Bæjarráð Akureyrarbæjar hefur ákveðið að lækka gjaldskrárhækkanir niður í 3,5 prósent eins og lofað hafði verið í vor. Breytingin tekur gildi 1. september.
DV greindi frá því á miðvikudag að ólga væri á Akureyri vegna þess að boðaðar hækkanir hefðu ekki gengið eftir. Rætt var við bæði formann verkalýðsfélagsins Einingar-iðju og fulltrúa minnihluta í bæjarstjórn sem sögðu málið alvarlegt og að hinar miklu hækkanir síðustu áramót, frá 7,5 upp í 13,2 prósent, myndu koma verst niður á barnafólki og þeim sem minnst hafa á milli handanna. En sveitarfélögin öll höfðu lofað að hækka ekki gjaldskrár meira en 3,5 prósent eftir nýgerða kjarasamninga, til að halda verðbólgunni niðri.
Á fundi bæjarráðs í gær var það samþykkt að draga úr hækkunum og tekur það gildi um næstu mánaðamót. Að sögn formanns bæjarráðs hafði það einnig verið rætt að halda núverandi hækkunum en hækka ekkert um næstu áramót, en sú leið var að lokum ekki farin.