fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Eyjan

Bandarísk stjórnmál: Biden vill koma böndum á Hæstarétt Bandaríkjanna

Eyjan
Miðvikudaginn 17. júlí 2024 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, er sagður áforma að hvetja til stórra breytinga á Hæstarétti Bandaríkjanna á komandi vikum. Meðal annars er gert ráð fyrir að settar verði reglur um skipunartíma dómara, en þeir eru nú æviráðnir og geta setið svo lengi sem þeir sjálfir kjósa, og siðareglur með viðurlögum.

Þetta hefur bandaríska stórblaðið The Washington Post eftir tveimur aðilum sem fengið hafa kynningu á áformum forsetans.

Þá er forsetinn sagður hyggjast kalla eftir breytingu á stjórnarskrá Bandaríkjanna í þá veru að skýrt komi fram í stjórnarskránni að forseti landsins og aðrir embættismenn sem kveðið er á um í stjórnarskrá njóti ekki víðtækrar friðhelgi að lögum vegna gjörða sinna í embætti.

Í blaðinu segir að þetta lýsi mikilli viðhorfsbreytingu af hálfu Bidens, sem er fyrrverandi formaður dómsmálanefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings og hefur löngum staðið í vegi fyrir því að gerðar verði stórar breytingar á lagarammanum utan um æðsta dómstól þjóðarinnar.

Þessi breytta afstaða forsetans er talin tilkomin vegna vaxandi óánægju meðal stuðningsmanna hans vegna hneykslismála í kringum Clarence Thomas, sem meðal annars hefur þegið stórar gjafir í formi fjárframlaga, ferðalaga og lána á einkaþotum frá auðmönnum, sem sumir hverjir hafa verið með mál fyrir Hæstarétti. Einnig hafa nýlegir dómar hins íhaldssama meirihluta réttarins þar sem snúið hefur verið við dómahefð í málum varðandi þungunarrof og valdsvið eftirlitsstofnana alríkisstjórnarinnar.

Biden er sagður hafa farið yfir væntanlegar breytingar á Zoom fundi með hópi framsækinna þingmanna.

„Ég mun þurfa ykkar aðstoð varðandi Hæstarétt vegna þess að ég ætla ekki að stíga fram – ég vil ekki tilkynna þetta of snemma – en ég er í þann mund að setja fram stóra áætlun um að koma böndum á réttinn … undanfarna þrjá mánuði hef ég unnið með stjórnarskrársérfræðingum og ég þarf aðstoð,“ sagði Biden, samkvæmt endurriti af símtalinu sem The Washington Post hefur undir höndum.

Takmarkanir á skipunartíma dómara og siðareglur þyrftu samþykki Bandaríkjaþings, sem gæti orðið snúið þar sem repúblikanar hafa meirihluta í fulltrúadeildinni og meirihluti demókrata í öldungadeildinni er naumur. Núgildandi reglur kveða á um að 60 atkvæði af 100 þarf til að ná breytingum í gegnum öldungadeildina.

Enn snúnara er að ná fram breytingum á stjórnarskránni, en til þess þarf 2/3 atkvæða í báðum deildum þingsins eða samþykki 2/3 hluta allra ríkja Bandaríkjanna á ríkjaráðstefnu, auk samþykkis ¾ ríkisþinga.

Mikil hægri slagsíða á Hæstarétti

Í Hæstarétti Bandaríkjanna sitja níu dómarar og sex þeirra mynda nú mjög íhaldssaman meirihluta. Donald Trump skipaði þrjá af þessum sex. Margir dómar réttarins á undanförum árum hafa snúið við dómafordæmum sem gilt hafa í áratugi. Má þar m.a. nefna Roe gegn Wade, sem tryggði konum rétt til þungunarrofs og afnam rétt ríkisþinga til að takmarka þann rétt.

Nýjasti dómurinn sem vakið hefur miklar deilur er ákvörðun íhaldssama meirihlutans 1. júlí sl. að Donald Trump njóti friðhelgi vegna gjörða sinna í embætti kjörtímabilið 2017-21.

Síðar þann dag sagði Biden: „Ákvörðunin í dag er áframhald árása réttarins á undanförnum árum á margvíslegar réttarreglur sem lengi hafa verið haldnar í heiðri hér á landi, allt frá því að takmarka kosningarétt og borgaraleg réttindi til þess að afnema sjálfsákvörðunarrétt kvenna til ákvörðunarinnar í dag, sem grefur undan réttarríkinu.“

Í haldsmeirihlutinn í Hæstarétti komst einnig að þeirri niðurstöðu á síðasta ári að niðurfelling á námslánaskuldum, sem Biden hafði ákveðið, væri andstæð stjórnarskránni.

Átta öldungadeildarþingmenn demókrata hafa lagt fram frumvarp sem myndi takmarka skipunartíma hæstaréttardómara við 18 ár þannig að á tveggja ára fresti verði nýr dómari skipaður. Níu nýjustu dómararnir sætu þá í réttinum hverju sinni í áfrýjunarmálum en eldri dómarar gætu komið að málum, sem einungis eru flutt í Hæstarétti og stigið inn sem varadómarar ef einn þeirra níu yngstu er vanhæfur í máli eða forfallast á annan hátt.

Þá hefur öldungadeildarþingmaðurinn Elizabeth Warren lagt fram frumvarp sem m.a. setur hámark á verðmæti gjafa sem dómarar mega þiggja og gerir dómurum skylt að gera skriflega grein fyrir ákvörðunum sínum um eigið hæfi eða vanhæfi, óski annar málsaðila eftir því.

Donald Trump hefur gagnrýnt áform Bidens um að setja þrengri lagaramma um Hæstarétt. Í færslu á samfélagsmiðli sínum, Truth Social, skrifaði hann: „Demókratar eru að reyna að hafa áhrif á forsetakosningarnar og eyðileggja réttarkerfið okkar með því að ráðast á pólitískan mótherja, MIG, og okkar virðulega Hæstarétt.“ Hann bætti við: „Við verðum að berjast fyrir okkar réttlátu og sjálfstæðu dómstólum og vernda landið okkar.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Kristrún Frostadóttir: Lítum á þingflokka ríkisstjórnarinnar sem einn stóran þingflokk – nýtt verklag við landsstjórnina

Kristrún Frostadóttir: Lítum á þingflokka ríkisstjórnarinnar sem einn stóran þingflokk – nýtt verklag við landsstjórnina
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Haraldur Ólafsson skrifar: Nei, Thomas, þetta er ekki svona

Haraldur Ólafsson skrifar: Nei, Thomas, þetta er ekki svona
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Grænlandsraunir

Óttar Guðmundsson skrifar: Grænlandsraunir
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Andri Snær kemur Carbfix til varnar – „Ég hef þessa skoðun, get skipt um skoðun“

Andri Snær kemur Carbfix til varnar – „Ég hef þessa skoðun, get skipt um skoðun“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Tímamóta-Dagur þakkar fyrir sig – „Og angurværi gaurinn – ég – til hægri, þakkar fyrir sig!“

Tímamóta-Dagur þakkar fyrir sig – „Og angurværi gaurinn – ég – til hægri, þakkar fyrir sig!“
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Vilhjálmur Birgisson skrifar: Mikilvægi faglegrar erlendrar úttektar á gjaldmiðlamálum

Vilhjálmur Birgisson skrifar: Mikilvægi faglegrar erlendrar úttektar á gjaldmiðlamálum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Fyrrum þingmaður segir okkur ekki ráða við þetta einfalda verkefni

Fyrrum þingmaður segir okkur ekki ráða við þetta einfalda verkefni
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ásdís Rán útilokar ekki annað forsetaframboð

Ásdís Rán útilokar ekki annað forsetaframboð