fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Eyjan

Ari Kr. Sæmundsen skrifar: Kolefnisjöfnun

Eyjan
Mánudaginn 19. ágúst 2024 13:30

Ari Kr. Sæmundsen, fyrrverandi framkvæmdastjóri.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Var að horfa kvöldfréttir í sjónvarpinu 16. ágúst. Þar var m.a. viðtal við aldinn heiðursmann í sundurtættu mólendi, Saltvíkurbrekkum utan við Húsavík, tæpir 100 hektarar. Búið er að rista svöðusár í gróið land til að rækta þar furu og lerki. Berjalyng, fjalldrapi, einir, lambagras og holtasóley, svo dæmi séu tekin, orðin plógnum að bráð, og mófuglinn hverfur. Gamli maðurinn var skiljanlega ekki sáttur. Þetta var dapurleg sjón. Af hverju eru menn að þessu? Jú, trén eiga að binda koltvísýring einhvern tímann í framtíðinni. Prófessor í landnýtingu við Háskólann á Hólum viðrar efasemdir um þessa aðferðarfræði, að drita niður trjám í gróið land án þess að kanna fyrst bindigetu þess. Færir rök fyrir því að til lengri tíma litið bindi lággróður meira kolefni en skógar. https://www.ruv.is/frettir/innlent/2024-08-18-laggrodur-betri-en-skogur-til-kolefnisbindingar-se-horft-til-lengri-tima-419743

Fyrirtækið, Yggdrasill Carbon, sem að þessu stendur, er með verkefni víðar. Samkvæmt heimasíðu þess er nú þegar búið að planta á aðra milljón trjáa í yfir 500 hektara og bindigeta þessara „skóga“ áætluð um 250.000 tonn af koltvísýringi næstu hálfa öld eða svo, allt í nafni kolefnisjöfnunar. En hvað er það? Ég kíkti á heimasíðu Umhverfisstofnunar. Þar stendur m.a.: „Þegar aðili hlutast til um aðgerðir annars aðila til að draga úr losun gróðurhúsaloftegunda (GHL) og/eða binda kolefni úr andrúmslofti og notar staðfestingu á slíkum samdrætti eða bindingu til að jafna út sína eigin losun að hluta eða öllu leyti“. Svo kemur rúsínan í pylsuendanum: „Ein kolefniseining er eining sem gengið getur kaupum og sölum og felur í sér sönnun þess að losun á einu tonni koldíoxíðsígilda út í andrúmsloftið hafi sparast miðað við óbreytt ástand. Kaupandi slíkrar einingar getur notað hana til að sýna fram á að hann hafi kolefnisjafnað eitt tonn af eigin losun GHL … Við notkun þarf að afskrá viðkomandi einingu þar sem aðeins má nýta hana einu sinni til jöfnunar“. Þar lá að, loftslagsváin er orðin myljandi gróðabisness. Samkvæmt verðskrá Kolviðs kostar nú ein kolefniseining 3.400 krónur. (Kolviður er samstarfsverkefni Skógræktarfélags Íslands og Landverndar.) En í sömu frétt, sem vitnað er til hér að ofan, var líka rætt við glaðbeittan sveitarstjórnarmann, sem sá ekkert annað en jákvætt við þetta jarðrask í Saltvíkurbrekkum. Það gæti skilað sveitarfélaginu dágóðum skildingi í kassann, þegar fram líða stundir, og hann tínir sín ber annars staðar.

Þessar framkvæmdir minna á umfjöllun Heimildarinnar um fyrirtækið Running Tide, sem með blessun íslenskra stjórnvalda sturtaði hátt í 20.000 tonnum af trjákurli í Faxaflóa. Þörungar áttu víst að setjast á kurlið, vaxa þar og dafna, og binda helling af CO2. Kolefniseiningarnar átti svo að selja fyrirtækjum, aðallega í Kanada að mér skilst, sem þá áttu að geta sýnt fram á að þau væru með hreint borð, búin að jafna útblásturinn vegna bindigetu þörunga á tréspæni í Faxaflóa á Íslandi.

Og nú eru uppi áform um að flytja inn þúsundir tonna að CO2 frá Evrópu og dæla niður í Hvassahraun, þar sem það á að steingerast með tíð og tíma. Eitthvert stærsta framlag Íslands í baráttunni við loftslagsbreytingar var haft eftir einum forsvarsmanna fyrirtækisins sem að þessu verkefni stendur, Coda Terminal. Þetta er svo arfavitlaust að ég nenni ekki einu sinni að skrifa um það, en þetta verkefni fellur væntanlega undir skilgreiningu kolefnisjöfnunar þótt tré komi ekki við sögu.

Íslenskir bændur bera sig aumlega. Aðföng eru dýr, vextir háir og afurðaverð lágt. Búskapur er bara basl. Tillaga: Hættið búskap með metanfretandi jórturdýr (metan er líka GHL). Fyllið í skurðina og endurheimtið votlendið. Plantið furu og lerki í túnin og engin. Þið getið örugglega fengið myndarlega styrki í þessar framkvæmdir úr votlendissjóði, tækniþróunarsjóði eða einhverjum öðrum af þeim fjölmörgu sjóðum sem ríkið hefur komið á fót. Fáið svo Umhverfisstofnun eða Kolvið eða eitthvert annað kolefnisvottunarfyrirtæki til að reikna út hvað þessar aðgerðir binda mörg þúsund tonn af koldíoxíðsígildum næstu 50-100 árin. Við flytjum bara inn kjöt og mjólkurafurðir frá ESB og þið getið selt þjáningarbræðrum ykkar á meginlandinu kolefniseiningar til að jafna olíubrennsluna og fretið. Svo eyðið þið bara vetrum á Tene með fjölskyldunni með bankaappið opið og fylgist með peningunum rúlla inn á reikninginn.

Fyrir margt löngu var haft eftir einhverjum forstjóra, sem var að dunda sér við verðsamráð í Öskjuhlíðinni, að fólk væri fífl. Ég er nú ekki alveg tilbúinn að kvitta undir það að við séum almennt fífl, en hitt er morgunljóst að það er fullt af fólki í fullri vinnu við að reyna að hafa okkur að fíflum. Fyrrverandi forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands kallaði þessa s.k. kolefnisjöfnun og sölu kolefniseininga svikamyllu í viðtali fyrir rúmu ári síðan https://www.visir.is/g/20232376464d/tekist-a-um-grodur-setningu-trjaa-thetta-er-svo-mikil-svika-mylla-

Hvað finnst þér, lesandi góður?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Kristrún Frostadóttir: Dagur getur blómstrað í þingflokki Samfylkingarinnar

Kristrún Frostadóttir: Dagur getur blómstrað í þingflokki Samfylkingarinnar
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Svarthöfði skrifar: Verður offitan Trump ofurefli?

Svarthöfði skrifar: Verður offitan Trump ofurefli?
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Þórður Snær verður framkvæmdastjóri þingflokksins

Þórður Snær verður framkvæmdastjóri þingflokksins
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Þorgerður Katrín: Einfeldni í varnarmálum ekki í boði – þurfum að rækta sambandið við Bandaríkin

Þorgerður Katrín: Einfeldni í varnarmálum ekki í boði – þurfum að rækta sambandið við Bandaríkin
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Svarthöfði skrifar: Markaðslaun fyrir kennara – hví ekki markaðskjör?

Svarthöfði skrifar: Markaðslaun fyrir kennara – hví ekki markaðskjör?
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Lántaka ríkisins: Hærri vextir á ríkisvíxlum nú en í desember

Lántaka ríkisins: Hærri vextir á ríkisvíxlum nú en í desember
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Thomas Möller skrifar: Búðu þig undir ESB kosningar

Thomas Möller skrifar: Búðu þig undir ESB kosningar
Eyjan
Fyrir 1 viku

Katrín tekur við stjórnarformennsku af efnahags- og fjármálaráðherra

Katrín tekur við stjórnarformennsku af efnahags- og fjármálaráðherra