fbpx
Sunnudagur 21.júlí 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Indriði í samtímaspegli

Eyjan
Sunnudaginn 21. júlí 2024 13:30

Drottningin af Saba sækir heim Salómon konung hlaðin gjöfum. Olíumálverk eftir Edward Poynter frá árinu 1890.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ekkert er nýtt undir sólinni,“ er Salómon konungur látinn mæla í Prédikaranum, en Salómon mun hafa verið uppi á tíundu öld fyrir Kristburð. Sem sagt langt aftur í fyrndinni, meira að segja löngu áður en Hómerskviður voru ortar. Mér varð hugsað til þessa spakmælis „að ekkert væri nýtt undir sólinni“ er ég las á dögunum endurminningar Indriða Einarssonar, Sjeð og lifað, sem út komu 1936. Frændi minn, Eyþór Árnason skáld með meiru, benti mér á bókina á ættarmóti fyrr í sumar en Indriði var bróðir langalangafa míns, fæddur á Húsabakka í Skagafirði 1851 og lést í Reykjavík í hárri elli 1939. Meðal ættingja minna er stundum enn talað um „Indriða frænda“ sem sýnir að einhverju marki hve tíminn er afstæður og sumu frændfólki mínu verður tregt um tungu þegar rifjuð eru upp hin voveiflegu örlög frænda okkar, Reynisstaðarbræðra, er urðu úti á Kili í vetrarbyrjun 1780 — „þar sem í snjónum bræðra beið beisklegur aldurtili“ eins og skáldið orti.

Indriði brautskráðist frá Lærða skólanum 1872, hélt því næst til Hafnar og lauk fyrstur Íslendinga hagfræðiprófi 1877. Hann var endurskoðandi landsreikninga allt fram að heimastjórn og vann að hagskýrslugerð. Hann starfaði í Stjórnarráðinu eftir stofnun þess 1904 og þar til hann fór á eftirlaun. Indriði er vitaskuld þekktastur sem leikritaskáld og af leikritum hans ber hæst að nefna Nýársnóttina.

Merkilegar hliðstæður

Indriði gerir þjóðfélagsmálin á landshöfðingjatímanum mjög að umtalsefni og þar birtast furðu margar hliðstæður við okkar tíma. Á ofanverðum áttunda áratug næstliðinnar aldar barðist Grímur Thomsen á Alþingi fyrir stofnun viðlagasjóðs sem síðan átti að lána til bænda. Indriði var ekki hlynntur slíkri opinberri sjóðasöfnun og rifjar í endurminningunum upp orð séra Arnljótar Ólafssonar sem í þingræðu kvaðst ekki vilja „heimta skatta af gjaldþegnum, til þess að ávaxta þá í viðlagasjóði, því þeir ávaxtast hvergi betur en í vasa gjaldþegnanna sjálfra“. Séra Arnljótur hafði numið hagfræði við Hafnarháskóla en lauk ekki prófi. Hann samdi þó Auðfræði sem er fyrsta íslenska hagfræðiritið. Jón Þorláksson viðraði ámóta viðhorf og séra Arnljótur tæpum sextíu árum síðar. Þeir sem tala á okkar tímum um stofnun einhvers sem kallað er „þjóðarsjóður“ mættu gefa þessu gaum. Peningunum er vitaskuld betur komið hjá borgurunum sjálfum en í opinberum sjóðum.

Indriði segir frá því hvernig menn til sveita ömuðust við því að of hátt hlutfall útgjalda landssjóðs færi til embættismanna í Reykjavík en gleymdu því þá að embættismennirnir í höfuðstaðnum þjónuðu landinu öllu. Við heyrum þennan söng enn þegar þess er krafist að dreifa starfsemi ríkisins vítt og breytt um sveitir — rétt eins og menn skilji ekki til hvers höfuðstaðir eru.

Í bókinni er þess getið að verðmætasköpunin hafi verið svo mikil í útgerðarbænum Reykjavík að eitt árið hafi 10 milljónir af 16 milljóna króna tekjum ríkissjóðs það árið komið þaðan. En þegar Indriði ritar bók sína voru Reykvíkingar orðnir fjórðungur landsmanna en áttu þó bara einn tíunda hluta alþingismanna. Misvægi atkvæða er sem betur fer ekki eins óskaplegt og áður var en samt er munurinn alveg tvöfaldur þar sem hann er mestur. Og jafnrétti í þessum efnum á sér fáa formælendur nú um stundir.

Lagasetning er oft til óþurftar

Indriði starfaði náið með Magnúsi Stephensen landshöfðingja og segir hann hafa verið besta lögfræðings landsins en getur þess að miklir lögfræðingar séu að jafnaði íhaldsmenn, en miklir löggjafar venjulega frjálslyndir. Það var á þeirri tíð þegar stór hluti þingheims var klassískt menntaður og þegar landshöfðingja ofbuðu þýðingarlaus og þýðingarlítil lagafrumvörp um allt og ekki neitt varð honum jafnan að orði: „Plurimae leges, pessimae respublicae“, sem útleggst sem svo að því fleiri sem lögin verða því lakari verður hagur almennings. Mætti ekki segja að það ætti við um lagafarganið sem streymir frá Alþingi nú um stundir? Flest af því horfir til aukinnar skattbyrði og minna athafnafrelsis borgaranna.

Þegar Indriði settist sjálfur á þing 1891 gaf Benedikt Sveinsson sýslumaður honum nokkur heilræði, meðal annars að tala ekki oft „en mæla þarft eða þegja“. Þetta mættu „ræðukóngar“ meðal þingmanna okkar tíma hafa í huga. Þegar Indriði sat á þingi kom það aðeins saman annað hvort ár og ekkert rúm fyrir það tilgangslitla málæði sem oft einkennir stjórnmálin á okkar tímum.

Framúrkeyrsla og óheyrileg skuldsetning

Indriði minnist á einkunnarorðin á hornsteini Alþingishússins sem eru: „Sannleikurinn mun gera yður frjálsa“ og fengin úr Jóhannesarguðspjalli. Þeim vísdómsorðum mætti nú gjarnan huga betur að. Indriði var eftirlitsmaður með byggingu hússins og skyldi sjá til þess að engu yrði sólundað. Áætlaður kostnaður við bygginguna voru 100.000 kr. Á endanum nam kostnaðurinn 105.000 kr. þegar húsið var fullgert 1881 en þessar 5.000 krónur svöruðu hér um bil til grunnsins sem byrjað var á. Upphaflega stóð til að húsið yrði reist þar sem nú mætast Bankastræti og Skólavörðustígur. Þar var tekinn grunnur en síðan ákveðið að finna húsinu stað við Austurvöll. Á næstliðinni öld var hægt að láta kostnaðaráætlanir opinberra framkvæmda standast en það virðist útilokað á okkar dögum þrátt fyrir alla þá mennta- og tæknibyltingu sem orðið hefur síðan. Hvernig getum við látið þetta viðgangast?

En það sem Indriða sárnaði mest í þjóðarbúskapnum þegar komið var fram á fjórða áratug síðustu aldar var hin óheyrilega skuldsetning og yrði ekkert aðhafst til að stemma stigu við henni „þá drukknar menning vor í fyrirlitningu annarra þjóða“. Þetta var árið 1936 þegar framsóknarmenn og jafnaðarmenn voru við völd en skuldaklafinn nú hefur orðið til í fjármálaráðherratíð sjálfstæðismanna sem á árum áður stærðu sig af því að vera fremri fulltrúum annarra flokka í ábyrgri stjórn ríkisfjármála. Sparnaðarhyggjan á sér fáa formælendur á okkar tímum.

Að skilja verðmæti

Indriði segir frá því er hann var við framhaldsnám í Edinborg 1878 að hann kynntist þarlendri konu sem dvalist hafði sumarlangt á Íslandi og lært íslensku. Það sem henni hefði þótt merkilegast þar nyrðra var að allir skildu sama tungumálið. Í Englandi og Skotlandi væri stéttamunurinn svo djúpstæður að undir hælinn lagt hvort menn skildu hverjir aðra. Að áliti konunnar var íslenskur almenningur jafnan vel greindur og upplýstur. Þá blönduðust stéttir manna miklu meira á Íslandi hún átti að venjast í Bretlandi. Á Íslandi hefðu allir menn verið læsir en því var síður en svo að heilsa á Bretlandseyjum.

Íslendingar stefna nú hraðbyri í öfuga átt, fjölmargir fara ólæsir út í lífið (og það hneyksli fæst lítið rætt), stór hluti þeirra sem sest hér að lærir ekki tungumálið og stéttaandstæður magnast — þær verða nefnilega ekki eingöngu mældar með tekjudreifingunni. Andstæðurnar eru líka menningarlegar. Fyrir samfélagið eru fólgin ómetanleg verðmæti í því að allir skilji hverjir aðra, og skilji menningu sína og sögu — eigi sálufélag við gengna forfeður og standi föstum fótum í tilverunni.

Indriði sagði þjóðina ekki mega glata hugmyndum um „skyldu, sóma, frægð og föðurlandsást“. Ef það henti þá væri „ellin og vanmátturinn yfir hana komin“. Henni tækju að glepjast sjónir: „Hún gerir þá hverja heimskuna á fætur annarri, og þær leiða hana fram til síðustu upplausnar. Vonandi erum vjer ekki svo langt leiddir.“

Það er nefnilega svo að þjóðir og tungur geta hreinlega liðið undir lok á skömmum tíma af heimsku einni og ríki leysts upp eins raunin varð um Ísraelsríki eftir daga hins vitra og auðuga Salómons konungs.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Assange

Óttar Guðmundsson skrifar: Assange
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Við erum saman í liði

Steinunn Ólína skrifar: Við erum saman í liði
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Frelsi listamanna

Óttar Guðmundsson skrifar: Frelsi listamanna
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Glæpurinn gegn mannkyninu

Steinunn Ólína skrifar: Glæpurinn gegn mannkyninu
EyjanFastir pennar
20.06.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Lítil auðnubót fyrir stofnanir lýðræðisins

Þorsteinn Pálsson skrifar: Lítil auðnubót fyrir stofnanir lýðræðisins
EyjanFastir pennar
19.06.2024

Svarthöfði skrifar: Þarf alltaf að vera með leiðindi?

Svarthöfði skrifar: Þarf alltaf að vera með leiðindi?
EyjanFastir pennar
14.06.2024

Svarthöfði skrifar: Þess vegna er Viðreisn í bjórfylgi

Svarthöfði skrifar: Þess vegna er Viðreisn í bjórfylgi
EyjanFastir pennar
14.06.2024

Steinunn Ólína skrifar: Í dag erum við öll Akurnesingar

Steinunn Ólína skrifar: Í dag erum við öll Akurnesingar