fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
EyjanFastir pennar

Sigmundur Ernir skrifar: Baráttan um hægra fylgið

Eyjan
Laugardaginn 10. ágúst 2024 15:15

Sigmundur Ernir Rúnarsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sjálfstæðisflokkurinn hefur formlega farið þess á leit að hann verði hægriflokkur. Og það sem meira er, að hann haldi langtum lengra til hægri en hann hefur átt að sér á undanförnum árum. Annað verður ekki lesið út úr orðfæri varaformannsins. Það þurfi að herða tökin. Og er nema von, því flokkurinn hefur setið í svokallaðri vinstristjórn um langa hríð, leiddur og taminn af leiðtogum sósíalískasta flokksins sem á fulltrúa á Alþingi. Og slík hefur vellíðanin verið með vinstrimönnum að hjúskaparheitin voru endurnýjuð á sínum tíma – og yrðu það sjálfsagt enn á ný, ef á allt væri kosið.

En flokkurinn hefur með öðrum orðum týnt erindi sínu. Það hendir nefnilega flokka sem fara aftur úr sér. Og á því áttar varaformaðurinn sig. Það má hann svo sannarlega eiga.

Á meðan þessu hefur undið fram hefur annað íhald á afturhaldskanti íslenskra stjórnmála sankað að sér því fylgi sem gamli hagsmunagæsluflokkurinn hafði gengið að sem tryggu og traustu á lengstum kafla lýðveldissögunnar. Miðflokkurinn reyndist nefnilega aldrei vera á miðjunni í íslenskri pólitík, heldur svo hallur undir hægrisinnaða hentistefnu að hann hefur ekki einu sinni reynt að fela eðli sitt og inntak. Hann er þjóðernissinnaður íhaldsflokkur sem vill reisa girðingar og múra í kringum eyríkið svo hvorki innflytjendur né erlend sambönd eigi hingað nokkurt erindi. En hvoru tveggja fylgi áhætta fyrir alíslenskt samfélag. Og gott ef ekki ófriður og eyðilegging á þjóðlegum verðmætum sem hafa orðið til hér í fásinni nesjamennskunnar.

„En stóra spurningin er auðvitað þessi: Hvað merkir væntanleg herðing Sjálfstæðisflokksins?“

Fylgi þessara tveggja flokka á hægri kanti þjóðmálanna fer að mælast á að giska jafnt ef fram heldur sem horfir. Sjálfstæðisflokkurinn er við það að detta niður fyrir sautján prósentin ef þróun fylgiskannana á síðustu misserum er gefinn gaumur. Miðflokkurinn stefnir augljóslega upp fyrir fimmtán prósentin ef sömu tilhneigingar gætir á meðal kjósenda á þessum væng stjórnmálanna.

En stóra spurningin er auðvitað þessi: Hvað merkir væntanleg herðing Sjálfstæðisflokksins? Hvert ætlar hann sér að fara? Hvað er að hafa hægra megin við gamla íhaldið?

Að fortíð skal hyggja er framtíð skal byggja, segir orðatiltækið – og þar er einkar vert að hafa í huga að á velsældarárum sínum á seinni hluta síðustu aldar var Sjálfstæðisflokkurinn bandalag breiddarinnar. Hann boðaði stétt með stétt. Hann var víðsýnn flokkur vestrænnar samvinnu. Og það var eitthvað svo traustvekjandi í fari hans að fólk, sem sagðist hvorki hafa nokkurn áhuga á pólitík né minnsta vit á henni, sagðist bara ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Í því fælist vísast minnsta áhættan.

En það leiðir líka hugann að því að Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei verið harður og hreinræktaður hægriflokkur. Hann hefur fyrst og fremst verið valdaflokkur í hagsmunagæslu fyrir útvalin öfl sem geta skarað eld að eigin köku. Á þann veg hefur hann ávallt staðið gegn frjálsri samkeppni og einkarekstri sem ógnað gæti innvígðum. Og þvert á stefnu sína hefur hann þanið báknið eins og blöðru sem er við það að springa. Á seinustu árum hefur hann svo heldur veifað einangrunarstefnu fremur en alþjóðahyggju. Breiddin hefur viki fyrir einsleitni. Og sjálfstraustið breyst í beiskju.

Fari Sjálfstæðisflokkurinn í fötin af Miðflokknum, eins og allt virðist stefna í, og taki að hatast út í allt sem að utan kemur, liggur beinast við að tvær fylkingar standi eftir í íslenskri pólitík. Þrjátíu prósenta samanlagt hægrið haldist í hendur, en miðjan rísi og taki við keflinu til frambúðar. Og það er einmitt það merkilega sem er að gerast í íslenskri pólitík nú um stundir. Hægrið á jafn bágt og vinstrið.

Svo það er nokkurn veginn augljóst hvað tekur við.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða þjóðin

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða þjóðin
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Sveifluríkið Ísland

Sigmundur Ernir skrifar: Sveifluríkið Ísland
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa
EyjanFastir pennar
19.10.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Fimmtugastaogfyrsta ríkið

Óttar Guðmundsson skrifar: Fimmtugastaogfyrsta ríkið
EyjanFastir pennar
18.10.2024

Steinunn Ólína skrifar og talar: Loftlausir hoppubelgir

Steinunn Ólína skrifar og talar: Loftlausir hoppubelgir
EyjanFastir pennar
11.10.2024

Svarthöfði skrifar: Eins og farsi eftir Dario Fo

Svarthöfði skrifar: Eins og farsi eftir Dario Fo
EyjanFastir pennar
11.10.2024

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd): Sameinumst – hjálpum þeim

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd): Sameinumst – hjálpum þeim