Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra ritaði grein í Morgunblaðið í morgun þar sem hún lýsir miklum efasemdum um að öll börn í grunnskólum landsins fái ókeypis námsgögn og mat. Hún segir börnin bera litla virðingu fyrir því sem þau eigi ekki sjálf, um sé að ræða sóun á almannafé og að fæstir foreldrar þurfi á slíkri aðstoð að halda. Áslaug Arna endurbirti greinina á Facebook-síðu sinni. Þar fær hún yfir sig mikla gagnrýni í athugasemdum og gerir Áslaug nokkrar tilraunir til að verjast gagnrýninni.
Áslaug segist hafa fengið þær upplýsingar frá kennurum að börnin beri enga virðingu fyrir námsgögnum sem þau fá gefins og fari illa með þau. Þar að auki fái þau of mikið af námsgögnum sem þau noti ekki. Það sé ekkert annað en sóun:
„Þegar öll námsgögn eru ókeypis er hætta á að tilfinningin fyrir því að passa dótið sitt og fara vel með hverfi. Börnin læra ekki að hlúa að því sem þau eiga, því þau eiga það ekki í raun. Í stað þess að efla ábyrgðartilfinningu skapar kerfið umhverfi þar sem virðingarleysi ríkir og eignir missa verðgildi sitt,“ skrifar Áslaug Arna.
Áslaug segir Hafnarfjarðarbæ hafa ákveðið að hætta að bjóða upp á ókeypis námsgögn. Tilkynning um slíkt finnst hins vegar ekki í fljótu bragði á heimasíðu sveitarfélagsins.
Flest sveitarfélög landsins hafa undanfarin ár útvegað nemendum í grunnskólum námsgögn endurgjaldslaust. Nýlega samþykkti Samband íslenskra sveitarfélaga einnig að til að liðka fyrir gerð kjarasamninga með því að gera máltíðir í grunnskólum landsins gjaldfrjálsar. Áslaug segir algjöran óþarfi að bjóða öllum grunnskólabörnum upp á ókeypis mat því flestir foreldrar hafi efni á að greiða fyrir hann.
Eins og áður segir er nokkuð hart sótt að Áslaugu Örnu í athugasemdum við þessa færslu hennar. Meðal þeirra er Hrefna Sigurjónsdóttir fyrrum framkvæmdastjóri Heimilis og skóla sem skrifar meðal annars:
Nú þegar greiða foreldrar útsvar til síns sveitarfélags, háa skatta o.s.frv. og þeir greiða fyrir skólamáltíðir sem að mínu mati ætti að vera kappsmál að hafa gjaldfrjálsar svo öll börn geti nærst vel í skólanum. Oft er horft til Svíþjóðar og Finnlands í skólamálum og þar greiða sveitarfélögin skólamáltíðir og auðvitað námsgögn.
Ef einhvers staðar á að stuðla að jöfnuði þá er það í grunnskólanum, skyldunámi barna. Í raun ætti sú hugsun að tryggja jafnt aðgengi að námi óháð efnahag, búsetu og öðrum aðstæðum að ná sem lengst í menntakerfinu, upp framhaldsskólann og inn í háskólann. Það er fjárfesting sem skilar sér til framtíðar. Ekki baunatalning á skattfé sem varið er í námsgögn grunnskólabarna.“
Meðal annarra athugasemda eru til að mynda:
„Mjög sorgleg afstaða ráðherra sem ber með sér algjört skilningsleysi á stöðu barna og fjölskyldna þeirra. Hið rétta er að það hefur orðið mikill sparnaður vegna þess að skólar nýta vel skólagögnin, þ.e stílabækur, býanta ofl. Skólinn er hornsteinn jöfnuðar og það að jafna stöðu barna og barnafjölskyldna gerir samfélagið betra. Í raun er ólöglegt skv barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að láta börn/ foreldra greiða fyrir námsgögn í grunnskóla. Foreldrar og börn kunna víst að meta námsgögnin.“
„Þvílíkt bull og vitleysa hjá þér Áslaug. Ekkert er mikilvægara en að öll börn standi jafnfætis í skólagöngu, óháð stöðu forráðamanna.“
Þessari athugasemd svarar Áslaug Arna með því að vissulega eigi að stuðla að jöfnum tækifærum en að hennar mati eigi að beina stuðningnum til þeirra sem þurfi virkilega á honum að halda.
Einna harðorðastur er Þór Saari fyrrverandi þingmaður Hreyfingarnar sem skrifar:
„Þetta heitir virðingarleysi fyrir sameiginlegum eignum, ekki skortur á eignarétti, og er uppeldismál. Að vísu er þetta líka ákveðinn skapgerðarbrestur meðal sjálfstæðismanna sem halda að það sé ekkert til sem heitir sameiginlegt, en það er ykkar Kleppur að díla við, þið eruð ein í heiminum með það. Hvað þú ert svo að þvæla skólamáltíðum inn í þetta er alveg furðulegt eins og margt annað sem kemur frá þér. Skólabörn eiga að sjálfsögðu að fá heitan, góðan og hollan mat í hádeginu eins og fólk á flest öllum öðrum vinnustöðum því skólinn er vinnustaður.“
Áslaug Arna svarar Þór og tekur heilshugar undir það að grunnskólabörn eigi að fá góðan og hollan mat í hádeginu en að eðlilegt sé að foreldrar þeirra taki þátt í kostnaðinum. Beina eigi stuðningi eins og ókeypis máltíðum og námsgögnum til þeirra sem þurfi mest á slíku að halda.
Þessu svarar Þór með eftirfarandi hætti:
„Það er þessi meinloka ykkar í Sjálfstæðisflokknum að flokka fólk í hina efnameiri og hina fátækari sem er virkilega ógeðfellt yfirstéttar viðhorf.“
Í annarri færslu segir Áslaug Arna að þessi orð hennar hafi vakið sterk viðbrögð bæði jákvæð og neikvæð. Hún segist hafa fengið skilaboð frá kennurum sem séu sammála henni. Hún ber sig illa vegna fréttar RÚV í hádegisfréttum um grein hennar og segir að ekki hafi verið haft samband við hana til að fá hennar sjónarmið. Hún segir að í fréttinni sé því ranglega haldið fram að öll viðbrögð við greininni hafi verið neikvæð og að allir séu á móti þessari skoðun hennar.
Í netútgáfu fréttarinnar er þó engu slíku haldið fram. Rætt er við Þorsteinn Sæberg, formann Skólastjórafélags Íslands sem segist ekki kannast við sóun á námsgögnum í grunnskólum. Þvert á móti sé vöntun á námsgögnum. Einnig er rætt við Vilhjálm Birgisson formann Starfsgreinasambandsins sem einna harðast beitti sér fyrir ókeypis máltíðum í grunnskólum landsins. Hann segir meðal annars að um sé að ræða 37 þúsund króna launahækkun á mánuði fyrir fjölskyldur með tvö börn á grunnskólaaldri. Vilhjálmur segir þessi ummæli Áslaugar, um að það sé ekki vel farið með almannafé að gefa öllum grunnskólabörnum mat, og námsgögn vera dapurleg.