Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi fjármálaráðherra, segir Repúblikanaflokkinn í Bandaríkjunum hafa breyst mikið á undanförnum árum. Flokksmenn séu í dag ofstækisfullir furðufuglar sem hafi ákveðið að hatur, óheiðarleiki og kvenfyrirlitning sé eðlileg hegðun.
„Hvað gerist þegar stór hluti þjóðar umhverfist?“ spyr Benedikt í harðorðri færslu á samfélagsmiðlum í dag. „Hættir að virða heiðarleika, sannsögli, stefnufestu eða samkennd, sameinast um hatur á ákveðnum hópum, hlær þegar gert er lítið úr góðu og heiðarlegu fólki, hampar þeim sem níðast á minni máttar, áreitir konur, neitar að viðurkenna úrslit kosninga, beinir stuðningsmönnum sínum gegn lýðræðinu?“
Á hann þá vitaskuld við Donald Trump fyrrverandi forseta sem reyndi að stela kosningunum árið 2020. Eftir kosningarnar réðust stuðningsmenn hans á þinghús Bandaríkjanna og sex manns létust.
Benedikt rifjar upp þegar hann bjó í Bandaríkjunum á yngri árum. Skiptust á að vera í Hvíta húsinu, Repúblikanar og Demókratar. Það er í tíð Bandaríkjaforsetanna Gerald Ford, Jimmy Carter og Ronald Reagan.
Á þessum árum hafi bandaríska þjóðin verið að jafna sig á Víetnamstríðinu og Watergate hneykslinu. Vitaskuld hafi verið flokkadrættir en forystumenn flokkanna tveggja hafi getað talast við og samið um einstök mál. Þeir hafi vitað að það væri miklu meira sem sameinaði þá en sundraði.
„Um daginn fengum við heimsókn frá bandarískum kunningjum okkar. Þau töluðu um hvernig fjölskyldur hafa sundrast vegna þess að Repúblikanar hafa ákveðið að hatur, ósannindi, óheiðarleiki, sérhagsmunagæsla, kvenfyrirlitning og hroki sé eðlileg hegðun,“ segir Benedikt. „Fyrir 40 árum þekkti ég fólk úr báðum flokkum. Það var ekki sammála um stjórnmálastefnu, en Repúblikanar voru almennt ekki ofstækisfullir furðufuglar. Nánast allir studdu frjáls viðskipti og vestræna samvinnu.“
Benedikt telur að hann hefði sennilega orðið frjálslyndur Demókrati, hefði hann verið Bandaríkjamaður. Sú stefna hafi sennilega verið líkust stefnu Sjálfstæðisflokksins á þeim tíma. Þessu hefðu hins vegar margir Sjálfstæðismenn ekki áttað sig á og frekar haldið sig eiga samleið með Repúblikönum.
Flokksþingi Demókrata er nýlokið og Kamala Harris varaforseti orðin formlega frambjóðandi í komandi forsetakosningum. Benedikt segist hafa haft efasemdir um hana. Óttaðist hann að enginn góður frambjóðandi gæti fundist til að stöðva framgang Trump.
„Ég hafði rangt fyrir mér,“ segir Benedikt. „Í nótt horfði ég á flokksþing Demókrata og ræðu Harris. Hún flutti hana vel, með sýn um einingu, áframhaldandi bandalag vestrænna lýðræðisþjóða gegn hættulegri útþenslu Rússa og annarra einræðisþjóða.“
Hafi hún vitnað í móður sína sem hafi sagt: „Hættu að kvarta undan ástandinu, gerðu frekar eitthvað til þess að breyta því.“
„Gleði og ákveðni í því að halda fram veginn í stað þess að snúa aftur til fortíðar einkenndi ræðu varaforsetans og margra annarra sem töluðu á flokksþinginu,“ segir Benedikt að lokum. „Réttlæti, lýðræði og frelsi hafa verið í vörn. Vonandi tekst Kamölu að vinna þessa lotu. Byrjunin lofar góðu.“