Robert Z. Aliber prófessor við Chicago háskóla kom hér ári fyrir stóra hrun krónunnar og fall bankanna. Hann komst í fréttir fyrir það að mæla hita hagkerfisins með því að telja byggingakrana.
Á þeim tíma taldi hann að gengi krónunnar væri 30% of hátt metið. Flestir létu það mat fara inn um annað eyrað og út um hitt.
Eftir hrun var hins vegar farið að taka mark á prófessornum. En það var ekki hægt að tryggja eftir á.
Í byrjun júní á þessu ári kom Robert Z. Aliber enn til landsins til þess að tala á ráðstefnu um fjárfestingar lífeyrissjóða.
Sautján árum eftir að prófessorinn kom fyrst vaknar spurningin: Eigum við að skella skollaeyrum við orðum hans eins og árið fyrir hrun eða leggja við hlustir eins og árið eftir hrun?
Engum sögum fer af því að prófessorinn hafi talið byggingakrana í júní.
En hann fór á veitingahús og komst að þeirri niðurstöðu að verðgildi krónunnar væri 15 til 20% of hátt. Það er helmingi betra en fyrir stóra hrun krónunnar.
Hitt er, að reynist matið vera rétt er það alvarleg vísbending um að við séum ekki á réttri leið.
Svo var það annað, sem prófessor Aliber sagði í júní og litla athygli hefur vakið.
Hann komst sakleysislega að orði með því að segja að afnema yrði skiptinguna milli innlendra og erlendra fjárfestinga lífeyrissjóða.
Í raun og veru merkir þetta varfærna orðalag að gjaldeyrishöftin séu ekki gott meðal við meinsemdum í þjóðarbúskapnum. Hliðarverkanirnar séu verri en meðalið sjálft eins og alþekkt er með gjaldeyrishöft.
Helmingur af eignum lífeyrissjóða er í gjaldeyrishöftum. Það jafngildir ríflega heilli þjóðarframleiðslu. Með því að lífeyrissjóðirnir vaxa hraðar en þjóðarframleiðslan vex umfang gjaldeyrishaftanna jafnt og þétt með hverju ári.
Engin vestræn þjóð, sem styðst við markaðsbúskap, bindur jafn stóran hluta þjóðarframleiðslunnar í bagga gjaldeyrishafta og eykur hlutfall þeirra stöðugt.
Hliðarverkanir þessara miklu gjaldeyrishafta eru margs konar. Þær snerta hagsmuni fyrirtækja og einstaklinga eftir ótal leiðum. Sumar þeirra eru beinar en aðrar krókóttar.
Ríkisstjórninni finnst ekki ástæða til að íhuga málið.
Þá er ekkert eftir nema þessi efi af því að prófessorinn hafði einu sinni rétt fyrir sér.
Reynslan sýnir að það er óráð að loka augunum fyrir jafn alvarlegri skekkju í þjóðarbúskapnum.