirlitsstofnana eru mikil samanborið við grannríki. Tækifæri eru til að ná markmiðum eftirlits með hagkvæmari hætti.
Í úttektinni kemur fram að á Íslandi starfa 3.750 manns hjá 49 opinberum stofnunum sem sinna eftirliti. Tæplega 2.200 manns starfa við eftirlit á borð við löggæslu, tollgæslu og eftirfylgni með greiðslu skatta og gjalda, en sú tegund eftirlits nefnist stjórnsýslueftirlit. Þá starfa um 1.600 manns við svokallað sérhæft eftirlit. Starfsfólk þeirra stofnana framfylgir afmörkuðum eftirlitsreglum sem beinast að fyrirtækjum og einstaklingum.
Eftirlitsstofnanir eru margar, umsvifamiklar og dýrar
Fyrirkomulag opinbers eftirlits er ekki eins og best verður á kosið. Algengast er að opinberum aðilum sé falið bæði reglusetningarvald og framkvæmd eftirlits þó svo að fleiri leiðir séu færar, t.d. útvistun eftirlits til faggiltra eftirlitsaðila. Í úttektinni kemur m.a. fram að:
Á Íslandi eru eftirlitsstofnanir mun stærri en á öðrum Norðurlöndum, hlutfallslega miðað við íbúafjölda. Til dæmis er hlutfallið þrefalt til sexfalt hærra þegar kemur að fjármála-, lyfja- og samkeppniseftirliti. Síðasta áratug hefur starfsfólki eftirlitsstofnana fjölgað um 29% samanborið við 21% fjölgun í einkageiranum.
Við val á útfærslu eftirlits hafa stjórnvöld í of miklum mæli falið opinberum aðilum framkvæmd þess. Hagkvæmari leiðir eins faggilding hafa verið vannýttar þrátt fyrir jákvæða reynslu af slíkri útfærslu.
Um sex af hverjum tíu eftirlitsstofnunum hafa færri en 50 starfsmenn. Fyrir vikið fer of hátt hlutfall rekstrarkostnaðar í stoðþjónustu og stjórnun, auk þess sem gæði þjónustu og möguleikar til sérhæfingar eru takmarkaðri.
Tíu tillögur að hagkvæmara eftirliti
Viðskiptaráð hefur mótað tíu tillögur að bættu fyrirkomulagi eftirlits sem auka hagkvæmni án þess draga úr samfélagslegum ábata. Þannig leiða þær til betri nýtingar skattfjár og aukins athafnafrelsis, sem er undirstaða verðmætasköpunar og bættra lífskjara til langs tíma litið. Tillögurnar eru í þremur flokkum:
Bætt lagaumgjörð: Einungis verði stofnað til eftirlits á grundvelli úttektar á hreinum ábata samfélagsins af slíku fyrirkomulagi. Eins skuli umfang og tegund eftirlitsins taka mið af áhættu eftirlitsskyldu starfseminnar. Dæmi um tillögu hér er að úttektir eftirlitsaðila taki mið af hlítingu og að reglufylgni leiði til lægri tíðni eftirlits.
Færri eftirlitsstofnanir: Stofnanaumhverfi eftirlits verði einfaldað með betri nýtingu skattfjár, minni skörun og hagfelldari framkvæmd að leiðarljósi. Dæmi um tillögu í þessum flokki er sameining Neytendastofu, Fjarskiptastofu og Samkeppniseftirlits í eina stofnun.
Aukin faggilding: Stjórnsýslu- og framkvæmdaþættir eftirlits verði betur aðskildir og framkvæmd útvistað með faggildingu í meiri mæli. Dæmi um tillögu er að heilbrigðisnefndir sveitarfélaga verði lagðar niður. Í stað þeirra verði stjórnsýsluþáttur heilbrigðiseftirlits færður til eftirlitsstofnana og framkvæmdaþáttur til einkaaðila með faggildingu.