Ólympíuleikarnir standa yfir þessa dagana í Parísarborg. Íslenska sveitin er fámenn og ólíkleg til einhverra afreka. Árangur Íslendinga á ólympíuleikum er vandræðalega lélegur að frátöldu þrístökki Vilhjálms Einarssonar í Melbourne 1956. Síðan hefur allt verið á niðurleið.
RÚV sinnir þó keppninni af myndarskap og er öll önnur dagskrá í skötulíki. Gamalt fólk sem miðað hefur líf sitt við fréttatíma RÚV er feltmri slegið og elliglöp fara stigversnandi. Sund, leikfimi og dýfingar einoka sjónvarpsskjáinn allan daginn.
Einu Íslendingarnir í heimsklassa á ÓL eru lýsendur hjá RÚV Ingi Þór, Sigurbjörn o.fl. Ég hef búið lengi í útlöndum og fylgst með Ólympíuleikum í sjónvarpi. Íþróttafréttaritarar eru venjulega spenntir þegar þeirra fólk keppir en sýna öðrum takmarkaðan áhuga. Lýsendur RÚV eru alltaf jafnæstir hver sem í hlut á. Þeir lýsa keppni í leikfimi, loftbyssuskotfimi og strandblaki eins og þjóðarsómi sé í húfi. Skylmingar Kínverja og Kóreumanna eru spurning um líf eða dauða.
Allt er jafn skemmtilegt, lyftingar, dýfingar og frjálsar! Í lok dags koma enn fleiri álitsgjafar uppblásnir af lýsingarorðum og aðdáun á keppni dagsins. Íslensku keppendurnir gráta í beinni og segjast aldrei munu gefast upp þótt enginn þeirra komist á námunda við verðlaunapallinn. Þetta minnir á frægar fótboltalýsingar frá EM 2016 þegar íslenska landsliðið stóð sig með ágætum. Lýsandinn æpti og öskraði og lifði sig af slíkri ákefð inn í leikinn að hann varð heimsfrægur fyrir tryllinginn.
Kannski gæti þarna verið um að ræða nýja keppnisgrein á ÓL: Hvaða fréttamaður verður æstastur og æpir hæst í keppnum sem skipta engu einasta máli? Hver lifir sig af mestri ástríðu inn í róðrarkeppnina eða bogfimina. Ég þori að veðja að Íslendingar gætu loksins unnið tvöfalt í þeirri keppni.