fbpx
Laugardagur 11.janúar 2025
EyjanFastir pennar

Steinunn Ólína skrifar: Kennslustund í sumarúða

Eyjan
Föstudaginn 19. júlí 2024 06:00

Steinunn Ólína leikkona.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Við vinkonurnar lögðum land undir fót á sólardeginum síðasta og hugðumst baða okkur í sveitalaug en tókst til allrar blessunar að villast. Borgarfjörðurinn skartaði sínu fegursta og þessi viðbætti útsýnistúr gerði mig aflvana af fegurðinni. Með andköfum stundi ég endurtekið: Sérðu, hvað er fallegt!, svo stalla mín kvað við meðan hún þrasaði við Google maps: „Þú ert haldin fegurðarlömun.“

Fegurðarlömun er einmitt það sem íslenskt sumar býður manni. Að gefast upp fyrir fegurð landsins í skilyrðislausri lotningu.

Núna er hátími fegurðarinnar, birkið sperrt og eiturgrænt, lífsorkan sjálf. Ég hvet hugleiðsluforvitna til að fá sér sæti og virða fyrir sér hjartalaga laufin, ilminn góða og dást að heilandi grænunni sem endurgeldur margfaldlega. Þannig fá þeir sem halda sig ástarvana alla þá ást sem þeir þarfnast. Það er loforð. Ég kemst ekki hjá að minnast á friðsamlegt, Fuck you – Stafafurunnar sem kennir okkur með gamansemi auðmýkt gagnvart yfirburðum náttúrunnar.

Núna er tíminn til að tína blóðbergið, bragðbesta te sem íslensk jörð gefur, fara varlega og rífa ekki upp með rótum, leggja lófana fyrir vitin og anda að sér. Nú blómstrar líka mjaðjurtin með möndlubragðið sérstaka og blágresið fínasta sem úr má gera fagurt síróp. Með hönskum skal netlurnar tína og þurrka svo ekkert grandi manni í komandi vetrarflensum. Muna svo að þakka jörðinni fyrir gjafirnar.

Að liggja á grúfu og láta jörðina gleypa sig er allra best, þar verður nú aldeilis gott að hvílast þegar hylkið gefur sig. „Af jörðu ertu komin og að jörðu skaltu aftur verða.“ Jörðin ilmar, gefur og þiggur og allt er gott.

Í Skorradalnum er svo gróið orðið og hlýlegt að maður getur ekki annað en dáðst að verkum allra þeirra sem þar hafa gróðursett. Þetta er orðinn fjölbreyttur skógur, ævintýralegt er að læðast milli trjánna, míkrókosmískir mosakollar, fuglar syngja, allt iðar af lífi. Svona getum við manneskjurnar gert fallegt í kringum okkur og unnið með náttúrunni ef sá gállinn er á okkur.

Seinna lá leiðin til Hvanneyrar, mikill myndarbragur á öllu þar. Garðar slegnir, túnin eins og vandað flauel og svæðið við gamla skólasetrið með fegurri bæjarstæðum. Liðinn tími.

Ullarselið gegnt kirkjunni smáu með einstakt handverk íslenskra prjónsnillinga og loks verðlagt rétt fyrir verkið, handspunnið garn, dýrðleg ull úr forystufé, ærrekjanlegar dokkur, hnappar og tölur úr horni og beini, geitafiðan yndismýksta. Fyrirmynd annarra verslana því hér er íslenskt handverk í öndvegi, ekkert sálarlaust á boðstólum. Við eigum menningarfjársjóði í að sækja og við getum gert svo vel ef hugsunin er gæði, ekki gróði. Allt sem vel er gert verður að gulli í margvíslegum myndum. Á sama stað er sýning á efri hæð um konur í landbúnaði og þar á vegg tilvitnun í ónafngreinda konu:

„Ég hef ekki rúllað og plægt, en ég slæ, sný, raka, tæti og keyri skít.“

Í Englendingavík tók fyrirmyndarvertinn Margrét Rósa á móti okkur með faðminn opinn. Allt verður fallegra sem hún kemur nálægt. Lítið göldrótt leikfangasafn í skemmu, öllum opið og ekki rukkað fyrir. Listin að gera öðrum til góða, sýna af sér örlæti og fegra heiminn er listgrein Margrétar Rósu og til eftirbreytni fyrir gestgjafa landsins.

Í morgun var smávegis úrkoma, svo létt að maður fann varla fyrir henni á hörundinu, en á vatnið féll hún og myndaði hæglátan nið. Stalla mín sagði: „Þetta geta þeir droparnir þegar þeir taka sig til.“ Svona hljómar samstaðan, hugsaði ég.

Samstaða þarf ekki að snúast um yfirgang og hávaða. Örsmáir, hæglátir rigningardropar á vatni kunna þetta og kenna. Ef við viljum læra og meðtaka. Samstaða er að vera einn af mörgum, renna saman við heildina og saman mynda hægan en ákveðin róm.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Litla saklausa jólabarn

Steinunn Ólína skrifar: Litla saklausa jólabarn
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Pælingar um raunsæi og bjartsýni

Þorsteinn Pálsson skrifar: Pælingar um raunsæi og bjartsýni
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ýmislegt stórt mun gerast

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ýmislegt stórt mun gerast
EyjanFastir pennar
09.12.2024

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu
EyjanFastir pennar
30.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Leiðinleg kosningabarátta

Óttar Guðmundsson skrifar: Leiðinleg kosningabarátta
EyjanFastir pennar
29.11.2024

Steinunn Ólína skrifar: Ég trúi því að alheimurinn vilji okkur vel

Steinunn Ólína skrifar: Ég trúi því að alheimurinn vilji okkur vel
EyjanFastir pennar
22.11.2024

Steinunn Ólína skrifar: Óheiðarleiki er smitsjúkdómur

Steinunn Ólína skrifar: Óheiðarleiki er smitsjúkdómur
EyjanFastir pennar
21.11.2024

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!