fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
Eyjan

Segir Sjálfstæðisflokkinn ætla að sprengja ríkistjórnina og láta kjósa með skömmum fyrirvara

Eyjan
Miðvikudaginn 14. ágúst 2024 11:28

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sjálfstæðisflokkurinn er kominn í viðbragðsstöðu til að sprengja ríkisstjórnina og boða til kosninga með skömmum fyrirvara í vetur. Forysta flokksins hyggst eigna sér það sem vel hefur tekist í þessu ríkisstjórnarsamstarfi (hvað sem það nú er) og kenna samstarfsflokkunum, Framsókn og VG, um allt sem miður hefur farið, og er þar af nógu að taka.

Sjálfstæðismenn óttast nú að Framsókn hugsi sér til hreyfings og vilji fara í ríkisstjórn með Samfylkingunni og fleiri flokkum eftir næstu kosningar og skilja Sjálfstæðisflokkinn eftir úti í kuldanum og næðingnum sem fylgir stjórnarandstöðu.

Í nýjum Dagfarapistli á Hringbraut skrifar Ólafur Arnarson að Sjálfstæðismenn muni miklu til kosta að ná viðunandi niðurstöðum í komandi þingkosningum og freista þess að komast í faðm Samfylkingarinnar til að geta verið áfram í ríkisstjórn.

Hann nefnir árásir sjálfstæðismanna og Morgunblaðsins á Ásmund Einar Daðason, menntamálaráðherra, sem dæmi um að forysta Sjálfstæðisflokksins óttist nú mjög að lenda í stjórnarandstöðu. Fólk í Valhöll horfi til eyðimerkurgöngu flokksins í Reykjavík, þar sem flokkurinn hefur að mestu verið valda- og áhrifalaus í 30 ár og nú kunni sama staða að blasa við í landsmálunum.

Ólafur gerir viðtal Morgunblaðsins við Hildi Sverrisdóttur, formann þingflokks sjálfstæðismanna, að umfjöllunarefni og segir ljóst vera að þær yfirlýsingar sem Hildur gaf í viðtalinu um að áframhaldandi stjórnarsamstarf með VG og Framsókn komi ekki til greina séu ekki gefnar með vitund og vilja Bjarna Benediktssonar formanns flokksins.

Hann segir árásir sjálfstæðismanna og Morgunblaðsins á Ásmund Einar vera athyglisverðar. Ráðist sé á menntamálaráðherra og að því látið liggja að ógöngur okkar í skólamálum, sem glögglega hafa opinberast að undanförnu, séu alfarið á hans ábyrgð. „Flokksmenn virðast hafa gleymt öllum þeim menntamálaráðherrum Sjálfstæðisflokksins sem hafa ríkt í ráðuneytinu árum og áratugum saman. Eflaust gengur mönnum erfiðlega að muna eftir menntamálaráðherrum flokksins, þeim Illuga Gunnarssyni og Kristjáni Þór Júlíussyni, sem gegndu embættinu árin 2013 til 2017 en komu nær engu í verk á embættisferli sínum. Annað gildir um Björn Bjarnason sem var starfsamur ráðherra menntamála og er einn þeirra sem hafa verið með skæting á síðum Morgunblaðsins í garð Ásmundar Einars.“

Þá segir hann það vekja athygli að Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur hafi verið teflt fram í deilur um málefni barna og barnafjölskyldna, en hún hafi lýst miklum skoðunum á því hvað börnum og barnafjölskyldum sé fyrir bestu hvað varðar skólamáltíðir og námsgögn.

„Varla er hún mestur sérfræðingur Sjálfstæðisflokksins í barnauppeldi og skólamálum. Þá er áberandi hve mikið Morgunblaðið hefur látið ágreining um samræmd próf til sin taka. Meðal annars hefur blaðinu þótt ástæða til að birta um það leiðara þar sem fyrirsögnin er „Lausung í ríkisstjórn“.

Greinendur eiga því ekki að venjast að skólamál af þessu tagi séu skyndilega gerð stórpólitísk. Af nógu er að taka varðandi óafgreidd mál þessarar ríkisstjórnar sem engin samstaða virðist vera um á vettvangi stjórnarinnar. Ætla mátti að stjórnarflokkarnir myndu reyna að einbeita sér að því að ná samstöðu um stóra málaflokka sem ágreiningur er um. Í stað þess er nú bryddað upp á nýjum ágreiningi og spjótum beint að Framsókn, einkum ráðherra flokksins Ásmundi Einari Daðasyni.“

Ólafur gerir því skóna að skýringin á þessum árásum á Framsókn sé sú að Bjarni Benediktsson sé að vakna til vitundar um að verði ekki gripið til róttækra aðgerða muni staða flokksins, sem mælist í sögulegu lágmarki, einungis versna fram að næstu kosningum og versna því meira sem kosningar dragist lengur. Nú sé planið hjá flokknum að nýta góða fjárhagsstöðu flokksins til að ná viðunandi kosningaúrslitum til að komst í ríkisstjórn með samfylkingunni eftir kosningar, en Sjálfstæðisflokkurinn hefur fullar hendur fjár eftir að Reykjavíkurborg heimilaði honum að selja byggingarreiti á lóð sinni við Valhöll. Allir aðrir flokkar séu staurblankir að vanda.

Dagfara í heild má lesa hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt