fbpx
Fimmtudagur 21.nóvember 2024
Eyjan

Hjálmar segir umræðu um samræmd próf ótímabæra á meðan lestur er slakur – Skóli án aðgreiningar hafi gengið sér til húðar

Kristinn H. Guðnason
Föstudaginn 2. ágúst 2024 14:00

Hjálmar segir að ástæða sé til að bregðast við lestrarvandanum en það verði að byrja á réttum enda. Mynd/Keilir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hjálmar Árnason, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins og skólameistari, segir ástæðu lélegs læsis íslenskra nemenda þá að þeir séu ekki að lesa. Hann segir að stefnan „Skóli án aðgreiningar“ hafi gengið sér til húðar og spyr hvort það megi ekki leggja niður námsbókaútgáfu ríkisins.

„Krakkarnir eru ekki að lesa,“ segir Hjálmar í færslu á samfélagsmiðlum. Hjálmar, sem er kennari að mennt, var þingmaður Framsóknarflokksins árin 1995 til 2003 og þar áður skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurnesja.

Umræða um samræmd próf ótímabær

„Að undanförnu hefur mátt lesa um vangaveltur ýmissa aðila um gildi og aðferðafræði við námsmat. Svo sem vænta mátti eru skoðanir skiptar. Kemur ekki á óvart enda til fjöldi rannsókna og greina um kosti og galla ólíkra matsaðferða. Hver skyldi nú vera ástæða umræðunnar?“ spyr Hjálmar og vísar í heitar umræður um hvort taka skuli aftur upp samræmd lokapróf eftir tíunda bekk. En það hefur Viðskiptaráð lagt til við mótmæli margra kennara.

Hann segir þessar umræður sprottnar af slöku gengi ungmenna í skóla, ekki síst stráka. Það sé vissulega ástæða til að bregðast við því að stór hópur sé illa læs því lestur er grunnur allrar menntunar.

„Enginn lærir að lesa á samræmdum prófum. Þess vegna ættum við sem samfélag að byrja á því að taka höndum saman um að efla lestrargetu barnanna okkar. Byggjum grunninn áður en við bætum öðrum hæðum við,“ segir Hjálmar. „Ekki er ég í nokkrum vafa um að aukin lestrargeta ungmenna muni lyfta skólastarfi um mörg þrep. Þá getum við haldið áfram að velta fyrir okkur matsaðferðum.“

Ólæs af því að þau lesa ekki

Hjálmar athugaði málið og spurði nokkur ungmenni út í þeirra lestur. Fékk hann þau svör að almennt læsu þau fremur lítið. Ein af skýringunum var að bækurnar í skólanum væru einfaldlega leiðinlegar. Önnur að mikill tími færi í samfélagsmiðla og tölvuleiki.

„Undirritaður er enginn sérfræðingur á þessu sviði en hið augljósa blasir samt við: Krakkarnir eru ekki að lesa!! Og fyrir vikið verða þau mörg nánast ólæs. Ekki flókið,“ segir Hjálmar. „Við þessu þarf að bregðast ef við viljum bæta menntastig þjóðarinnar. Verjum orkunni í þetta forgangsmál. Geymum skoðanaskipti um samræmd próf eða önnur á meðan. Við vitum fyrirfram útkomuna – við skorum lágt meðan vaxandi hópur er illa læs.“

Leggja niður ríkisútgáfu námsbóka

Við þessu vandamáli segist Hjálmar ekki hafa neina töfralausn. En að auka lestur sé mikilvægt, það er að skapa börnunum umhverfi og hvatningu til að þau taki upp bók og lesi. Æfingin skapi meistarann.

Sjá einnig:

Pawel saknar samræmdu prófanna – „Besta forvörn gegn frændhygli og klíkuskap“

Ábyrgðin á þessu sé ekki alfarið á kennurum. Foreldrar beri ábyrgð heima fyrir á að veita börnunum aðhald og hvatningu til náms. Jafn vel þó það taki tíma frá áðurnefndum hlutum.

En Hjálmar nefnir einnig önnur atriði. Svo sem varðandi framboð á þeim bókum sem nemendum er boðið upp á í skólum.

„Má ekki leggja niður útgáfu ríkisins á námsbókum og fela útgáfufyrirtækjum að efla eftirsóttar og skemmtilegar bækur?“ spyr hann.

Kennarar að bugast undan álagi

Þá segir hann að stefnan um skóla án aðgreiningar hafi algjörlega gengið sér til húðar. Himinn og haf sé á milli þroska og getu bekkjarfélaga.

„Grunnskólakennarar eru hreinlega að bugast undan álagi og orkan í mörgum tilvikum fer minna í kennslu og meira í agavandamál,“ segir Hjálmar. „Stokkum grunnskólann upp að nýju þannig að hann verði spennandi staður fyrir lærdóm.“

Skólasamfélagið, heimilin, atvinnulífið og stjórnvöld þurfi að taka höndum saman um að skapa grunn fyrir menntun barnanna. Ekki byrja á öfugum enda og eyða púðri í ótímabæra umræðu um mælingar. „Þær koma síðar ef okkur tekst að gera börnin okkar þokkalega læs. Þorpið elur upp barnið,“ segir hann að lokum.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Arion banki sá að sér eftir að upp úr sauð á Fjármálatips

Arion banki sá að sér eftir að upp úr sauð á Fjármálatips
Eyjan
Í gær

Gunnar bendir á sláandi staðreynd um stýrivextina – „Hvergi í veröldinni er auður hinna ríku varinn af eins miklum ákafa“

Gunnar bendir á sláandi staðreynd um stýrivextina – „Hvergi í veröldinni er auður hinna ríku varinn af eins miklum ákafa“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Kosningar: Lilja og Alma takast á um skatta og innviðafjárfestingu

Kosningar: Lilja og Alma takast á um skatta og innviðafjárfestingu
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Bregðast við stjórnarskrárbroti Alþingis – „Þetta er hið raunverulega andlit og arfleifð Sjálfstæðisflokksins“

Bregðast við stjórnarskrárbroti Alþingis – „Þetta er hið raunverulega andlit og arfleifð Sjálfstæðisflokksins“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Ragnar segir tíma til kominn að þora að spyrja stóru spurninganna um lífeyrissjóðina – „Við erum þrælar eigin kerfis“

Ragnar segir tíma til kominn að þora að spyrja stóru spurninganna um lífeyrissjóðina – „Við erum þrælar eigin kerfis“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Þingkosningar: Lilja segir ríkisstjórnina hafa fjárfest mikið í innviðum – Alma segir innviðskuldina ógna orkuskiptum

Þingkosningar: Lilja segir ríkisstjórnina hafa fjárfest mikið í innviðum – Alma segir innviðskuldina ógna orkuskiptum
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Grein 4 um ESB/evru: Þýzkaland tók evru fram yfir sitt ofursterka mark (DM) – hvað segir það okkur?

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Grein 4 um ESB/evru: Þýzkaland tók evru fram yfir sitt ofursterka mark (DM) – hvað segir það okkur?