Í nýjasta þætti Bakherbergisins, hlaðvarpi þeirra Þórhalls Gunnarssonar og Andrésar Jónssonar, er birt áhugaverð könnun sem sýnir þá málaflokka sem þjóðin telur mikilvægasta um þessar mundir.
Það sem vekur helst athygli eru þau mál sem þjóðin raðar ekki ofarlega á forgangslista eins og til dæmis málefni flóttafólks, orkumál og loftslags og umhverfismál, sem eru þó iðulega mikil hitamál hjá ákveðnum hópum.
Samkvæmt könnuninni vilja landsmenn að stjórnmálamenn einbeiti sér að lækkun verðbólgu, leysi húsnæðis- og lóðamál, sinni heilbrigðismálum og efnahagsmálum almennt.
Annað sem er ofarlega í huga kjósenda um þessar mundir eru umönnun aldraðra, menntamál og samgöngumál.
Könnunin var gerð dagana 15.-21. ágúst og var úrtakið 1.900 manns en svarhlutfallið var 49,4%.
Einnig er í nýjasta þætti Bakherbergisins rætt um litríkan gestalista í stórafmælum þekktra stjórnmálamanna síðustu helgi, veik lífsmörk ríkisstjórnarinnar, slúðrið um að Samfylking, Viðreisn og Miðflokkur séu að íhuga ríkisstjórnarsamstarf, orlofið hans Dags B. og fyrstu níu mánuði Einars Þorsteinssonar í starfi borgarstjóra.
Hægt er að hlusta á þáttinn með því að smella á þennan hlekk. https://open.spotify.com/episode/3IBafy3w5rtFgPMLndP1YQ