Skiptum er lokið hjá einkahlutafélaginu Gourmet en félagið hélt úti rekstri á veitingastaðnum Sjáland í Garðabæ. Lýstar kröfur í búið voru 780.824.305 krónur. Samkvæmt auglýsingu um skiptalokin í Lögbirtingablaðinu greiddust búskröftur að fjárhæð 350 þúsund krónur sem og tæpar 6 milljónir í forgangskröfur. Ekkert fékkst greitt upp í almennar og eftirstæðar kröfur.
Félagið var úrskurðað gjaldþrota í lok september í fyrra og varð töluvert uppnám í kjölfarið enda var um að ræða einn vinsælasta vettvang brúðkaupsveislna að ræða og mörg verðandi hjón sem lentu í vandræðum þess vegna.
Í svari við fyrirspurn DV vildi Hjördís E. Harðardóttir lögmaður og skiptastjóri þrotabúsins, ekki veita frekari upplýsingar um stærstu kröfuhafa né annað varðandi rekstur fyrirtækisisn.
Sjá einnig: Nokkuð stórt gjaldþrot hjá fyrrverandi eiganda Mathúss Garðabæjar
Gourmet ehf. var í eigu Stefáns Magnússonar, veitingamanns, en húsnæðið var í eigu annars félags, Arnarvogs ehf. Í janúar á þessu ári var síðan tilkynnt um að félagið Toppform ehf., sem heldur utan um fasteignir World Class-veldisins, hefði keypt húsnæðið á 700 milljónir króna. Í bígerð er að stækka húsið og opna þar líkamsræktarstöð og margskonar aðra starfsemi.
Stefán rak fleiri staði í þrot en greint var frá því um miðjan júlí að skiptum væri lokið í Brunch ehf., sem var á bak við rekstur Mathús Garðabæjar, sem síðan hefur gengið í gegnum endurnýjun lífdaga hjá nýjum eigendum.
Engar eignir fundust í búi Brunch ehf. en lýstar kröfur í búið voru rúmlega 110 milljónir króna. Lýstar samanlagðar kröfur í bæði þrotabúin eru því rétt tæplega 900 milljónir króna.